Samningar um stækkun Norðuráls undirritaðir

Frétt frá iðnaðarráðuneyti og Norðuráli

14.6.2000


 
Iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra hafa fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands undirritað samninga við Norðurál um stækkun álversins á Grundartanga um sem nemur 30.000 tonna ársframleiðslu. Samningarnir eru m.a. gerðir í ljósi jákvæðra niðurstaðna af umfangsmiklum rannsóknum á umhverfi Norðuráls sem staðið hafa yfir frá árinu 1997. Grundvöllur stækkunarinnar er mat Columbia Ventures, eigenda Norðuráls, á framtíðarmöguleikum álversins á Grundartanga, í ljósi góðrar reynslu af samstarfi við Íslendinga, ásamt ítarlegum útreikningum á arðsemi framkvæmdanna.

Ein af meginforsendum stækkunarinnar eru samningar við Landsvirkjun um viðbótarorkuöflun til Norðuráls og hafa þeir samningar verið undirritaðir. Jafnframt voru í dag undirritaðir samningar við innlenda aðila að fjármögnun stækkunarinnar, en samningar við erlenda lánveitendur verða undirritaðir í London næstkomandi föstudag. Að auki voru í dag undirritaðir samningar við stjórn Grundartangahafnar og við oddvita sveitarfélaganna Skilmannahrepps og Hvalfjarðarstrandarhrepps.

Heildarkostnaður 6,5 milljarðar
Heildarkostnaður við verkefnið nemur að meðtöldum verkábyrgðum um 6,5 milljörðum íslenskra króna (um 85 milljónum USD). Umsjón með fjármögnuninni hefur BNP Paribas bankinn, en alls koma 11 bankar að verkefnaláninu. Þar af eru tveir íslenskir bankar, Landsbankinn, sem er stærsti einstaki lánveitandinn, og Íslandsbanki FBA. Heildarupphæð verkefnalánsins er 12,5 milljarðar íslenskra króna og tekur lánið jafnframt yfir eldri lán vegna 1. áfanga Norðuráls.

Verðmæti útflutnings eykst um 3,5 milljarða
Framkvæmdir við stækkun Norðuráls eru þegar hafnar. Áætlað að þeim ljúki sumarið 2001 og að lokið verði við að gangsetja öll kerin í nýja kerskálanum á þriðja fjórðungi ársins 2001. Gert er ráð fyrir að starfsmönnum Norðuráls fjölgi um 50 þegar stækkunin er um garð gengin, þannig að heildarfjöldi starfsmanna álversins verði um 220. Miðað við núverandi markaðsverð á áli mun stækkunin auka verðmæti útflutnings frá Íslandi um 3,5 milljarða króna á ári og heildarverðmæti útflutnings frá Norðuráli mun þá nema ríflega 10 milljörðum á ári.

Góður árangur
Rekstur Norðuráls gengur vel og hefur álverið skilað hagnaði frá 2. ársfjórðungi 1999. Tekist hefur að upplýsa orsakir galla í kerafóðringum sem fram komu í vetur og eru öll ker Norðuráls nú í fullri framleiðslu. Starfsfólk álversins hefur náð mjög góðum tökum á framleiðslunni og sem dæmi um eftirtektarverðan árangur má nefna að gæði framleiðslunnar eru vel umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval