Útskrift úr rekstrarnámi fyrir konur í atvinnurekstri.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

10/5/04

Rektor, útskriftarnemar, góðir gestir.

Það er sannarlega ánægjulegt að vera með ykkur hér á Bifröst í dag og fá að taka þátt í þessari útskriftarathöfn.

Því framtaki Viðskiptaháskólans á Bifröst í samstarfi við Símenntunarstöð Vesturlands, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Farskóla Norðurlands vestra og atvinnu- og jafnréttisráðgjafa Byggðastofnunar, að ýta úr vör sérsniðnu rekstrarnámi fyrir konur sem standa að atvinnurekstri á landsbyggðinni ber að fagna sérstaklega.

Námskeiðið sem nú lýkur - og konum úr Norðvesturkjördæmi gafst kostur á að sækja - er vonandi aðeins upphafið að farsælli ferð, en ætlunin mun vera að gefa athafnakonum um alla landsbyggðina færi á að sækja sambærileg sérsniðin rekstrarnámskeið.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að traust og fjölbreytt atvinnulíf er grundvöllur þess að byggð nái að blómstra – á landsbyggðinni líkt og annars staðar. Liður í því að treysta atvinnulífið er að efla þekkingu atvinnurekenda og gera þá þannig hæfari til að reka fyrirtæki sín og þar með líklegri til að auka arðsemi þeirra. Þetta er meðal meginmarkmiða rekstrarnámsins hér og vonin er sú að í kjölfarið takist að skapa fleiri störf á landsbyggðinni.

Það er augljóst af útskriftarhópnum hér í dag að konur annast oft rekstur þjónustufyrirtækja. Námskeiðið er því greinilega vel til þess fallið að styrkja þjónustugreinar – sem er ákaflega mikilvægt því góð og fjölbreytt þjónusta í heimabyggð gerir búsetu á landsbyggðinni eftirsóknarverðari sem eykur líkurnar á áframhaldandi búsetu.

Það má draga þá ályktun af þeim stóra hópi sem útskrifast hér í dag að þörfin fyrir námskeið af þessum toga hafi verið mikil. Það er augljóslega mikill áhugi meðal kvenna á að sækja sér aukna þekkingu á rekstrarsviðinu. Þetta höfum við líka séð í tengslum við svokölluð Brautargengisnámskeið, sem Impra nýsköpunarmiðstöð hefur staðið fyrir um nokkurt skeið. Námskeiðin eru ætluð konum sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd og aðsókn að þeim hefur aukist jafnt og þétt. Námskeiðið hefur frá upphafi verið haldið í Reykjavík, en það er ánægjulegt að segja frá því að í vetur var í fyrsta skipti boðið upp á námskeiðið á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði. Undirtektirnar voru góðar, enda tímabært að komið yrði til móts við konur á landsbyggðinni með þessum hætti.

Að lokum langar mig til að óska þessum myndarlega útskriftarhópi innilega til hamingju með áfangann. Ég er sannfærð um að námið hefur fært ykkur aukinn kjark og þekkingu til að takast á við þær margvíslegu áskoranir sem ykkar bíða í atvinnurekstrinum og styrk til að efla atvinnulífið í heimabyggð ykkar. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval