Afhending íslensku vefverðlaunanna

Ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

29/10/03


Góðir gestir.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að ekki eru nema örfá ár síðan Netið varð fyrst aðgengilegt almenningi. Ég reikna með að núorðið lítum við flest á Netið sem órjúfanlegan hluta daglegs lífs okkar – og ættum bágt með að hugsa okkur tilveruna án þess.

Netið hefur breytt lífi okkar á margvíslegan máta. Það hefur breytt menningu okkar, samskiptum, viðskiptum, stjórnsýslu og námi, svo fátt eitt sé nefnt. Þróunin í Netheimum hefur verið ótrúlega hröð og enn sér ekki fyrir endann á henni. Það er útlit fyrir að Netið verði æ veigameiri þáttur í lífi okkar og störfum – og þangað verði hægt að sækja þjónustu og afþreyingu og stunda viðskipti í enn ríkara mæli en þegar er orðið.

Netið hefur leitt til þess að landfræðilegar vegalengdir skipta sífellt minna máli. Þannig hefur Netið til dæmis mikilvægu hlutverki að gegna við styrkingu búsetuskilyrða á landsbyggðinni – og er sérstaklega til þess horft í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar.

En Netið er ekki aðeins vel til þess fallið að styrkja stöðu landsbyggðarinnar – heldur líka landsins alls. Netið er sérlega mikilvægur – og æ mikilvægari - vettvangur markaðsstarfs. Öflug markaðssetning á Netinu stuðlar þannig að eflingu íslensks atvinnulífs, sé rétt á málum haldið. Það sem ætla má að ráði mestu um árangur markaðsstarfs á Netinu er skýr og skemmtileg framsetning – að efnið sé aðgengilegt og aðlaðandi.

Þess vegna fagna ég því frumkvæði sem ÍMARK, félag íslensks markaðsfólks, og fyrirtækið Vefsýn hafa sýnt með því að standa fyrir afhendingu Íslensku vefverðlaunanna. Eins og fram hefur komið er þetta í þriðja sinn sem verðlaunin eru veitt og tilgangurinn er - nú sem fyrr - að hvetja til fagmennsku í vefsmíði og vefrekstri á Íslandi.

Verðlaun verða veitt fyrir framúrskarandi vefsetur í fimm mismunandi flokkum. Vefsetrin eru ólík, en eitt eiga þau öll sameiginlegt: Þau bera vitni um mikinn metnað, þekkingu, framsýni og hugmyndaauðgi þeirra sem að baki þeim standa.

Góðir gestir.
Ég vil að lokum láta í ljós þá ósk mína að Íslensku vefverðlaunin verði verðlaunahöfunum hvatning til að halda áfram á sömu braut – og öðrum hvatning til að feta í fótspor þeirra.


-----------------------------------------------------------------------------------------
Verðlaun veitt í eftirtöldum flokkum:
Besti íslenski vefurinn: http://www.tonlist.is
Besti fyrirtækisvefurinn: http://www.vinbud.is
Besti afþreyingarvefurinn: http://www.hugi.is
Besta útlits- og viðmótshönnunin: http://www.nikitaclothing.com
Besti einstaklingsvefurinn: http://www.bjorn.is

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval