17. heimsþing Alþjóða orkuráðsins

11.9.1998

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 13/1998
Dagana 13. - 18. september nk. verður 17. heimsþing Alþjóða orkuráðsins haldið í Houston í Texas. Á þinginu koma saman áhrifamenn á sviði orkumála, hvaðanæva úr heiminum, til að ræða framtíð orkuöflunar og orkunýtingar. Er þar um að ræða ráðherra orkumála, aðra stjórnmálamenn, embættismenn og fulltrúa orkufyrirtækja, auk annarra.

Yfirskrift ráðstefnunnar er að þessu sinni "Orka og tækni - Burðarásar framfara um víða veröld fram á nýtt árþúsund." Sérstaklega verður hugað að frekari þróun nýtingar á hefðbundnum auðlindum og með hvaða hætti óhefðbundnari aðferðir eða auðlindir geti leyst af hólmi þær sem nú eru hvað algengastar. Sérstök áhersla er á sjálfbæra þróun við orkuöflun og -nýtingu, hvort og þá með hvaða hætti megi mæta auknum kröfum á því sviði.

Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mun sitja ráðstefnuna fyrir Íslands hönd. Með honum í för verða Þórður Friðjónsson, ráðuneytisstjóri og Jón Ingimarsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á vefsíðu hennar, slóðin er: www.wec98congress.org
Reykjavík 11. september 1998.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval