Átak um jarðhitaleit á köldum svæðum

7.6.2000

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 9/2000
Átaksverkefni iðnaðarráðuneytis, Byggðastofnunar og Orkusjóðs um jarðhitaleit á köldum svæðum hefur verið framlengt um tvö ár í ljósi góðs árangurs. Stefnt er að því að ljúka rannsóknum á sem flestum stöðum á landinu.

Átaksverkefninu var hrundið af stað að frumkvæði fyrrverandi iðnaðarráðherra snemma sumars 1998. Markmiðið var að finna nýtanlegan jarðhita til húshitunar á svonefndum "köldum svæðum", þar sem jarðhiti er ekki eða illa þekktur. Einnig skyldi styrkja nýjar aðferðir við nýtingu jarðhita. Miðað var við að styrkja jarðhitaleit í sveitarfélögum þar sem notendur væntanlegrar hitaveitu væru yfir 100 talsins. Verkefnið var ákveðið til 2ja ára og 30 milljónum króna veitt til verksins hvort árið. Iðnaðarráðuneytið lagði til 25 milljónir króna, Orkusjóður sömu upphæð og Byggðastofnun 10 milljónir. Þess var krafist að þeir sem fengju styrki, leggðu fram jafn háa eða hærri upphæð og sýndu fram á arðsemi verkefnisins fyrir sveitarfélagið.

Orkustofnun sá um framkvæmd verkefnisins en það fékk mjög góðar viðtökur. Aðeins var unnt að sinna hluta þeirra umsókna sem bárust. Reynt var að dreifa styrkjum þannig að ekkert landssvæði gæti talið sig afskipt, en þó réðst úthlutunin aðallega af dreifingu jarðhita á landinu. Flestir styrkjanna runnu til Austurlands en fæstir til Suðurlands.

Jarðhitaleit er þegar lokið á Hjalteyri, Borðeyri, Drangsnesi og í Eyja- og Miklaholtshreppi með góðum árangri. Þá hefur jarðhitavottur fundist á mörgum öðrum stöðum og er enn unnið með borunum og öðrum rannsóknum að því að sannreyna tilvist hans og finna vænlega virkjunarstaði, s.s. á Fáskrúðsfirði, Seyðisfirði, Reyðarfirði og víðar. Í Skarðshlíð á Suðurlandi tókust tilraunir með nýjar aðferðir í vinnslu og nýtingu jarðvarma vel en lakari árangur varð af svipuðu verkefni í Vík í Mýrdal.Það hefur hamlað nokkuð framgangi verksins að á stundum hefur verið erfitt að fá bortæki á staðina, vegna mikillar grósku í þjóðfélaginu, og rannsóknum því seinkað. Hefur jafnvel verið unnið að borun í norðan stórhríð og frosti. Í flestum tilvikum fólst leitin í því að bora 50 – 100 m djúpar holur, til að þreifa á hita efst í jarðskorpunni, en þessi aðferð hefur reynst notadrjúg við jarðhitaleit á undanförnum árum.

Þótt verkefninu ljúki ekki fyrr en á seinni hluta þessa árs, þykja niðurstöðurnar það jákvæðar að ástæða er talin til að framlengja verkefninu í a.m.k. tvö ár. Jafnframt að fella niður fjöldatakmarkanirnar því að á mörgum stöðum á landinu, þar sem búa færri en 100 íbúar, er áhugi á að kanna hvort jarðhiti finnist. Er það talið hagkvæmt, með tilliti til niðurgreiðslna á rafmagni, auk þess sem rannsóknir af þessu tagi geta skilað árangri á annan hátt. Á Seyðisfirði fannst t.d. kalt vatn sem nú nýtist bæjarfélaginu. Á stöðum þar sem ekki finnst nýtanlegur jarðvarmi, er hægt að haga skipulagningu orkumála í samræmi við það.

Til viðbótar þeim 60 milljónum króna sem þegar hefur verið varið til jarðhitaleitar á köldum svæðum, koma nú aðrar 60 milljónir króna til úthlutunar á tveimur árum.

Orkustofnun mun áfram annast framkvæmd verkefnisins og verður fljótlega auglýst eftir styrkumsóknum.
Reykjavík, 7. júní 2000

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval