Frumvarp um sölu á 15% af hlut ríkis í Landsbanka og Búnaðarbanka

29.11.1999

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 19/1999
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að frumvarp viðskiptaráðherra um breytingu á lögum um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands verði lagt fyrir Alþingi. Frumvarpið kveður á um heimild til að selja af hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka og Búnaðarbanka 15% hlut í hvorum banka fyrir sig. Stefnt er að því að selja 15% af hlutafé ríkissjóðs í bönkunum tveimur í lok desember 1999 með áherslu á dreifða sölu til almennings.
Frumvarpið er lagt fram í því skyni að tryggja að a.m.k. 25% af heildarhlutafé Landsbanka og Búnaðarbanka verði í eigu annarra en ríkisins í samræmi við reglur Verðbréfaþings Íslands. Þegar stjórn VÞÍ samþykkti að skrá hlutabréf Landsbanka og Búnaðarbanka á aðallista þingsins var veitt undanþága frá þessu skilyrði um dreifða eign. Undanþágan var veitt með hliðsjón af því að viðskiptaráðherra hafði lýst því yfir að það væri liður í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sölu hlutafjár í bönkunum að dreifing hlutafjár í samræmi við reglur VÞÍ væri tryggð eigi síðar en 1. júní 2000.
Hagstætt árferði á hlutabréfamarkaði gerir það að verkum að ástæða er til að tryggja framangreinda dreifingu hlutafjárins nú þegar. Með dreifðri sölu til almennings í hlutafélagabönkunum tveimur er hvatt til aukins sparnaðar heimilanna, hlutabréfamarkaður efldur og verðmyndun hlutabréfa í bönkunum treyst. Almenningi gefst jafnframt kostur á að nýta sér kaup hlutabréfa í bönkunum til skattafsláttar í samræmi við reglur ríkisskattstjóra.
Ríkið á nú um 85% hlutafjár í Landsbanka og Búnaðarbanka, en nýtt hlutafé í bönkunum að verðmæti um 15% af heildarhlutafé hvors banka var boðið almenningi til kaups síðari hluta ársins 1998. Verði 15% hlutafjár ríkissjóðs í bönkunum, sem nemur um 12,5% af heildarhlutafé bankanna, selt mun ríkið eiga um 72% í bönkunum eftir söluna.
Verði frumvarpið að lögum á haustþingi er stefnt að því að nýta heimildina til sölu hlutafjár strax fyrir áramót. Stefnt er að því að selja meiri hluta þess hlutafjár sem í boði er til almennings en minni hluta í tilboðssölu. Tekið verður mið af reynslu fyrri útboða og lögð áhersla á dreifða eignaraðild. Viðskiptaráðherra tekur ákvörðun um útfærslu sölunnar að fengnum tillögum framkvæmdanefndar um einkavæðingu.
Ekki liggur fyrir hvernig ríkið hyggst selja afganginn af hlutabréfum sínum í Landsbanka og Búnaðarbanka. Ákvörðun um sölu bankanna mun mjög mótast af aðstæðum á markaði á hverjum tíma. Stefnumótun um sölu bankanna er í höndum ráðherranefndar um einkavæðingu. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að ,,hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu. Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum."

Reykjavík, 29. nóvember 1999.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval