Flutningur Byggðastofnunar

7.7.2000

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 15/2000Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra hefur í dag tekið ákvörðun um að flytja höfuðstöðvar Byggðastofnunar frá Reykjavík til Sauðárkróks. Er þessi ákvörðun í samræmi við tillögu sem stjórn Byggðastofnunar lagði fyrir ráðherra í byrjun síðasta mánaðar. Ráðherra leggur áherslu á að stjórn Byggðastofnunar vandi vel allan undirbúning og framkvæmd flutningsins þannig að sem minnst röskun verði á starfsemi stofnunarinnar. Jafnframt beinir ráðherra þeim tilmælum til stjórnar stofnunarinnar að hagsmunir núverandi starfsfólks Byggðstofnunar í Reykjavík verði tryggðir eins og hægt er og lög standi til. Ráðherra hefur skýrt ákvörðun sína fyrir formanni stjórnar Byggðastofnunar, forstjóra stofnunarinnar og fulltrúa starfsmanna. Þá átti ráðherra fund með starfsmönnum Byggðastofnunar áður en ákvörðun var tekin.

Er tillagan um flutning Byggðastofnunar kom fram fól ráðherra ráðgjafafyrirtækinu PriceWaterhouseCoopers hf. að kanna hagkvæmni þess að flytja starfsemi Byggðastofnunar til Sauðárkróks. Það er niðurstaða ráðgjafafyrirtækisins að spara megi um 10 milljónir króna í árlegum rekstrarkostnaði stofnunarinnar ef hún yrði alfarið flutt á Sauðárkrók en þar hefur þróunarsvið stofnunarinnar verið staðsett frá árinu 1998. Þá er gert ráð fyrir að það myndist um 70 millj. kr. jákvæður mismunur vegna sölu á skrifstofuhúsnæði stofnunarinnar í Reykjavík og kaup á viðbótarhúsnæði á Sauðárkróki. Loks er áætlað að kostnaður við framkvæmd flutninga verði um 10 milljónir króna.

Við mat á tillögu stjórnar Byggðastofnunar um að flytja starfsemi hennar til Sauðárkróks lagði ráðherra til grundvallar þingsályktun Alþingis um stefnu í byggðamálum 1999-2001. Í þeirri stefnu Alþingis er lögð áhersla á fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni en í tillögunni segir að stefnt skuli að því að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur Alþingi sett í lög að ráðherra ákvarði staðsetningu ríkisstofnana nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum.

Ráðherra leggur til að stjórn stofnunarinnar beiti sér fyrir því að öllum starfsmönnum stofnunarinnar verði boðið að halda áfram störfum hjá Byggðastofnun. Reynt verði eftir fremsta megni að aðstoða starfsfólk í leit að húsnæði og atvinnu fyrir maka. Ráðherra telur jafnframt mikilvægt að tryggja sem best hagsmuni þess starfsfólks sem ekki getur þegið boð um að vinna áfram við stofnunina eftir að hún er flutt á Sauðárkrók. Í því sambandi hefur hann lagt til við stjórnina að stofnunin vinni að því í samvinnu við iðnaðarráðuneytið að útvega þeim starfsmönnum atvinnu og að sérstaklega verði kannað hvort stofnunin geti tekið þátt í kostnaði við endurmenntun þeirra sem þess óska.

Reykjavík, 7. júlí 2000

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval