Fundur iðnaðar- og viðskiptaráðherra með framkvæmdasstjórum Evrópusambandsins, 04.05.2000

10.5.2000

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 7/2000


Fundur iðnaðar- og viðskiptaráðherra í Brussel 4. apríl s.l.
með 3 framkvæmdastjórum Evrópusambandsins.

Valgerður Sverrisdóttir og Erkki Liikanen
Þann 4. apríl sl. átti Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fundi með þrem framkvæmdastjórum Evrópusambandsins, þeim Loyola de Palacio sem er annar af tveim varaforsetum framkvæmdastjórnarinnar, auk þess að fara með orkumál, samgöngur og tengsl við Evrópuþingið fyrir framkvæmdastjórnina, Erkki Liikanen sem fer með málefni fyrirtækja og upplýsingasamfélagsins og loks Frits Bolkestein sem fer með málefni innri markaðarins, m.a. starfsemi á sviði fjármálaþjónustu. Sama dag átti ráðherrann einnig fundi með þingmönnum Evrópuþingsins og fulltrúum Ráðherraráðsins.
Á fundi ráðherrans með Palacio var rætt almennt um EES-samstarfið, stefnumörkun ESB á sviði orkumála, tilskipun um samkeppni á orkumarkaði og endurnýjanlega orku. Sérstaklega var fjallað um skilgreiningar í væntanlegri tilskipun ESB á sviði endurnýjanlegrar orku, en þar hefur m.a. verið gert ráð fyrir því að vatnsorkuver sem eru minni en 10 megawött (MW) verði innan skilgreiningar á sviði endurnýjanlegrar orku en ekki vatnsorkuver fyrir ofan þá skilgreiningu. Valgerður Sverrisdóttir skýrði afstöðu Íslands hvað þetta varðar og lagði áherslu á að öll vatnsorka væri endurnýjanleg orka og að ekki ætti að vera með sérstakar skilgreiningar í þessu sambandi, en þessi áhersla er í samræmi við áherslur EFTA/EES landanna. Palacio tók undir þau sjónarmið og rök sem fram komu og taldi möguleika á því að finna lausn á þessu vandamáli sem hentað gæti Íslandi sem og öðrum EFTA/EES ríkjum. Einnig taldi hún afar athyglisvert að endurnýjanleg orka á Íslandi skyldi vera jafn hátt hlutfall og raun ber vitni eða um 67% af allri orku og í raun það allra hæsta innan Evrópu.
Við Erkki Liikanen var rætt um málefni fyrirtækja og upplýsingasamfélagsins og um framtíðarstefnumörkun ESB á því sviði. Einnig var fjallað um mikilvægi samvinnu, samstarfs og funda æðstu embættismanna samningsaðila eftir fagsviðum. Sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að ráðherrar samningsaðila eftir fagsviðum hittast ekki innan ramma EES samningsins, þrátt fyrir að EFTA/EES löndin taki yfir nánast allar tilskipanir er varða innri markaðinn, þ.e. frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og frjálsa för fólks, auk margvíslegra samstarfsverkefna sem í gangi eru á hinum ýmsu fagsviðum. Á sviði upplýsingasamfélagsins var fjallað um þá hröðu þróun sem nú væri á sviði upplýsingamiðlunar og fram kom að Erkki Liikanen myndi eyða verulegum tíma í samskipti og samstarf við Bandaríkin, Japan og fleiri lönd, þar sem mikilvægt er að samræma kröfur og lagaramma á þessu sviði þannig að það nýtist sem best fyrirtækjum og einstaklingum í því alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem ríkir á þessu sviði og er vaxandi. Einnig var fjallað um tengd málefni s.s. upplýsingasamfélagið, tækni og byggðaþróun, en fram kom að í Finnlandi hefði náðst athyglisverður árangur á því sviði. Á fundinum bauð Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Erkki Liikanen til ráðstefnu á Íslandi haustið 2000, um upplýsingasamfélagið og viðskipti í breyttu umhverfi, og var því vel tekið.
Að síðustu var fundað með Frits Bolkestein sem fer með málefni innri markaðarins, m.a. starfsemi á sviði fjármálaþjónustu. Á fundinum var fjallað um þróun innri markaðarins, fjármálaþjónustu, verkefnið IMAC og aðgang EFTA-landanna að gagnagrunninum Business Dialouge sem miðla á upplýsingum til einstaklinga og fyrirtækja um hin margvíslegustu málefni innri markaðarins. Fjallað var almennt um þessi mál og mikilvægi þess að samstarf á þessu sviði þjóni báðum aðilum. Í umræðum um fjármál var m.a. vikið að stöðu Evrunnar og þeirri breytingu sem orðið hefur á gengi á seinustu misserum og framtíðarþróun á því sviði.
Á fundum með þingmönnum European Liberal Democrats á Evrópuþinginu frá Finnlandi, Danmörku og Bretlandi var fjallað um almenn málefni er tengjast Evrópusambandinu og EES, en eftir gildistöku Amsterdamsamkomulagsins hafa völd Evrópuþingsins aukist frá því sem áður var. Þannig getur þingið m.a. stöðvað framgang einstakra tilskipana frá ráðherraráðinu og framkvæmdastjórninni. Þetta hefur leitt til aukins samstarfs á milli ráðsins og þingsins, sem um leið eykur mikilvægi þess að EFTA/EES löndin hafi meiri samskipti og rækti betur samstarf við þessa aðila. Ástæðan er sú að ekki er gert ráð fyrir samskiptum þessara aðila innan EES-samningsins þrátt fyrir að verið sé að fjalla um tilskipanir er þessi lönd verða síðar að taka upp.
Á fundi með fulltrúa ráðherraráðsins var fjallað um þá miklu starfsemi sem fer fram innan ráðsins. EFTA/EES löndin hafa ekki aðgang að ákvörðanatöku í ráðinu þrátt fyrir að málefni innri markaðarins séu eitt af megin viðfangsefnum þess og er ennfremur kjarni EES samningsins. Fram kom að mikið nefndarstarf fer fram innan ráðsins. Um 300 fagnefndir undirbúa hin ýmsu málefni sem síðan koma til lokaafgreiðslu á fundum ráðherra hinna ýmsu fagsviða.

Reykjavík, 10. maí 2000

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval