Úthlutun úr Tækniþróunarsjóði fyrir árið 2004.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

16/6/04

Ágætu blaðamenn og aðrir gestir.

Tilefni þessa fundar er að greina frá úthlutunum úr Tækniþróunarsjóði á þessu fyrsta starfsári sjóðsins.

Biðin eftir sjóði sem létti undir fjármögnun tækniþróunar- og nýsköpunarverkefna var orðin löng. Fyrir mörgum árum síðan var orðið ljóst að fjöldi verkefna sem hlutu stuðning úr rannsóknasjóðunum - náðu ekki að skila af sér ávinningi fyrir frumkvöðilinn eða samfélagið. Þau voru ekki þróuð til enda - en döguðu í þess stað uppi vegna fjárskorts. Afleiðingin varð því oft sú að fjárfesting sem farið hafði til rannsókna á fyrri stigum ónýttust að mestu.

Það voru því vel þekkt sannindi að það vantaði traustan aðila til þess að bera uppi áframhaldandi þróun á rannsóknarniðurstöðum og öðrum nýsköpunarhugmyndum svo þær yrðu að söluhæfum afurðum.

Þótt að miklum árangri hafi verið náð með tilkomu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins árið 1997 var enn óbrúuð gjá í fjármögnuninni. Samfellu skorti í stuðningsferlið frá því að hagnýtum rannsóknum lauk og þar til að verkefnin höfðu verið þróuð það langt að framtaksfjárfestar, eins og Nýsköpunarsjóður, væru tilkomnir til að koma að fjármögnun þeirra. Á fyrstu starfsárum sínum lagði Nýsköpunarsjóður sig fram um að teygja sig sem lengst í átt að þörfum þessara frumkvöðla, en meira þurfti til.

Með tilkomu Vísinda- og tækniráðs - fyrir rúmu ári síðan - og þeim breytingum sem gerðar voru á opinberum stuðningi við rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun var ákveðið að bæta úr þessu.

Stofnun Tækniþróunarsjóðs er ein veigamesta breytingin sem varða á stuðningi ríkisins við þennan málaflokk. Segja má að með tilkomu hans hafi náðst bærileg samfella í opinberum stuðningi við allt ferlið frá því að hugmynd að vísindarannsóknum verður til og fram til þess að ný söluhæf afurð er tilbúin til markaðssetningar.

Á þessu fyrsta starfsári sínu hefur Tækniþróunarsjóður 200 m.kr. til ráðstöfunar. Fjárveitingar til sjóðsins munu vaxa árlega til ársins 2007 en þá er gert ráð fyrir að árlegar fjárveitingar til þessa veigamikla málaflokks verði komin í 500 m.kr. Með þessu og með eflingu Rannsóknarsjóðs stefnir ríkisstjórnin að því að rúmlega tvöfalda ráðstöfunarfé opinberra samkeppnissjóðs fram til 2007.

Í mínum daglegu störfum sem iðnaðarráðherra hef ég margsinnis staðið frammi fyrir frumkvöðlum sem skýrt hafa fyrir mér álitlegar hugmyndir um framleiðslu nýrra tækja eða hluta sem mjög líklega hefðu getað skilað árangri á alþjóðlegum markaði. Oft varð ekkert úr því vegna fjárskorts og óar mér við þeim verðmætum sem þar hafa farið forgörðum.

Tilkoma Tækniþróunarsjóðs er mér því persónulega mikið fagnaðarefni og vænti ég mikils af störfum hans í framtíðinni. Miðað við þær umsóknir sem bárust sjóðnum er ljóst að mikil gróska er í nýsköpuninni. Það takmarkaða fé sem er til ráðstöfunar þarf að nýta vel í þágu hennar enda er nýsköpun í atvinnulífinu ein megin forsenda efnahagslegra framfara og félagslega velferðar á Íslandi.

Takk fyrir. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval