Ársfundur Iðntæknistofnunar.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

13/5/04

Ágætu ársfundargestir.

I.

Það eru góðar fréttir sem okkur hafa borist að undanförnu um stöðu þjóðarbúsins og horfurnar framundan. Hinar almennu efnahagshorfur eru jákvæðar sem gefur okkur vonir um bjartari tíma fyrir atvinnuþróunina og nýsköpun atvinnulífsins, en verið hefur.

Þeir voru ófáir sem töldu að það hagvaxtarskeið sem hófst með uppbyggingu orku- og iðjuvera á Austurlandi árið 2003 yrði skammvinnt. Þeir sáu fyrir sér alvarlegt bakslag á árinu 2007 - þegar nálgaðist lok þessara framkvæmda. Samkvæmt nýrri þjóðarspá fjármálaráðuneytis, fyrir árin 2004 til 2010, kveður við annan og betri tón - og er þar gert ráð fyrir áframhaldandi hagvaxtarskeiði allt tímabilið.

Nú er reiknað með 4 ½% hagvexti á þessu ári og 5% árið 2005. Árið 2006 verður þá fjórða árið í röð þar sem spáð er yfir 4% hagvexti. Athyglisvert er að inn í þetta reikningsdæmi hefur verið gert ráð fyrir skattalækkunum frá og með næsta ári. Þá er það einnig athyglisvert – séð í víðara samhengi - að sá hagvöxtur sem við njótum nú er einn sá mesti sem þekkist í iðnríkjum heimsins.

II.

Utan úr heimi berast okkur einnig góð tíðindi. Það hefur spurst út að í óbirtri skýrslu um samkeppnishæfni þjóða árið 2004, World Competitiveness Yearbook, sé Ísland metið sem fimmta samkeppnishæfasta land í heimi. Samkvæmt þessu hefur Ísland hækkað á síðustu fimm árum um fimm sæti, en við vorum í tíunda sæti á listanum um samkeppnishæfustu þjóðir heims árið 2000.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyið –hefur í allmörg ár fylgst með þessu mati og er nú beðið með óþreyju eftir að skoða einstaka mælikvarða sem liggja til grundvallar þessari heildareinkunn. Það virðist þó nokkuð ljóst að markviss vinna við að bæta starfsumhverfi atvinnulífsins er að bera árangur

III.

Frá því að við hittumst hér á ársfundi Iðntæknistofnunar í fyrra hefur það einna markverðast gerst á þessum vettvangi að Vísinda- og tækniráð hefur tekið til starfa. Fyrir þá sem láta sig tækniþróun og nýsköpun atvinnulífsins einhverju varða er mikilvægasti hluti af þessari nýbreytni vafalítið tilkoma Tækniþróunarsjóðs – annarsvegar, og lögfesting á starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Impru – hins vegar.

Það hefur lengi staðið atvinnulífinu fyrir þrifum að fjármagn til að styðja við þróun tækniþekkingar og nýsköpunar hefur verið af mjög skornum skammti. Við höfum haft rannsóknasjóði sem veitt hafa fé til grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna en eftir að þeim lýkur og við tekur þróun viðskiptahugmyndar hefur lítill stuðningur verið fáanlegur. Úr þessu hefur nú verið bætt og í lok janúar var auglýst eftir umsóknum um styrki úr Tækniþróunarsjóði.

Þessi nýi sjóður verður rekinn af Rannís samkvæmt samningi við iðnaðarráðuneytið. Hann mun gegna veigamiklu hlutverki við fjármögnun nýsköpunarverkefna. Frumstig nýsköpunar hefur verið í algeru fjársvelti og lítið sem ekkert fé verið fáanlegt til að veita álitlegum hugmyndum brautargengi og þróa þær á það stig að þær verði áhugaverðar fyrir framtaksfjárfesta. Tækniþróunarsjóðurinn mun nú brúa það bil sem verið hefur á milli gömlu Rannís sjóðanna og aðkomu framtaksfjárfestanna.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki úr Tækniþróunarsjóði í janúar s.l. og eru viðbrögð við tilkomu hans að vonum bæði mikil og jákvæð. Hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Markmiðið er í sama anda: - að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Ef fram koma umsóknir um framúrskarandi verkefni sem líkleg eru til að hafa afgerandi áhrif á samkeppnishæfi atvinnulífsins getur fjárstuðningur úr Tækniþróunarsjóði orðið mjög myndarlegur. Slík verkefni er mögulegt að styrkja um allt að 30 milljónir króna á þriggja ára tímabili, eða um 10 m.kr. á ári í þrjú ár.

Nú er verið að vinna úr þeim u.þ.b. eitthundrað umsóknum, sem bárust og vonast ég til að niðurstöður um úthlutun sjóðsins liggi fyrir í lok þessa mánaðar.

Tækniþróunarsjóður hefur 200 milljónir kr. til ráðstöfunar á þessu fyrsta starfsári sínu. Framlag til hans fer stigvaxandi og miðað við áætlanir verða 500 milljónir kr. til ráðstöfunar árið 2007, eða eftir þrjú ár. Það er því ljóst að þessi nýi sjóður mun verða mjög mikilvæg, og löngu tímabær, lyftistöng fyrir íslenska frumkvöðla og atvinnulíf.

IV.

Nýsköpunarmiðstöðin, sem rekin er hjá Iðntæknistofnun, og í daglegu tali er þekkt sem IMPRA, er fyrir löngu orðin viðurkennd sem einn veigamesti bakhjarl nýsköpunar og atvinnuþróunar um allt land.

Á það er oft bent að nýsköpun atvinnulífsins byggist fyrst og fremst á framförum í vísindum og tækni. Þrátt fyrir það verður ekki framhjá því litið að nýsköpunin á sér mun fjölbreyttari rætur. Má í því sambandi t.d. benda á mikilvægi menningarstarfsemi fyrir nýsköpun atvinnulífsins. Í nýbirtri könnun sem Dr. Ágústs Einarssonar vann kemur fram að menningarstarfsemi skaffar um 4% til landsframleiðslunnar sem augljóslega skiptir umtalsverðu máli í hagkerfi okkar. Til nánari samanburðar má geta þess að um 5.000 manns starfa við menningu hérlendis, sem er álíka fjöldi og vinnur í - útgerð - annars vegar og í - hótel og veitingarekstri - hins vegar.

Skapandi atvinnustarfsemi er mjög umfangsmikil og er talið að um 23 % af vinnumarkaðinum tengist þessum greinum. Ástæða er til að beina stuðningsumhverfi nýsköpunar í auknum mæli að þessum skapandi greinum, enda eiga áherslur okkar í nýsköpun ekki að eiga sér nein landamerki. Ég veit að Impra hefur í auknum mæli horft til sóknarfæra á þessum vettvangi, og styður ráðuneytið það.

Meðal þessara verkefna er rekstur samstarfsvettvangs um hönnun, en hönnun telst til þeirra skapandi atvinnugreina sem vafalítið eiga eftir að skila okkur miklu. Starfsemin um hönnun er í mótun en hjá Impru mun m.a. verða upplýsingamiðstöð um íslenska hönnun; á vegum hennar verður efnt til kynninga á íslenskri hönnun heima og erlendis; þar verður vettvangur faglegrar umræðu um hönnun; og unnið að því að efla samstarf hönnuða og framleiðenda með það að markmiði að auka verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi.

Ég bind miklar vonir við það að Impra geti stuðlað að framgangi skapandi atvinnugreina í framtíðinni og að samstaða náist um hvernig best verði að því staðið - innan þess fjölbreytta hóps sem að þessum atvinnugreinum standa.

V.

Ég minntist á tilkomu Vísinda- og tækniráðs hér að framan. Vafalítið verður á þeim vettvangi fjallað um flest það sem lýtur að starfsumhverfi Iðntæknistofnunar og annarra rannsóknastofnana sem starfa innan vébanda ríkisins. Að mínu mati er fyrir löngu orðið tímabært að huga að verkefnum opinberra rannsóknastofnana, m.a. verkaskiptingu og tengslum við rannsóknarstarfsemi fyrirtækja og þeirra sem starfa á almennum markaði.

Um þessa starfsemi í heild sinni vantar skýra framtíðarsýn þar sem m.a. er fjallað um fyrirkomulag opinberrar rannsóknarstarfsemi, forgangsröðun og samþættingu hennar. Hið alþjóðlega umhverfi rannsókna og tækniþróunar breytist hratt og hið agnarlitla rannsóknarumhverfi á Íslandi þarf að hafa næginlegan sveigjanleika til að fylgja þeirri þróun. Það er einfaldlega lífsnauðsynlegt fyrir samkeppnisstöðu atvinnulífsins að við getum tekið þátt í alþjóðlegum rannsókna- og tækniþróunarverkefnum. Samkeppnin um alþjóðlegt rannsóknafé þyngist jafnt og þétt sem kallar á sterkari rannsóknarheildir en hið margskipta umhverfi okkar ræður við.

Í þessari umfjöllun, á vettvangi Vísinda- og tækniráðs, verður framtíðarstaðsetning rannsóknastofnanana vafalítið til umfjöllunar. Til umræðu verður hvort framtíðaruppbygging tæknirannsókna verði áfram í Keldnaholti og sá kostur veginn á móti öðrum, eins og t.d. að byggja upp heildstætt rannsóknaumhverfi í Vatnsmýrinni í tengslum við Háskóla Íslands og rannsóknastofnanir sem starfa inna vébanda hans.

VI.

Ágætu fundargestir.

Það vekur efalaust nokkra athygli að eitt meginumræðuefni þessa fundar tengist verkefnum Geimferðastofnunar Evrópu. Flestir líta vafalítið svo á að málefni geimferða séu í órafjarlægð frá íslenskum hversdagsleika. Það álit kann þó að breytast við nánari skoðun. Af þeim litlu kynnum sem ég hef haft af starfsemi Geimferðastofnunarinnar leyfi ég mér að draga þá ályktun að hagsmunir Íslands tengjast henni með margbreytilegri hætti en í fyrstu sýnist.

Fyrir liggur áhugaverð greinargerð frá Intæknistofnun um mögulegan ávinning af samstarfi við stofnuna. Þar er bent á fjölmörg rannsókna- og þróunarverkefni á sviði hátækni, sem íslensk fyrirtæki og stofnanir gætu unnið, -ein eða í samstarfi við aðrar þjóðir. Ég vil ljúka máli mínu að þessu sinni með hlýjum óskum til Iðntæknistofnunar vegna þess frumkvæðis og framsýni að efna til þessarar umræðu um ný sóknarfæri í íslensku atvinnulífi sem fært geta okkur skrefi framar til virkrar þátttöku í hátæknisamfélagi framtíðarinnar.

Takk fyrir 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval