Ræður og greinar

Hönnun, auðlind til framtíðar

Ágætu gestir

Það er mér mikil ánægja að vera boðinn á þennan fund. Það heyrir sannarlega til tíðinda að út komi áhugavert rit um hönnun og því fögnum við hér í dag. Ég óska höfundum skýrslunnar, „ Hönnun – Auðlind til framtíðar", þeim Halldóri Gíslasyni og Sóleyju Stefánsdóttur til hamingju með útgáfu hennar. Og okkar öllum raunar sem hér erum samankomin.

Okkur er það nú mun ljósara en lengstum áður að samkeppnishæfni þjóðar á sviði hugmyndasköpunar og frjó útfærsla snjallra hugmynda, sem við í daglegu tali köllum nýsköpun, hefur æ meiri þýðingu fyrir efnahag okkar og velferð. Menning og listir leggja fram drjúgan skerf til landsframleiðslunnar og eiga óumdeilanlega stóran þátt í aðdráttarafli landa og eru um leið vaxandi uppspretta útflutningstekna. Það er jafnvel vel rætt í alvöru, eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í gær, að listamenn og viðskiptajöfrar hafi tekið við því hlutverki stjórnmálamanna að túlka og skýra hin pólitísku viðfangsefni samtímans. Ég mun þó fyrir mitt leyti áskilja mér allan rétt til þess að veita enn um sinn harða samkeppni á þessu sviði.

Hvað sem slíkum vangaveltum líður þá getum við verið sammála um að hönnun er lykilatriði í allri nýsköpun Sú ríkisstjórn sem nú er hefja störf hefur einsett sér tryggja að íslenskt atvinnulíf verði kraftmikið og einkennist af þekkingarsköpun og útrás. Til þess að svo megi verða þarf meðal annars að styðja við menningu og listir og efla nýsköpun í öllum atvinnugreinum.

Það má til sanns vegar færa að stuðningur við hönnun á Íslandi hefur ekki verið eins mikill og markviss og gerist í flestum nágrannalöndunum. Sum þeirra hafa skapað sér sérstöðu með svipmikilli hönnun sem orðið hefur útflutningsvara í ýmsum myndum. Í þessum efnum hefur orðið mikil breyting hér á landi með uppbyggingu hönnunardeildar Listaháskólans. Mér er kunnugt um að þar fer fram metnaðarfullt starf. Það er mikill fengur fyrir íslenskt atvinnulíf að svo margir skuli mennta sig í þeim greinum sem þar eru kenndar og slíkir fagmenn er vissulega forsenda þess að hér á landi geti orðið til samkeppnishæft hönnunarsamfélag.

Á vegum iðnaðarráðuneytisins hefur verið þreifað á því hvaða leiðir væru vænlegar til að stuðla að eflingu hönnunar í íslensku atvinnulífi. Í þessum tilgangi var kallað til þess samstarfs sem nú á sér stað í Hönnunarvettvangi. Sú vinna sem þar hefur átt sér stað hefur m.a. orðið til þess að auka skilning stjórnvalda á mikilvægi hönnunar. Það hlýtur svo að vekja okkur til enn frekari umhugsunar að í skýrslunni kemur fram að breska hönnunarmiðstöðin segir að 80% af umhverfisáhrifum vöru ákvarðist á hönnunarstiginu. Einnig er vitnað til fullyrðinga um að þróaðar þjóðir geti dregið úr efnis- og orkuflæði sínu um 90 %, hvorki meira né minna, án þess að skerða gæði þeirrar þjónustu sem fólk vill fá. Það er því sannarlega hægt að taka undir það með þeim Sóleyju og Halldóri að stefna um nýsköpun og hönnun eigi klárlega að taka mikilvægi sjálfbærar hönnunar með í reikninginn.

Þann 1. ágúst n.k. mun Nýsköpunarmiðstöð Íslands taka til starfa og tilkynnt verður á næstu dögum um nýjan forstjóra hennar. Ég bind miklar vonir við að þessi nýja stofnun, sem byggir á gömlum grunni, verði leidd inn á farsæla framtíðarbraut. Ég þykist nokkuð viss um að hún muni setja fólk í fyrsta sæti en tæknina í annað sæti, tæknina í þjónustu fólksins en ekki öfugt. Þannig að við getum í þekkingar- og upplifunarsamfélagi næstu áratuga tekið undir með John Thackara, þegar hann segir: "Í veröld þar sem áherslan verður minna á dót og meira á fólk verður ekki síður þörf á kerfislausnum og þjónustu sem auðvelda fólki að eiga samskipti á árangursríkan og ánægjulegan máta. Slíkar lausnir krefjast nokkurrar tækni og víðtækrar hönnunar."

Nýsköpunarmiðstöðin hefur það meginhlutverk að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og efla hverskyns nýsköpun. Meðal skilgreindra hlutverka hennar í lögum er að auka veg hönnunar í íslensku efnahagslífi og vekja fyrirtæki til vitundar um mikilvægi hönnunar í nýsköpun og vexti. Stofnuninni er einnig ætlað að eiga nána samvinnu við atvinnulíf og háskóla þar með talið Listaháskóla Íslands.

Með starfsemi þessarar nýju stofnunar er vissulega brotið blað í stuðningi við hönnun á Íslandi enda er það nýmæli að ríkisstofnun hafi það hlutverk með höndum að auka veg íslenskrar hönnunar. Stefnumótun fyrir hina nýju stofnun er um það bil að hefjast og meðal þess sem móta þarf er samvinna hennar við háskólana í landinu.

Ég tel að skýrslan, sem er tilefni þessa fundar, sé meðal annars gott framlag vegna þess að hún skýrir stöðu okkar á þessu sviði og nauðsyn þess að jarðtengja hönnunarstarfið. Sagt er að fæstar hönnunarhugmyndir lifi af fyrsta fund með væntanlegum viðskiptavini. Og það er spurt í gamni hve marga hönnuði þurfi til þess að skipta um ljósaperu. Svarið er að það þurfi að minnsta kosti þrjá: Einn til þess að breyta formgerð perunnar, annan til þess að geta út bók um þörfina fyrir nýja peruhönnun og hinn þriðja til þess að blogga um ómögulega skrúfganga í ljósastæðum.

Í þessu er ef til vill sá broddur að hönnun snýst ekki bara um flögrandi hugmyndir heldur ekki síður um tengingu þeirra inn í daglegt líf okkar, og því er hún frjór vettvangur samstarfs milli fjölda starfsstétta og öflug uppspretta nýrra atvinnutækifæra ef vel er á haldið. Skýrslan sem við fögnum hér í dag mun án efa verða meðal þeirra gagna sem höfð verða til hliðsjónar þegar línur verða lagðar um þróun hönnunardeildar í nýrri Nýsköpunarmiðstöð. Ég bind miklar vonir við þessa nýju stofnun og vonast til þess að hún muni eiga farsælt samstarf við Listaháskólann og atvinnulífið.

Takk fyrir Stoðval