Síldarævintýrið 2004.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

3/8/04

Ágætu hátíðargestir!

Hefði nokkurt annað heiti en "Síldarævintýrið" hæft betur staðbundinni sumarhátíð Siglfirðinga sem nú er orðin árviss viðburður og dregur að sér mörg þúsund gesti? Síldin var sannarlega ævintýri líkust í þjóðlífi okkar á liðinni öld. Enginn staður naut viðlíka frægðar um allar jarðir og Siglufjörður í því sambandi, en nú í ár eru hátíðahöldin óvenju fjölbreytt og fyrirferðarmikil af því að þess er minnst að öld er liðin frá því að Íslenska síldarævintýrið hófst og glæsilegir áfangar síldarminjasafnsins eru formlega teknir í notkun. Ég óska Siglfirðingum innilega til hamingju með safnið sem er okkur öllum til mikils sóma.

Síldveiðar og síldarverkun - síldariðnaður - varð þegar fram í sótti sannkallaður stóratvinnuvegur, stóriðja, ekki aðeins söltunin, heldur bræðsla, frysting og niðursuða. Verksmiðjur og frystihús risu á æ fleiri stöðum sem vel lágu við miðum. Vaxandi tækni og reynsla létti róðurinn við veiðar og vinnslu og margfeldisáhrifin komu víða fram. Á síldarárunum var atvinnulífið þó fábreyttara en nú og að því skapi meira undir því komið hvort sumarið varð gott eða síldin brást. Það gilti jafnt um einstaklinginn, byggðarlögin þar sem allt snerist um "silfur hafsins" og atvinnu- og viðskiptalífið í heild sinni.

En það voru ekki aðeins sjómenn, útgerðarmenn og síldarkaupmenn sem biðu vertíðarinnar milli vonar og ótta. Sumir strákarnir á bátunum og stelpurnar á planinu og fleiri í hópi landverkafólksins áttu það mörg hver undir þessum dularfulla fiski hvort þau kæmust í skóla næsta vetur eða gætu haldið áfram námi. Þannig átti hann drjúgan þátt í menntun og framförum í landinu og hér lærði fólk að vinna á unga aldri. En þótt sjóðurinn væri misjafnlega gildur eftir árum gleymdist stritið þegar haustaði og minningarnar hrönnuðust að, ljúfar og sárar, um litríka daga og bjartar nætur á norðurslóðum.

Það segir sig sjálft að oft vildi verða nokkur Klondyke-bragur á mannlífinu þegar mest var um að vera. Undir það taka áreiðanlega gamlir Siglfirðingar og margir aðrir sem til þekktu. Það lifnar yfir þeim þegar þeir rifja upp gamla daga, heyra flautaðan hálfgleymdan lagstúf, nefndan gamlan "brakka" eða þegar þeim verður litið upp í Hvanneyrarskál. Oft varð líka reynslan snöggtum áþreifanlegri en minning í hugskoti, því að margan hitti Amorsörin misjafnlega fast. Sumir sáu hér lífsförunaut sinn í fyrsta sinn eða stofnuðu til ævilangra kynna og vináttu. Aðrir fengu viðskiptahugmynd sem þeir fylgdu eftir, græddu eða töpuðu. Enn aðrir settust hér að.

Öll þessi síldarsinfónía hefur fyrir löngu öðlast sinn sess í listum okkar og bókmenntum. Um hana urðu til lög og ljóð. Kristín Jónsdóttir og Muggur voru í essinu sínu þegar þau festu síldarböllin á Siglufirði á léreftið. Hólshyrnan má heita fastur liður á Siglufjarðarmyndum Gunnlaugs Blöndals og hver kannast ekki við lýsingar Þórbergs úr síldinni á Akureyri forðum eða "Guðsgjafaþulu" Halldórs Laxness með Íslandsbersa í aðalhlutverki, að ekki sé talað um minni spámenn?

Sjálfri er mér í minni það hlutverk sem síldin lék í lífi fólks, einkum hér norðanlands, á bernsku- og unglingsárum mínum í Höfðahverfi.

"Það er gaman á Grímseyjarsundi

við glampandi kveldsólareld,"

var þá sungið. Þar sem brætt var stóð grár verksmiðjustrókurinn beint upp eða hann lagði inn eða út með viðeigandi peningalykt eftir því af hvaða átt hann blés. Jafnvel á þeim sem ekki unnu þó beint við síldina var eins og brúnin léttist þegar vel gekk og bændur í miðjum heyönnum urðu að minnsta kosti að heyra í fréttunum hve mikið hefði veiðst, hve miklu hefði verið landað og hve mikið væri búið að bræða og salta. Það skipti greinilega miklu máli. Og væri svo horft út og vestur yfir fjörðinn vissi maður að bakvið fjöllin sem við blöstu var Siglufjörður, frægastur allra síldarbæja!

Ég endurtek hamingjuóskir með nýja áfanga Síldarminjasafnsins um leið og ég flyt kveðjur þingmanna NA-kjördæmis. Þetta safn er svo sannarlega á heimsmælikvarða enda hefur það unnið til alþjóðlegra verðlauna.

Takk fyrir samveruna. Gangi ykkur vel.

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval