Málþing um atvinnumál á vegum Sveitarstjórnar Húnaþings vestra.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

16/3/04

Ágætu ráðstefnugestir.

Það verður varla ofsagt að atvinnumöguleikar skipti höfuðmáli fyrir búsetuskilyrði fólks. Sú skoðun er á undanhaldi að það dugi flestum að eiga kost á atvinnu - svona almennt talað - og að það þurfi ekki að búa við hörmungar atvinnuleysis. Kröfurnar hafa aukist og nú skiptir meira máli en áður að fá atvinnu sem hæfir menntun og metnaði viðkomandi og einnig að til staðar sé bærileg fjölbreytni í atvinnulífinu. Sennilega kemur þessi aukna krafa um menntun og fjölbreytni skýrast fram hjá ungu fólki sem vill eiga kost á framtíðastarfi sem er krefjandi og getur fært því vel launuð störf og góð lífskjör.

Ég geri þetta að upphafsorðum mínum vegna þess að megináherslan í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2002-2005 er á atvinnuþróun og nýsköpun. Áætlunin byggir á fimm markmiðum, sem efnislega miða að því að draga úr mismun á lífskjörum fólks milli byggðalaga í landinu. Þessum markmiðum á að ná m.a. með því að aðstoða byggðalögin við að aðlaga sig að hröðum breytingum í atvinnuháttum og veita markvissan stuðning við atvinnuþróun er leitt geti til þess að auka fjölbreytni atvinnulífsins.

Í samræmi við þessi markmið var stofnsett Impra nýsköpunarmiðstöð á Akureyri sem er deild innan Iðntæknistofnunar með 3 starfsmenn og fjórði starfsmaðurinn mun væntanlega taka til starfa á næstunni. Á fyrsta starfsárinu hefur Impra styrkt 42 lítil eða meðalstór fyrirtæki á landsbyggðinni til kaupa á ráðgjöf, við vöruþróun eða nýsköpun. Tuttugu frumkvöðlar utan Reykjavíkursvæðisins nutu styrks frá Impru við verkefni sín og tæplega þrjátíu nemendur sátu Frumkvöðlaskólann og námskeiðið Brautargengi á síðasta ári. Impra vinnur einnig að 6 samstarfsverkefnum með atvinnuþróunarfélögum víðsvegar um landið og gaf út 4 handbækur fyrir stjórnendur fyrirtækja.

Ljóst er að starfsskilyrði atvinnuveganna eru nokkuð mismunandi eftir byggðalögum og landshlutum. Þau sem hvað mest hafa verið háð hefðbundnum sjávarútvegi og landbúnaði hafa búið við erfiðari afkomu en þau sem notið hafa fjölbreyttara atvinnulífs. Þessum vanda er brýnt að mæta og það þarf að snúa vörn í sókn og stuðla að því að ný störf verði til.

Mikilvægur þáttur í þeim efnum er að skilgreina og nýta sérkenni hvers byggðarlags sem best til nýrrar sóknar. Þar skiptir miklu að ráðast til verka á sviðum sem geta leitt til sérstöðu og þar af leiðandi veitt forskot. Staðreynd hins daglega viðskiptaveruleika er ekki flóknari en það - að afkoma fyrirtækjanna og okkar sjálfra byggist á því að geta boðið betri vörur og þjónustu en aðrir á samkeppnishæfu verði.

Það fer ekki á milli mála að samfara atvinnuuppbyggingunni þarf sérstaklega að huga að framboði og aðgengi allra aldurshópa að hverskonar menntun. Í þessu sambandi er t.d. nokkuð ljóst að hvert ár sem unnt er að bæta við menntun ungs fólks í heimabyggð er veigamikið skref í átt að því að stuðla að áframhaldandi búsetu þess í byggðarlaginu og heimkomu þess að námi loknu. Brottflutningur ungs fólks dregur úr getu atvinnulífsins til að endurnýjast eins og þörf er á. Hann degur úr möguleikunum á að ný fyrirtæki verði til og að nýjar atvinnugreinar hasli sér völl.

Í umfjöllun um atvinnuþróun þurfum við einnig að hafa hugfast að við erum hluti af hinum alþjóðlega samkeppnismarkaði og þá einkum og sér í lagi hinum Evrópska samkeppnismarkaði, sem almennt talað hefur þjónað hagsmunum okkar vel og gert hinum tiltölulega litlu íslensku fyrirtækjum kleift að ná undraverðum árangri. Árangurinn er fyrst og fremst að þakka aukinni þekkingu og hæfni starfsmanna á ýmsum sviðum atvinnulífsins, sem er og verður undirstaða þess að byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni eflist og dafni. Hið frjálsa markaðskerfi sem innleitt var með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og ríkir á innri markaði Evrópusambandsins er hinsvegar í eðli sínu þannig að landsbyggð stendur ekki jafnfætis borgum og stærri bæjum, samkeppnislega séð. Þess vegna er rekin öflug byggðastefna innan Evrópusambandsins. Við eigum ekki aðgang að því styrkja- og stuðningskerfi. Það er því augljóst að við Íslendingar, sem höfum tekið upp markaðskerfi Evrópðusambandsins verðum að reka öfluga byggðastefnu sjálf og að því hef ég unnið.

Ágætu ráðstefnugestir.

Það er mikilvægt að sveitastjórn Húnaþings vestra hefur ráðist í athugun á því hvernig best verði að efla atvinnulíf og styrkja búsetu í héraðinu til framtíðar. Það hefur verið skoðun mín að líklegast til árangurs sé að slík vinna sé unnin á forræði heimamanna sjálfra eins og hér er gert. Í þessu sambandi vil ég vísa til vinnu sveitarfélaganna á Vestfjörðum á þörfum og þróunarmöguleikum atvinnu- og mannlífs í fjórðungnum fyrir um tveimur árum síðan. Heimamenn þekkja þarfir byggðarinnar best og væntingar fólksins. Þeir þekkja sérkennin sem geta leitt til nýrrar sóknar og geta betur en aðrir stýrt og fylgt framkvæmdum eftir. Það er jafn mikilvægt að stuðnings geti verið að vænta frá stjórnvöldum við þær hugmyndir sem upp kunna að koma og eru líklegar til að auka fjölbreytni atvinnulífsins.

Ég er þakklát fyrir að vera boðið að sitja ráðstefnuna með ykkur og fá tækifæri til að fræðast um þá vinnu sem hér verður kynnt á eftir.

Takk fyrir.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval