Heimur í norðri, Fåborg 19. júní 2000 -

20.6.2000

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 12/2000
Ráðherrar neytendamála á Norðurlöndum lýstu því yfir á fundi sínum þann 19. júní 2000 að ýmis úrlausnarefni á sviði neytendamála sé vænlegast að leysa með samspili þjóðlegra, norrænna, evrópskra og alþjóðlegra aðgerða.

Ráðherrarnir eru sammála um að hin samnorræna uppbygging og fyrirkomulag á sviði neytendamála sé í fullu gildi og leggi grunninn að sterkri og árangursríkri samvinnu á alþjóða vettvangi. Mörg af vandamálum nútímans má rekja langt út yfir norræn landamæri. Þess vegna er nauðsynlegt að Norðurlöndin taki þátt í að auka og styrkja samstarf sitt á alþjóðavettvangi í þessum málaflokki á komandi árum.

Það er mat ráðherranna að Norðurlöndin hafi góðar forsendur til að móta og hafa áhrif á hina alþjóðlegu umræðu sem á dagskrá er hverju sinni – ekki hvað síst á vettvangi Evrópusambandsins. Finnland hefur einmitt nýlega lokið mjög árangursríku formannstímabili innan ESB og Svíþjóð og Danmörk eru að undirbúa væntanlega formennsku sína þar. Þessi alþjóðlega yfirsýn mótaði einnig í reynd fund ráðherranna þar sem fjögur stjórnmálaleg úrlausnarefni á sviði neytendamála voru rökrædd – öll með tilliti til alþjóðlegrar yfirsýnar.

· Réttur neytenda við samruna fjármálastofnana yfir landamæri.
Ráðherrar neytendamála styðja að sett verið á fót könnun eða rannsókn til að skoða rétt neytenda í tengslum við samruna fjármálastofnana yfir landamæri. Norrænu neytendamálaráðherrarnir vilja að á grundvelli hennar verði síðan metið hvort ástæða sé til aðgerða er miði að því að tryggja norrænum neytendum rétt sinn í framtíðinni.

· Skipulag markaða í alþjóðlegu tilliti.
Ráðherrarnir eru sammála um að taka þurfi tillit til neytendasjónarmiða í viðskiptum yfir landamæri og er það forgangsmál á sviði neytendaverndar. Ráðherrarnir styðja þess vegna að Norðurlöndin standi sameiginlega að aðgerðum sem tryggi að góðir viðskiptahættir séu ávallt virtir, einnig í viðskiptum yfir landamæri og ekki hvað síst í rafrænum viðskiptum.

Ráðherrarnir voru sammála um að unnið verði að því að setja samræmdar reglur um markaðssetningu á vettvangi Evrópusambandsins sem taki mið af hinni almennu grunnreglu um góða viðskiptahætti eins og hún þekkist í norrænum rétti.

· Vandamál vegna verslunar yfir landamæri.
Norrænu ráðherrarnir styðja að sett verði á laggirnar áhrifaríkt, sterkt, evrópskt net til að leysa ágreining og deilumál og styrkja samstarf slíkra aðila með sérstöku tilliti til að skapa betri og öruggari ramma vegna viðskipta neytenda yfir landamæri.


· Fjármögnum norrænna neytendarannsókna.
Ráðherrarnir hvetja til að sett verði á fót séráætlun vegna norrænna neytendarannsókna. Ráðherrarnir munu einnig senda orðsendingu til framkvæmdastjórnar ESB og hvetja til þess að sérstaklega verði gætt að neytendasjónarmiðum við mótun 6. rammaáætlunar ESB um rannsóknir og þróun.

Af hálfu Íslands sóttu fund þennan Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra og Tryggvi Axelsson deildarstjóri, viðskiptaráðuneyti.
Reykjavík, 20. júní 2000.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval