20 ára afmæli Sæplasts á Dalvík.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

1/3/04

Góðir gestir.

Mér er sönn ánægja að vera viðstödd þessa hátíðardagskrá þar sem haldið er upp á 20 ára afmæli Sæplasts – og óska afmælisbarninu og aðstandendum þess innilega til hamingju með daginn.

Það er óhætt að segja að afmælisbarnið hafi vaxið og dafnað vel, enda hefur verið vel að því hlúð allt frá stofnun þess hér á Dalvík. Mikill metnaður hefur einkennt starfsemina alla tíð en fyrirtækið horfði strax í upphafi til sölu á framleiðsluvörum sínum á heimsmarkaði, sem var hárrátt ákvörðun. Ég veit að reksturinn í upphafi var ekki bara dans á rósum. Lánastofnanir voru ekki samvinnuþýðar, en þá var það sparisjóðurinn hér sem kom til hjálpar.

Framleiðsluvörur Sæplasts hafa frá upphafi verið ýmiss konar ker til notkunar í matvælaiðnaði, eins og alþekkt er, en á undanförnum árum hefur vöruúrvalið aukist verulega. Mér skilst að um þessar mundir framleiði Sæplast hvorki meira né minna en 400 vörunúmer. Þessi auknu umsvif birtast meðal annars í því að nú starfa hjá fyrirtækinu á þriðja hundrað starfsmanna samanborið við fimm starfsmenn við upphaf starfseminnar fyrir tuttugu árum.

Ég held að mér sé óhætt að segja að enn slái hjarta Sæplasts hér á Dalvík, þótt umsvif fyrirtækisins hafi aukist og það teygi nú anga sína til ýmissa landa. Framleiðsla þess fer nú fram í fimm löndum auk Íslands og markaðurinn nær, nú sem fyrr, víða um heim.

Ég er sammála því sem fram kemur í leiðara "Norðurslóðar" nú í vikunni. Það var ekkert sjálfsagt að flytja iðnfyrirtæki frá höfuðborgarsvæðinu út á land fyrir 20 árum. Það var gert og það tókst vel. Þökk sé m.a. þeim frumkvöðlum sem nú verða heiðraðir.

Sæplast er glæsilegur fulltrúi íslensks iðnaðar og ber hróður hans víða.

Góðir hátíðargestir.

Mig langar að lokum að ítreka hamingjuóskir mínar til aðstandenda Sæplasts á þessum tímamótum og óska þeim velfarnaðar um ókomna tíð.

 

 

 

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval