Bankaráð Landsbanka og Búnaðarbanka hefja viðræður um samruna

Leitað verði eftir forúrskurði Samkeppnisráðs

13.10.2000

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 19/2000
Ríkisstjórn samþykkti í morgun tillögu viðskiptaráðherra um að beina þeim tilmælum til bankaráða Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. að hafnar verði viðræður um samruna bankanna. Jafnframt leggur ríkisstjórnin til við bankaráðin að óskað verði eftir forúrskurði samkeppnisráðs samkvæmt 3. mgr. 18. gr. samkeppnislaga.

Ríkið á meira en 2/3 hlutafjár í bæði Landsbanka og Búnaðarbanka. Því munu bankaráðin hafa náið samráð við þriggja manna starfshóp sem viðskiptaráðherra hefur skipað til að gæta hagsmuna ríkisins í sameiningarferlinu og gera tillögu til viðskiptaráðherra um afstöðu til samrunans á hluthafafundi. Formaður hópsins er Þorgeir Örlygsson ráðuneytisstjóri iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis en aðrir í hópnum eru Hreinn Loftsson hrl. og Jón Sveinsson hrl.

Síðustu ár hefur mikil samrunabylgja banka gengið yfir í samkeppnislöndum Íslendinga. Ástæður hennar má meðal annars rekja til tækniþróunar og alþjóðavæðingar. Til að bankar standist samkeppni við nýja keppinauta er mikilvægt að leggja í mikinn kostnað við innleiðingu upplýsingakerfa. Einnig hefur staðbundin vernd banka minnkað. Sú vernd mun hverfa eftir því sem viðskiptavinir læra að nýta sér upplýsingar og samanburð á Netinu. Sá banki sem ekki getur boðið kjör sem standast alþjóðlegan samanburð verður á endanum undir í samkeppni.

Samruni banka erlendis kallar á viðbrögð ríkisins til að stuðla að samkeppnishæfni íslensks fjármagnsmarkaðar. Sem dæmi um rök fyrir samruna Landsbanka og Búnaðarbanka má nefna:
· Samruni er stærsta skrefið sem hægt er að stíga til að stuðla að lækkun vaxta hér á landi, heimilum og fyrirtækjum til hagsbóta.
· Sameinaður banki gæti rekið víðtækt útibúanet með hagkvæmari hætti en núverandi bankar.
· Sameinaður banki gæti veitt stærstu fyrirtækjum heildarþjónustu með hagkvæmari hætti.
· Sameinaður banki er fjárhagslega sterkari eining með tilliti til þátttöku í erlendri fjármálaþjónustu og áhugaverðari fjárfestingarkostur fyrir erlenda banka.

Með samruna Landsbanka, sem er annar stærsti viðskiptabanki landsins, og Búnaðarbanka, sem er þriðji stærsti bankinn, yrði til banki sem hefði sterka stöðu á íslenskum fjármagnsmarkaði. Sameinaður banki yrði með um 44% hlutdeild af heildarútlánum innlánsstofnana og um 40% af lánum til einstaklinga. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. samkeppnislaga geta aðilar sem hyggja á samruna leitað álits samkeppnisráðs fyrir fram á því hvort samruninn leiði til markaðsyfirráða eða dragi verulega úr samkeppni. Mikilvægt er að fá úr því skorið fyrir fram hvort samruni Landsbanka og Búnaðarbanka samrýmist ákvæðum samkeppnislaga.

Landsbanki og Búnaðarbanki standa frammi fyrir hagræðingaraðgerðum, óháð því hvort ráðist verður í samrunann. Samkvæmt alþjóðlegum reynslutölum má ætla að áhrif samruna og tækniþróunar þýði nokkra fækkun stöðugilda á fyrstu rekstrarárum sameinaðs banka. Ljóst er að fækkun starfa verður mest í höfuðstöðvum og útibúum á höfuðborgarsvæðinu þar sem starfsmannavelta er hvað hröðust. Því er gert ráð fyrir að með starfsmannaveltu og starfslokasamningum megi komast hjá því að grípa til fjöldauppsagna.
Reykjavík, 13. október 2000

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval