Aðalfundur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

27/4/04

I.

Ágætu gestir. Ég vil þakka fyrir tækifærið að fá að vera með ykkur hér í dag og fagna með ykkur þessum merku tímamótum í sögu sparisjóðsins og þar með Þórshafnar. Mikilvægi sparisjóðanna á minni stöðum á landsbyggðinni verður seint ofmetið. Það þekkið þið og aðrir íbúar á landsbyggðinni sem eru svo heppnir að hafa sparisjóð sem bakhjarl í byggðarlaginu. Staða þessara minni sparisjóða getur hins vegar verið erfið vegna harðnandi samkeppni við sístækkandi banka og svo eru nú ekki alltaf jólin í samskiptum innan sparisjóðafjölskyldunnar, eins og dæmin sanna.

Ég vil nota tækifærið og ræða hér stuttlega stöðu sparisjóðanna. Sparisjóðir eru hér á landi staðbundin fjármálafyrirtæki með sterk tengsl við starfssvæði sitt og nána samvinnu sín á milli. Þeir hafa sterkar félagslegar rætur og markmiðið með rekstrinum er að stuðla að almannahag. Sparisjóðirnir hafa verið reknir með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum en ekki til hámarksarðs fyrir stofnfjáreigendur. Sparisjóðir hafa í dag sömu starfsheimildir og viðskiptabankar en sérstaða þeirra er enn mikil. Þeir eru yfirleitt lítil fjármálafyrirtæki í miklum tengslum við sitt nánasta umhverfi. Flestir þeirra starfa einungis á takmörkuðu svæði. Þannig myndast yfirleitt sterkari tengsl við mannlíf og atvinnulíf á starfssvæði sparisjóðsins og meiri nálægð við viðskiptavini en tíðkast meðal annarra fjármálafyrirtækja.

Stofnfjáreigendur leggja sparisjóðnum til stofnfé og eiga rétt á að fá það fé til baka, verðbætt við tilteknar aðstæður. Þeir eiga, ólíkt hluthöfum í hlutafélagi, ekkert tilkall til uppsafnaðs hagnaðar sparisjóðanna. Enginn getur gert tilkall til uppsafnaðs hagnaðar sparisjóðs, en við slit hans rennur afraksturinn til líknar- og menningarmála á starfssvæði hans. Stofnfjáreigendur eiga hins vegar rétt á arði af stofnfé sínu samkvæmt nánari reglum í lögum um fjármálafyrirtæki.

Þetta er meginhugmyndafræðin á bak við sparisjóðina. Hvort þessi hugmyndafræði lifir af í heimi stöðugra umbóta skal ósagt látið. Það verður að koma í ljós. Ég verð að segja eins og er að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með framgöngu stofnfjáreigenda í SPRON. Hvað sem því líður er víst að sparisjóðirnir verða sjálfir að taka sér taki og móta framtíð sína. Þeir mega ekki verða nátttröll sem daga uppi á fjármálamarkaði. En þetta er undir sparisjóðunum sjálfum komið. Því miður hafa verið innbyrðis deilur innan sparisjóðanna á undanförnum árum. Það er vonandi að sparisjóðirnir beri gæfu til að leysa þær deilur og verði vel í stakk búnir til að veita viðskiptabönkunum öfluga samkeppni á komandi árum.

II.

Þó að sparisjóðir hafi borið mjög á góma í þjóðfélagsumræðu vetrarins þá er hún aðeins einn hlekkur í stærri umræðu um stöðu viðskiptalífsins, sér í lagi um samkeppni og skilgetins afkvæmis minni samkeppni, þ.e. fákeppni.

Fyrir allmörgum árum vakti maður athygli á sér með því að halda því fram að úti á landsbyggðinni væri alls staðar einokun. Þetta var áður en orðið fákeppni var fundið upp. Maðurinn var beðinn að flytja fyrirlestur um málið og svara fyrirspurnum. Það gerði hann með mikilli ánægju. Hann veifaði bók eftir bandarískan prófessor þar sem sagði að ef átta stærstu fyrirtækin væru með yfir þriðjung af markaðnum væri hætta á ferðum. Það væri stutt í einokun. Þetta sýndi að nánast alls staðar hér á landi væri einokun. Fyrirlesarinn var spurður hvort þetta gæti átt við á Íslandi. Ísland er ekkert öðruvísi en önnur lönd, sagði hann. Það sem á við í Ameríku á einnig við á Íslandi. Og fyrirlesarinn var spurður áfram: Ef átta stærstu fyrirtækin í sölu á matvöru á Þórshöfn á Langanesi eru með yfir þriðjungs markaðshlutdeild er þá hætta á einokun? Þessu svaraði fyrirlesarinn ekki.

Fyrir hundrað árum eða svo voru margir staðir hér á landi þannig settir að enginn sá sér hag í að reka þar verslun eða aðra þjónustustarfsemi. Fólkið sjálft kom sér saman um að koma á fót þeirri þjónustu sem nauðsynleg var til þess að þar væri lífvænlegt. Margir staðir hér á landi eru það fámennir að eitt þjónustufyrirtæki getur varla staðið undir sér, hvort sem það er verslun, bílaverkstæði, trésmiðja eða annað. Á svoleiðis stöðum þýðir ekkert að tala um einokun eða fákeppni. Vandamálið er fámenni en hvorki einokun eða fákeppni. Aðalatriðið er að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að nota aðstöðu sína þar sem svona stendur á.

Svipuð saga hefur gerst víða um heim og er dæmi um hvert samkeppni má ekki leiða. Samkeppni um að lækka verð og fara í taprekstur kann aldrei góðri lukku að stýra. Hún hefnir sín alltaf fyrr eða síðar á neytendunum. Hins vegar hvetur heilbrigð samkeppni menn til þess að leita leiða til þess að lækka verð, án þess að tapa. Samkeppnin ögrar mönnum til þess að gera betur, finna nýjar leiðir til þess að ná árangri, án þess að fara í taprekstur. Oft á nýtt fyrirtæki sem setur sig niður innan um gamalgróin fyrirtæki meiri möguleika. Nýja fyrirtækið er ekki bundið af gömlum skuldbindingum, siðum og venjum. Það getur byggt rekstrarþættina upp á nýjan hátt án utanaðkomandi afskipta. Raðað þannig upp að allir þættir nýtist að fullu. Gömlu fyrirtækin eru kannski bundin í báða skó. Nýja fyrirtækið selur á lægra verði, eykur stöðugt markaðshlutdeild sína og hagnast. Ef einhver þeirra fyrirtækja sem fyrir eru á markaðnum geta ekki brotist út úr viðjunum hljóta þau að líða undir lok. Þetta er alltaf og alls staðar að gerast og í þessu eru kostir samkeppninnar einmitt fólgnir. Nýjar hugmyndir, nýjar aðferðir, koma fram og ryðja því staðnaða burt vonandi til hagsbóta fyrir samfélagið þegar á heildina er litið.

Ég hef, líkt og margir aðrir ráðherrar, lýst yfir ákveðnum áhyggjum af þróun viðskiptalífsins. Áhyggjur mínar sem viðskiptaráðherra lúta að fimm þáttum.

ü Í fyrsta lagi að hagræðing í atvinnulífinu sé ekki ætíð drifkraftur breytinganna heldur valdabarátta stækkandi samsteypa.

ü Í öðru lagi að flókið og þéttriðið net fyrirtækjasamsteypu minnki gagnsæi og geri yfirsýn stjórnenda og eftirlitsaðila erfiðari.

ü Í þriðja lagi að stjórnunarhættir fyrirtækja séu ekki eins og best verður á kosið.

ü Í fjórða lagi að fyrirtækjasamsteypur geti knúið fram óeðlilega lágt verð í krafti stærðar og hafi þannig líf og limi birgja og smærri fyrirtækja og framleiðenda í hendi sér.

ü Og í fimmta lagi að bankar séu farnir í krafti afls síns að sækja hraðar í atvinnulífinu heldur en eðlilegt getur talist.

Eins og margoft hefur komið fram vinna stjórnvöld nú að skoðun á þessum og fleiri þáttum og verður niðurstöðu að vænta í haustbyrjun.

III.

Ágætu gestir. Þjóðfélagið er sífellt að þróast. Það hafa átt sér gríðarlegar breytingar á þjóðfélaginu á síðustu árum, flestar hafa þær verið til góðs. Í þessum breytingum felast bæði tækifæri og ógnanir fyrir landsbyggðina og smærri fyrirtæki, eins og sparisjóðinn okkar hér á Þórshöfn. Það eru ýmis teikn á lofti um bjarta tíma framundan fyrir landsbyggðina og það er áræðni í landsbyggðarfólki. Það þarf að nýta þessa orku landsbyggðinni og þjóðinni allra til heilla.

Ég vil óska Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis til hamingju með áfangann. Megi hann lengi lifa.

 

 

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval