Ráðstefna um orkumál.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

20/11/03


Ávarp á ráðstefnu um orkumál,
sem haldin er á vegum VFÍ og TFÍ í hátíðarsal Orkuveitu Reykjavíkur
20. nóvember 2003.

(Flutt af Helga Bjarnasyni, skrifstofustjóra, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.)

Fundarstjóri
Ágætu ráðstefnugestir!

Ég flyt ykkur kveðjur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, sem ekki gat mætt hér í dag vegna funda erlendis. Vil ég því leyfa mér að flytja hér nokkur ávarpsorð í hennar stað.

Einn af þeim grunnþáttum sem nútímasamfélag byggist á í vaxandi mæli er öruggt og hagkvæmt raforkukerfi. Á síðustu mánuðum höfum við verið minnt á það hve raforkukerfi þjóða er mikilvægur þáttur samfélagsins. Straumleysi um lengri tíma á Norðurlöndum, á Ítalíu og í Bandaríkjunum að undanförnu hefur vakið upp áleitnar spurningar um það á hvern hátt öryggi og viðhaldi raforkuflutningskerfa verði best við komið til að tryggja afhendingaröryggi raforkunnar betur en raun hefur orðið á í þessum tilvikum.

Rafvæðing hér á landi utan stærstu þéttbýlisstaða hófst ekki að marki fyrr en að aflokinni seinni heimsstyrjöldinni. Með hinu mikla átaki við rafvæðingu landsins á árunum 1950-1970 var lyft grettistaki til atvinnuuppbyggingar um allt land bæði til sjávar og sveita og á þeim tíma var rafvæðing landsins forgangsverkefni allra ríkisstjórna sem hér sátu að völdum.

Núverandi skipan raforkumála mótaðist um miðjan sjöunda áratug þegar Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun tóku til starfa og tóku við hlutverki frumherjans, Skrifstofu raforkumálastjóra. Aftur var gerð róttæk lagabreyting árið 1981 og í kjölfar þess varð Landsvirkjun að virkjunar- og flutningsfyrirtæki á landsvísu.

Á árunum 1974-1984 var nýtt framfaraspor stigið í uppbyggingu raforkukerfisins með byggingu byggðalínu sem stuðlað hefur að hagkvæmni og öryggi í rekstri raforkukerfisins en hefur einnig jafnað aðgengi og verðlagningu raforku til allra landsmanna. Olíukreppan á áttunda áratugnum varð til þess að aukin áhersla var lögð á að styrkja aðveitu- og dreifikerfi raforkukerfisins til að standa undir aukinni rafhitun húsnæðis þar sem ekki var kostur á hitaveitum.

Á síðustu árum hefur eins og flestum er kunnugt um orðið gífurleg aukning í raforkuframleiðslu hér á landi með stóraukinni uppbyggingu í áliðnaði. Jafnframt hefur flutningskerfi landsins verið styrkt og nýjar gufuvirkjanir hafa risið í nágrenni þéttbýlisins hér við Faxaflóa. Þá er stefnt að enn frekari uppbyggingu þeirra eins og alkunna er í tengslum við stækkun Norðuráls. Gífurleg bylting hefur því orðið í uppbyggingu raforkukerfis okkar á tveimur áratugum. Sem dæmi um það má nefna að á árabilinu 1996-2002 hefur raforkuframleiðsla aukist um 65% hér á landi, sem er einsdæmi í vestrænum ríkjum.

Þó svo að skipulag raforkumála okkar hafi að mörgu leyti reynst vel, raforkukerfið sé tæknilega vel úr garði gert og öruggt var orðið eðlilegt að endurskoða lagaumhverfi þess, enda eru allar aðstæður í samfélagi okkar í dag gjörbreyttar miðað við þann tíma er við hófum markvissa raforkunýtingu hér á landi.

Eins og kunnugt er voru ný raforkulög samþykkt á Alþingi 15. mars s.l. og tóku þau gildi 1. júlí s.l. með þeirri undantekningu að ákvæði um raforkuflutning taka gildi 1. júlí 2004. Hin nýju lög byggjast á nýjum viðhorfum í raforkumálum sem hafa verið að ryðja sér til rúms víðast hvar um heim á undanförnum árum. Meginefni þeirra felst í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins, (þ.e. flutning og dreifingu) og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið (vinnslu og sölu). Á þennan hátt hefur verið lagður grunnur að markaðsbúskap í raforkukerfi flestra þróaðra ríkja. Í ríkjum Evrópusambandsins hefur þróunin almennt grundvallast á tilskipuninni um innri markað raforku, sem er eins og kunnugt er orðin hluti af EES-samningnum.

Hefðbundin viðhorf til raforkumála hér á landi hafa verið að breytast. Hér áður fyrr var það viðtekin skoðun að hið opinbera hefði óhjákvæmilega lykilhlutverki að gegna á öllum sviðum þeirra vegna þess að markaðslausnir ættu þar ekki við, meðal annars vegna einkaréttar í starfsemi af þessu tagi. Á síðustu árum hefur í nágrannaríkjum okkar hins vegar áunnist veruleg reynsla á sviði samkeppni, vinnslu og sölu raforku. Þessar aðferðir hafa í aðalatriðum reynst vel og er nú almennt talið að meiri árangur náist að jafnaði í vinnslu og sölu þar sem samkeppni ríkir en þar sem hefðbundinn einkaréttur er enn allsráðandi.

Þessi nýju sjónarmið og reynslu annarra er sjálfsagt að færa sér í nyt á Íslandi þótt hér eins og annars staðar þurfi jafnframt að taka mið af aðstæðum eins og hin nýju raforkulög gera. Aðskilnaður samkeppnis- og einokunarþátta er þar höfuðatriði. Í tengslum við skipulagsbreytingar raforkumarkaðarins mælir jafnframt margt með því að hlutafélagaformið taki við af núverandi rekstrarformi ríkis og sveitarfélaga varðandi samkeppnisþættina, framleiðslu og sölu, en hinir opinberu aðilar myndu fremur annast einokunarþættina, flutning og dreifingu. Þær skipulagsbreytingar er leiða af nýjum raforkulögum verða til þess við þurfum að koma á fót skilvirku eftirlitskerfi með áherslu á hagkvæmni og aðhald í flutnings- og dreifikerfinu, en einnig til að tryggja hagsmuni neytenda varðandi gæði og afhendingaröryggi raforku. Í þessu skyni var lögum um Orkustofnun breytt á síðasta þingi þannig að hún er í dag stjórnsýslustofnun, sem hefur að verulegu leyti eftirlit með framkvæmd raforkulaganna. Þess mun þó freistað að halda hinu opinbera eftirliti í lágmarki en hið raunverulega eftirlit verði innra eftirlit raforkufyrirtækjanna sjálfra.

Ég geri ráð fyrir því að allflestir sem hér eru þekki til raforkulaganna og mun ég ekki fjalla frekar um efnisatriði þeirra, enda verður hér á þessum fundi nánar fjallað um einstaka þætti laganna af hinum hæfustu mönnum.

Ég vil þó benda á, eins og væntanlega mun koma fram í framsöguerindum hér á eftir, að mikið verk er óunnið við að koma lögunum í framkvæmd. Þar ber helst að nefna að samkvæmt bráðabirgðaákvæði raforkulaganna er að störfum sérstök 19 manna nefnd sem hefur það hlutverk að gera tillögur um fyrirkomulag raforkuflutnings, þ.m.t. stærð kerfisins, rekstur þess og kerfisstjórnunar þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni þess verði sem best tryggð. Þá á nefndin að móta tillögur um það með hvaða hætti jafna eigi kostnaði vegna flutnings og dreifingar raforku. Nefndin á að skila áliti um næstu áramót með drögum að frumvarpi til breytinga á raforkulögum um tillögur sínar ef hún telur ástæðu til að breyta núverandi lagaákvæði þar um.
Þá er ólokið við að setja fjölda sérreglugerða varðandi framkvæmd laganna og búast má við í ljósi reynslu annarra þjóða að breyta þurfi raforkulögum og móðurreglugerð innan fárra ára þegar hugsanlegir hnökrar á framkvæmd þeirra koma í ljós í ársbyjun 2005 þegar aflmældir stórnotendur geta valið sér raforkusala og síðar árið 2007 þegar almennir notendur fá þau réttindi.

Loks er rétt að benda á að nú stendur yfir endurskoðun laga sem á ýmsan hátt tengjast nýjum raforkulögum. Hér er um að ræða lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu frá 1998 og vatnalögin frá 1923, sem fjalla um rannsóknir og nýtingu jarðhita- og vatsorkuauðlindanna.

Ágæti fundarstjóri
Ég fagna því að þessi fjölsótti fundur skuli haldinn meðal ykkar tæknimanna um þessi mikilvægu mál, sem ávallt þurfa að vera opin fyrir umræðu og athugasemda til að okkur takist að gera hið ágæta raforkukerfi enn betra. Ekkert er mikilvægara þjóð er býr við allsnægtir endurnýjanlegrar orku en að nýta hana á sem skynsamlegastan og hagkvæmastan hátt og í sátt við umhverfi sitt til að auka velferð og hagsæld þjóðarinnar til langrar framtíðar.

Ég þakka áheyrnina.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval