Upplýsingatækni á heilbrigðissviði.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

13/11/03

Ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra:
Hver er ávinningur upplýsingatækninnar á heilbrigðissviði?
Hótel KEA Akureyri 13. nóvember 2003.Ágætu ráðstefnugestir.

Mér var einhvertíma sagt að uppýsingatækni-iðnaðurinn hefði trúlega aldrei náð þeim árangri sem raun ber vitni um ef, á upphafsárunum, hefði ekki komið til víðtækur skilningur forustumanna í sjávarútvegi á þörfum brautryðjendanna. Þessir forustumenn veittu greininni aðgang að gögnum sínum, starfsmönnum, reynslu og þekkingu og gáfu hinum ungu hugbúnaðarfyrirtækjum tækifæri á að afla notendareynslu fyrir nýjungar sínar með kaupum á frumgerðum þeirra.

Mér hefur oft verið hugsað til þessa - enda er mikilvægt að atvinnulífið fái tækifæri til að nýta sér sem best kosti okkar litla þjóðfélags. Fjarlægðir eru stuttar manna á milli og auðvelt að skapa skilning og tiltrú á áhugaverðum framfaramálum. Gegnsæi atvinnulífsins og stjórnsýslunnar er hvergi meira en hér á landi, sem gerir það að verkum að þróendur eiga tiltölulega auðvelt með að skilja innviði og starfsemi hennar. Þannig hafa orðið til lausnir hér á landi, sem unnt hefur verið að fara með til útlanda og yfirfæra á stærri markaði.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur tekið þátt í slíkum þróunarverkefnum og er þróun málaskrár ráðuneytanna í Lotus Notes lang-veigamest þeirra. Fyrstu árin var það ekki þrautalaus þátttaka – en hún skilaði árangri fyrir fyrirtækið og þjóðfélagið allt. Eins og þetta dæmi sýnir fer það ekki á milli mála að sérstaðan sem felst í smæð þjóðfélagsins og nálægðinni hefur í mörgum tilfellum vegið upp ókosti lítils heimamarkaðar.

Íslensku hugbúnaðarfyrirtækin hafa eflst með undraverðum hætti hin síðari ár. Þrátt fyrir alþjóðlegan efnahagssamdrátt, sem einkum hefur komið niður á tæknifyrirtækjum, hefur hagur íslensku fyrirtækjanna batnað þegar á heildina er litið. Þetta má best sjá í þeirri aukningu sem varð í útflutningi hugbúnaðar á síðasta ári, en eftir 7% samdrátt á árinu 2001, jókst hann um tæplega 40% árið 2002 og nam rúmlega 3,6 milljörðum króna. - Þetta segir þó ekki alla söguna því mér er fullkunnugt um að víða eiga menn í vök að verjast.

Ég reikna með að starfsmenn Tölvumynda þekki báðar hliðar þessa máls. Það gerist ekki á einni nóttu að fyrirtæki verði leiðandi á sínu sviði og nái alþjóðlegri viðurkenningu. Ég hef fengið að kynnast þeim sigrum af eigin raun og eru stundir mínar með Maritech mönnum í Halifax í Kanada, fyrir tæpu ári síðan, einkar minnisstæðar. Á slíkum stundum lyftist andinn og bjartsýnin ríkir, enda er ekkert ólygnara en góður og áþreifanlegur árangur á erlendri grundu í óvægnum hildarleik alþjóðlegrar samkeppni.

Nú hafa Tölvumyndir haslað sér völl á nýju fagsviði sem er upplýsingatækni á heilbrigðissviði. Til þess að styrkja þetta kjörsvið hafa Tölvumyndir sameinað undir einum hatti nokkur framsækin hugbúnaðarfyrirtæki. Jafnframt hefur hér á Akureyri orðið til umfangsmesta hugbúnaðarstarfsemi sem rekin er á landsbyggðinni. Ég bind að sjálfsögðu miklar vonir við að þessi rekstur Tölvumynda verði til að styrkja enn frekar starfsemi atvinnulífsins, háskólans og að sjálfsögðu heilbrigðisþjónustunnar um allt land.

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég heyrði það á ráðstefnu Norðurskautsráðsins sem haldin var hér á Akureyri fyrir rúmum þrem vikum síðan að í upplýsingatækni heilbrigðisþjónustunnar eru úrlausnarmálin mörg og margbreytileg - en jafnframt dylst mér ekki að margir eru að vinna að þeim úrlausnum. Tækifærin og ógnanirnar eru því á báða bóga.

Í slíkri stöðu þurfum við að beita þeim styrk sem við eigum bestan, sem er styrkur smæðarinnar. Við þurfum að leggjast á eitt um að ná árangri. Í því sambandi skulum við hafa hugfast að það þarf að lágmarki tvo til að tryggja árangurinn, en þeir eru: - Þróandinn sjálfur annars vegar - og notandinn hins vegar. Það sem er mikilvægast í þessu sambandi – og ég vil leggja sérstaka áherslu á er að: Hvorugur getur án hins verið.

Með þessum fáu orðum óska ég TölvuMyndum árangursríkrar vegferðar á þessari nýju upplýsingabraut.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval