Alþjóðleg samvinna um rafræn viðskipti

9.10.1998

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 16/1998

Í dag föstudag lýkur ráðherraráðstefnu OECD um rafræn viðskipti í Ottawa í Kanada. OECD hefur tekið höndum saman við önnur alþjóðasamtök og samtök atvinnurekenda og launþega til að minnka óvissu í rafrænum viðskiptum og stuðla þannig að framgangi þeirra í heiminum.

Rafræn viðskipti eru að gjörbylta hefðbundnum viðskiptaháttum og skapa ný sóknarfæri. Talið er að rafræn viðskipti verði helsta uppspretta hagvaxtar þegar ný öld gengur í garð. Þrátt fyrir gríðarlegan vöxt rafrænna viðskipta eru enn ljón í veginum sem nauðsynlegt er að stjórnvöld og einkaaðilar fjarlægi í sameiningu. Þannig þarf að tryggja öryggi gagna og persónuupplýsinga og neytendavernd.

Á Ottawa-fundinum mótuðu OECD-ríkin þá stefnu að einkageirinn eigi að leiða þróunina í rafrænum viðskiptum. Þessi stefna nýtur fulls stuðnings samtaka atvinnurekenda. Einkageirinn á að móta staðla sem gilda í rafrænum viðskiptum. Stjórnvöld setja ekki stein í götu þeirra með lagalegum hömlum en alþjóðlegar grundvallarreglur verði settar til að skapa traust og auka öryggi. Stjórnvöld gæti þess jafnframt að skattheimta rafrænna viðskipta hindri ekki framgang þeirra og skattareglur á þessu sviði verði samræmdar á milli landa. Þá var samþykkt ályktun um nauðsyn aukinnar samkeppni á fjarskiptamarkaði.

Finnur Ingólfsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem leiddi átta manna sendinefnd stjórnvalda og fulltrúa atvinnulífsins á Ottawa-fundinum, lagði í ræðu sinni áherslu á að rafræn viðskipti gæfu Íslendingum og öðrum smáþjóðum sóknarfæri. Mesti vöxtur í heimsviðskiptum er í greinum þar sem fjarlægðir skipta ekki máli. Finnur sagði að Íslendingar stæðu mjög framarlega við að nýta sér upplýsingatæknina. Þannig væri aðgangur Íslendinga að Internetinu sá næstmesti í heiminum og notkun greiðslukorta hvergi meiri. Líklegt væri að innan 5 ára yrði Ísland fyrsta seðlalausa samfélagið í heiminum.


Reykjavík, 9. október 1998

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval