Leyfi til rannsókna á hveraörverum

22.10.1999

Iðnaðar-og viðskiptaráðuneyti
Nr. 16/1999
Hraðfara framfarir í líftækniiðnaði, alþjóðavæðing vísindanna, Ríó samningurinn um líffræðilega fjölbreytni og nauðsyn þess að tryggja óskoraðan rétt okkar yfir erfðaauðlindum landsins lágu til grundvallar setningu 34. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998. Þar segir að rannsóknir og nýting á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum séu óheimilar án leyfis iðnaðarráðherra. Rannsóknir í tengslum við líftækniiðnað höfðu að stórum hluta snúist um hitakærar örverur sem skýrir takmörkun greinarinnar.

Á grundvelli laganna voru samdar reglur um veitingu leyfa til rannsókna og hagnýtingar á hveraörverum og erfðaefnum þeirra. Reglurnar sem iðnaðarráðuneytið vann í samráði við umhverfisráðuneytið voru gefnar út í apríl 1999 og í kjölfar þeirra var auglýst eftir umsóknum um tímabundin leyfi til rannsókna á örverum á allt að 30 afmörkuðum svæðum, sem er helmingur þeirra 60 svæða sem skilgreind höfðu verið í reglunum.

Þrátt fyrir að með reglunum yrðu allar rannsóknir á hveraörverum leyfisskyldar þá var eitt meginmarkmið reglnanna að tryggja óheft frelsi til vísindalegra grunnrannsókna. Þetta þýðir að þrátt fyrir að veitt væri tímabundið sérleyfi til rannsókna á hitakærum örverum á tilteknum jarðhitasvæðum þá útilokaði það ekki leyfi til almennra vísindalegra rannsókna á sömu svæðum.

Í reglunum koma m.a. fram þær meginkröfur sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að fá leyfi. Í því sambandi má benda á að krafist er verulegra fjárhagslegra skuldbindinga vegna rannsóknanna og þarf rannsóknaráætlun að vera vel skilgreind og með glöggum markmiðum.

Þrjú fyrirtæki sóttu um rannsóknarleyfi: Íslenskar hveraörverur ehf., Bláa lónið hf. og Humall ehf. Mati á umsóknunum er nú lokið og verður tveim þessara fyrirtækja veitt leyfi til rannsókna á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum. Íslenskar hveraörverur ehf. fær leyfi á 28 svæðum og Bláa lónið hf. á tveim svæðum. Humall ehf. skilaði ekki umbeðnum gögnum og var litið svo á að umsóknin væri dregin til baka. Leyfin eru unnin í samráði við umhverfisráðuneytið.

Rannsóknir á hveraörverum hafa verið stundaðar hjá Iðntæknistofnun og fleiri aðilum um nokkurra ára skeið. Á sama tíma hafa erlend vísindafyrirtæki safnað sýnum hér á landi og rannsakað þau með fjárhagslegan ávinning í huga. Með framangreindu lagaákvæði og reglum settum með stoð í því hefur óheft sýnataka verið stöðvuð og lagður grunnur að því að rannsóknir á íslenskum örverum og erfðaefnum þeirra nýtist íslensku vísindasamfélagi betur en verið hefur.
Leyfið leggur auk þess grunn að því að unnt verði að fjármagna nýjar vísindarannsóknir með innlendu og erlendu áhættufé sem líklega hefði ekki fengist án þess. Vaxtarbroddar íslensks atvinnulífs felast ekki hvað síst í möguleikum á sviði þekkingariðnaðar. Fyrsta skrefið hefur nú verið stigið til að tryggja lagalegt umhverfi líftækniiðnaðar á Íslandi.


Reykjavík, 22. október 1999.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval