Strandhögg í Reykjavík

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

1/3/04

Ágætu fundarmenn,

Ég lýsi ánægju með það framtak Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar að efna til þessa fundar. Það sýnir sóknarhug af hálfu félagsins og Eyfirðinga – Akureyringa, sem er mikilvægt og í raun það sem skiptir mestu máli til að árangur náist – það sýna ótal dæmi.

Ég er fædd og alin upp við Eyjafjörð og hef átt þar heima alla tíð. Í minni sveit heitir það að "fara í bæinn" að fara til Akureyrar. Þetta vill misskiljast hér á Reykjavíkursævðinu.

Ég á margar minningar frá bernsku af bæjarferðum í jeppanum með pabba eða mömmu, sem líka hafði bílpróf án þess að það þætti sjálfsagt í þá daga. Ferðin tók klukkutíma en tekur 20 mínútur nú. Þetta er eitt af því sem gerir það að verkum að Eyjafjarðarsvæðið er meira og minna eitt atvinnusvæði – Samgöngur hafa gjörbreyst og þjónusta á vegum t.d. hvað varðar snjómokstur hefur stórbatnað.

Hvernig bær er svo Akureyri? Í skólabókunum stóð "skólabær og iðnaðarbær". Hann stendur svo sannarlega enn undir nafni sem skólabær og verður fjallað frekar um það hér síðar á fundinum.

Hvað iðnaðarbæinn varðar þá hefur margt breyst. Iðnaður er þó enn ríkur þáttur í atvinnulífinu og verður vonandi alla tíð. Þar eru sóknarfæri. Hinsvegar eru Sambandsverksmiðjurnar á Gleráreyrum aðeins svipur hjá sjón! Samvinnumenn ákváðu fyrir miðja síðustu öld að setja verksmiðjurekstur sinn niður á Akureyri og horfðu margir öfundaraugum til þess. Þetta var stóriðja Eyjafjarðar með fleirihundruð manns í vinnu. Með breyttum tímum fluttist þessi starfsemi að mestu úr landi, eins og menn þekkja. Það er þó ánægjulegt að Skinnaiðnaðurinn er vaxandi fyrirtæki í eigu nýrra aðila.

Þá er mér ljúft og skylt að nefna Iðnaðarsafnið sem geymir þessa merku sögu, þökk sé Jóni Arnþórssyni.

Ég nefni þessa sögu hér vegna þess að það skiptir máli að á Akureyri ríkir sterk iðnaðarhefð. Að því leyti til er bærinn góður kostur til iðnaðarstarfsemi enda hefur það farið vaxandi að framleiðsla ýmiskonar sé flutt norður. Þá erum við komin að samkeppnishæfni iðnaðarframleiðslu á landsbyggðinni, miðað við á höfuðborgarsvæðinu þar sem markaðurinn er stærstur.

Síðustu mánuði hafa verið til umfjöllunar hjá stjórnvöldum hugmyndir um flutningsstyrki til iðnfyrirtækja úti á landi. Þar er miðað að því að greiða beint til fyrirtækja ákveðið hlutfall sýnilegs viðbótarkostnaðar vegna þess að fyrirtæki er staðsett fjarri stærsta hluta markaðarins. Þessar hugmyndir eru nú til athugunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA. Hvað varðar kostnað vegna rafmagnsnotkunar fyrirtækja, þá eru þau mál öll á "viðkvæmu stigi" um þessar mundir, en líklegra er að samkeppnisstaða RARIK svæðisins styrkist (sem er Eyjafjarðarsvæðið utan Akureyrar). Breytingar á rafmagnsverði Norðurorku sem er á Akureyri verða innan skekkjumarka.

Á árinu 2002 var tekin sú ákvörðun af hálfu stjórnvalda í tengslum við byggðaáætlun að leggja áherslu á að efla Akureyri og Eyjafjarfarsvæðið sérstaklega til mótvægis við höfuðborgarsvæðið. Aldrei áður hafði verið tekin pólistísk ákvörðun um að horfa sérstaklega á einn stað á landsbyggðinni í þessu skyni. Það sem haft er til grundvallar er m.a. sú vitneskja að sá hópur fer stækkandi sem gerir kröfur um tiltölulega stórt samfélag, að búa í , með mikilli þjónustu. Það vantar herslumuninn að Akureyri hafi þetta til að bera og því viljum við gera betur – Fjölga fólki.

Gríðarlega mikið starf hefur verið unnið í tengslum við Byggðaáætlun fyrir Eyjafjarðarsvæðið á síðustu mánuðum. Áfangaskýrsla hefur verið unnin, sem byggir á tillögum starfshópa. Lögð er áhersla á að byggt verði á styrkleikum Eyjafjarðarsvæðisins á eftirfarandi fjórum sviðum:

- Framhaldsmenntun og rannsóknir

- Heilbrigðisþjónsta

- Ferðaþjónusta

- Matvælaframleiðsla – þjónusta og rannsóknir.

Lögð er áhersla á að ná árangri á þessum sviðum með skipulegu samstarfi einkaaðila og opinberra aðila.

Í því starfi sem farið hefur fram hefur verið unnið með sveitarfélögum austan Vaðlaheiðar og vestan Tröllaskaga.

Í febrúar 2002 voru undirritaðir tveir samningar milli MIL annarsvegar og Atlanntsáls hf hinsvegar. Annar sneri að hagkvæmniathugun á 360.000 tonna álvinnslu í Eyjafirði eða við Húsavík en hinn að hagkvæmniathugun á 2.000.000 tonna súrálsvinnslu við Húsavík.

MIL samdi við Veðurstofu Íslands um uppsetningu og rekstur veðurathugunarstöðva við Húsavík. Jafnframt var samið við Atvinnuþróunafélag Þingeyinga og verkfræðistofur um rannsóknir á hugsanlegum byggingarlóðum.

Landsvirkjun gerði ýtarlega úttekt á raforkuöflun til stóriðju á Húsavíkursvæðinu og í Eyjafirði og Þeistareykir hf stóðu að því að boraðar voru tvær rannsóknarholur á jarðhitasvæðinu á Þeistareykjum. Fulltrúar Atlantsáls ákváðu einhliða á miðju ári 2003 að fresta frekari undirbúningi að súrálsverksmiðju. Jafnframt því var lögð ofuráherla á að framkvæmdum við álver yrði hraðað.

MIL óskaði í ársbyrjun 2003 endurskoðunar á samningunum við Atlantsál. Skilyrðum MIL fyrir endurnýjun samninga, sem einkum vörðuðu trúverðuga þátttöku fjársterkra aðila með nauðsynlega reynslu og tæknilega þekkingu, náði Atlantsál ekki að fullnægja.

Ráðuneytið tilkynnti Atlantsál í október 2003 að nauðsynleg forsenda þess að haldið yrði áfram samstarfi um verkefnið væri að Atlantsál legði fram fullnægjandi upplýsingar og skuldbindingar til þátttöku frá væntanlegum fjárfestum að álversframkvæmdum. Ráðuneytið metur það svo að skuldbindingar vanti. Stjórnvöld hafa lagt fram umtalsverða fjármuni til rannsókna til þess að reyna að koma verkefninu í höfn.

Þetta þýðir hreint ekki að til þess geti komið að álver rísi við Eyjafjörð eða við Húsavík.

Ég tel raunar miklar líkur á og er nærri viss um að svo geti orðið og samkvæmt könnun sem Gallup gerði er meira en helmingur þjóðarinnar hlynnt álveri á Norðurlandi.

Undirbúningi þess að slíkar framkvæmdir geti átt sér stað verður haldið áfram. Vel má vera að þær geti farið fram sameiginlega á vegum Þingeyinga og Eyfirðinga.

Góðir fundarmenn

Samkeppnisstaða svæða og fyrirtækja snýst að verulegu leyti um ímynd. Það lætur nærri að ég segi að á Eyjafjarðarsvæðinu höfum við allt til alls. Glæsileg sjávarútvegsfyrirtæki, blómlegt landbúnaðarhérað, öfluga skóla, góð þjónustufyrirtæki og sterkt mannlíf.

En til þess að það sé framför, þarf vöxt í héraði.

Við íslendingar búum í góðu landi og að mörgu leyti ævintýri líkast hvernig okkur hefur tekist að byggja upp þetta samfélag á örfáum áratugum. Fjölbreytileikinn skiptir máli. Eyjafjarðarsvæðið er mikilvægt í þeirri flóru

Eflum það enn frekar.

 

 

 

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval