Reglugerðir fyrir viðskipti í kauphöll og veiting starfsleyfis

24.6.1999

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 7/1999Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur í dag veitt Verðbréfaþingi Íslands h.f. starfsleyfi til kauphallarstarfsemi frá og með 1. júlí. Í fyrsta sinn er því íslenskri kauphöll veitt leyfi á grundvelli nýlegra laga nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Einkaréttur Verðbréfaþings Íslands til að stunda kauphallarviðskipti var afnuminn með framangreindum lögum og jafnframt veittur frestur til 1. júlí 1999 til aðlögunar á starfsemi sinni að hinum nýju lögum.
Viðskiptaráðherra hefur jafnframt í dag staðfest þrjár mikilvægar reglugerðir sem taka til viðskipta með verðbréf sem eru opinberlega skráð í kauphöll.
Í reglugerð um yfirtökutilboð er að finna nánari reglur um skyldu til að gera eigendum minnihluta hlutafjár tilboð um að kaupa tiltekinn hlut þeirra í hlutafélagi sem einn aðili hefur eignast meirihluta í með yfirtöku á félaginu. Ákvæðin eru nýmæli og er það í fyrsta sinn sem settar eru reglur á Íslandi sem veita minnihluta hluthöfum víðtækari vernd en lágmarkskröfur hlutafélaga segja til um. Ör þróun á fjármagnsmarkaði, aukin hlutafélagavæðing og síaukin viðskipti á hlutabréfamarkaðnum gera kröfur til þess að stjórnvöld fylgi slíkum breytingum eftir með setningu almennra reglna sem miða að jafnræði og auknu öryggi fjárfesta.
Í reglugerð um upplýsingaskyldu útgefenda, kauphallaraðila og eigenda verðbréfa, sem skráð eru í kauphöll eru mikilvæg ákvæði er miða að því að tryggja gagnsæi í viðskiptum með hlutabréf félaga sem skráð eru opinberlega í kauphöll. Í reglugerðinni er að finna ákvæði sem m.a. skylda útgefendur verðbréfa sem hafa verið skráð í kauphöll til að birta allar upplýsingar sem kunna að hafa áhrif á verðmyndun bréfanna. Í reglugerðinni eru jafnframt nánari ákvæði sett um skyldu til að tilkynna til kauphallar ef eignarhlutur eins aðila nær 5,10,20,33, 50 og 66% af heildarhlutafé félagsins (flöggunarreglur).
Í reglugerð um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll eru sett ítarleg ákvæði um þau skilyrði sem hlutabréf (og önnur bréf) þurfa að uppfylla til þess að þau megi taka til opinberrar skráningar í kauphöll. Til þess að unnt sé að taka verðbréf til opinberrar skráningar í kauphöll ber útgefanda að leggja fram skráningarlýsingu sem uppfyllir allar lágmarkskröfur reglugerðarinnar þannig að fjárfestum sé gefin fullnægjandi mynd af útgefanda og verðbréfum hans og sem bjóða á til sölu í viðskiptakerfi kauphallarinnar. Á útgefendum verðbréfa sem skráð eru í kauphöll hvílir viðvarandi skylda til að miðla upplýsingum um allt er varðar hagi og stöðu félags sem skráð hefur verðbréf sín í kauphöll.
Með lögum nr. 34/1998, svo og framangreindum reglum hefur verið stigið stórt skref til þess að tryggja ennbetur öryggi fjárfesta á íslenskum fjármagnsmarkaði og aðlaga íslensk lög og reglugerðir að þeim alþjóðlegu viðmiðunum sem gilda um viðskipti í kauphöllum og skipulegum tilboðsmörkuðum. Hlutabréfamarkaðurinn gegnir æ mikilvægara hlutverki við fjármögnun íslenskra fyrirtækja til að standa undir nýsköpun og framþróun þeirra. Traust umgjörð laga og reglna á þessu sviði mun því styrkja atvinnuuppbyggingu á Íslandi þegar til lengri tíma er litið.

Reykjavík, 24. júní 1999.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval