Opinber heimsókn til Nýfundnalands og Nova Scotia í Kanada

20.9.2000

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 17/2000

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra verður í opinberri heimsókn á Nýfundnalandi og í Nova Scotia í Kanada dagana 25. – 28. september nk. Þar mun hún eiga fundi með ráðherrum beggja fylkja um viðskipti milli landanna. Með í för ráðherra verða fulltrúar 24 íslenskra fyrirtækja.

Mánudaginn 25. september mun ráðherra sitja fund ráðherra sem koma að samstarfinu North Atlantic Islands Program. Fundurinn er haldinn í tengslum við ráðstefnuna North Atlantic Forum 2000 (www.naf2000.org). Á fundi ráðherranna verða rædd atvinnuþróunarmál í litlum hagkerfum. Fundurinn mun eiga sér stað í bænum Corner Brook á Nýfundnalandi. Klukkan 15.00 mun Valgerður Sverrisdóttir ásamt Beaton Tulk byggðamálaráðherra Nýfundnalands fara til Fogo eyju þar sem formlega verður opnuð rækjuverksmiðja, sem að hluta er í eigu íslenskra fjárfesta.

Þriðjudaginn 26. september stendur íslenska sendinefndin fyrir ráðstefnu í St. John}s á Nýfundalandi. Þar verða aðstæður á Íslandi kynntar hugsanlegum samstarfsaðilum og fjárfestum í St. John}s. Að ráðstefnunni lokinni munu eiga sér stað fundir íslenskra og kanadískra fyrirtækja um mögulegt samstarf. Klukkan 17.00 verður nýtt netaverkstæði Hampiðjunnar formlega opnað, en það er staðsett rétt utan St. John}s.

Miðvikudaginn 27. september mun Valgerður Sverrisdóttir eiga fundi í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti Nova Scotia í Halifax og heimsækja frumkvöðlasetur þar í borg. Þá býður Gordan Balser atvinnuþróunarráðherra Nova Scotia íslenska ráðherranum til kvöldverðarfundar.

Fimmtudaginn 28. september stendur íslenska sendinefndin fyrir ráðstefnu í Halifax. Þar verða aðstæður á Íslandi kynntar hugsanlegum samstarfsaðilum og fjárfestum í Halifax. Að ráðstefnunni lokinni munu eiga sér stað fundir íslenskra og kanadískra fyrirtækja um mögulegt samstarf. Um kvöldið býður Valgerður Sverrisdóttir íslensku viðskiptasendinefndinni og kanadískum gestum þeirra til lokahófs.

Nánari upplýsingar um ferð ráðherra veitir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Nánari upplýsingar um dagskrá íslensku fyrirtækjanna veitir Útflutningsráð Íslands.

Reykjavík, 20. september 2000.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval