Mannabreytingar í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

28.7.1999

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 10/1999


Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur sett prófessor Þorgeir Örlygsson, ráðuneytisstjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum, frá og með 15. ágúst næstkomandi. Þorgeir lauk embættisprófi í lögum frá lagadeild Háskóla Íslands vorið 1978, og meistaraprófi í alþjóðarétti frá lagadeild Harvard háskóla í Bandaríkjunum lauk hann vorið 1980 með sérstakri áherslu á alþjóðlegan viðskiptarétt og réttarreglur um erlenda fjárfestingu í náttúruauðlindum. Þorgeir hefur starfað sem dómarafulltrúi, aðstoðarmaður hæstaréttardómara, hann var um skeið borgardómari í Reykjavík, en lengst af hefur hann starfað sem prófessor í fjármunarétti við lagadeild Háskóla Íslands. Hann hefur átt sæti í fjölda nefnda og ráða á vegum hins opinbera og frá árinu 1986 hefur hann verið formaður Tölvunefndar. Þorgeir Örlygsson er 46 ára gamall, kvæntur Iðunni Reykdal framhaldsskólakennara og eiga þau tvö börn.

Þórður Friðjónsson, sem gegnt hefur stöðu ráðuneytisstjóra í ráðuneytunum frá 14. apríl 1998, hverfur til sinna fyrri starfa sem forstjóri Þjóðhagsstofnunar.

Þá hefur verið ákveðið að Kristján Skarphéðinsson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneyti flytjist í iðnaðarráðuneyti, þann 20. ágúst. Kristján, sem er hagfræðingur, hefur starfað í sjávarútvegsráðuneytinu frá árinu 1987 þar af sem skrifstofustjóri frá árinu 1997. Þó eru undanskilin árin 1993 til 1996 er hann var fiskimálafulltrúi við sendiráð Íslands í Brussel. Kristján er 41 árs gamall, kvæntur Guðrúnu B. Einarsdóttur kennara og eiga þau þrjú börn.


Reykjavík 27. júlí 1999.


 

Fréttir eftir árum...
Stoðval