Framtíðarskipulag raforkuflutnings

14.3.2000

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 5/2000

Sjálfstætt fyrirtæki í eigu orkuveitnanna tekur við flutningi raforku í ársbyrjun 2002, ef tillögur nefndar sem iðnaðarráðherra skipaði til að skoða framtíðarskipulag raforkuflutnings hér á landi, ná fram að ganga. Stofnun raforkuflutningsfyrirtækis kallar jafnframt á breytt skipulag Landsvirkjunar og orkuveitnanna.

Meginmarkmið breytinga á skipulagi raforkumála er að búa þessum mikilvæga málaflokki eðlileg viðskipta- og starfsskilyrði, stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulindanna til hagsbóta fyrir alla landsmenn og laga fyrirkomulag þessara mála að tilskipun Evrópusambandsins.

Til að hægt sé að koma á samkeppni í raforkuvinnslu- og sölu þarf að aðgreina samkeppnisþættina (vinnslu og sölu) frá sérleyfisþáttunum (flutningi og dreifingu) og eru helstu tillögur nefndar iðnaðarráðherra þessar:

1. Stofnað verði sjálfstætt fyrirtæki til að sjá um flutning raforku. Flutningsfyrirtækið verði í eigu orkuveitnanna sem leggja eignir til þess en stjórnunarlega verður flutningsfyrirtækið. aðskilið frá eigendum sínum. Til að tryggja jafnræði vinnsluaðila á samkeppnismarkaði þurfa allar helstu virkjanir landsins að tengjast raforkuflutningsfyrirtækinu Því er lagt til að í upphafi nái starfsemi þess að minnsta kosti til flutningskerfis Landsvirkjunar og flutningslína sem tengja Nesjavallavirkjun og orkuverið í Svartsengi við það kerfi. Síðar yrði könnuð stækkun raforkuflutningsfyrirtækisins þannig að það næði einnig yfir hluta af aðveitukerfinu.

2. Nefndin gerir ráð fyrir að skipulag Landsvirkjunar verði lagað að breyttu fyrirkomulagi raforkuflutnings, t.d. með stofnun eignarhaldsfélags sem færi með yfirstjórn og stefnumótun en dótturfyrirtæki um einstök svið eftir því sem við ætti. Raforkuflutningsfyrirtækið yrði eitt þessara dótturfyrirtækja eignarhaldsfélags Landsvirkjunar og yrði að stórum hluta í eigu þess til að byrja með. Tengslin væru þó eingöngu fjárhagsleg. Stjórn raforkuflutningsfyrirtækisins og framkvæmdastjóri væru óháð eignarhaldsfélaginu til að tryggja stjórnunarlegan aðskilnað milli vinnslu raforku, flutnings og annarra þátta.

3. Gjaldskrá fyrir flutning raforku á að hvetja til hagkvæmari nýtingar orkulindanna, vera einföld, gagnsæ og takmarka verðsveiflur. Mælir nefndin með svokallaðri punktagjaldskrá, þ.e. að gjöld verði annars vegar ákveðin sérstaklega fyrir hvern mötunar- og úttektarstað í flutningskerfinu og hins vegar verði gjöldin breytileg eftir árstíma. Gjaldskráin þarf að greina á milli forgangsorku og ótryggðrar orku og í stóriðjusamningum þarf að skipta orkusölutekjunum milli framleiðslu og flutnings. Nefndin leggur til að verðjöfnun, félagslegar framkvæmdir og niðurgreiðslur verði fyrir utan kerfið svo þær hindri ekki samkeppni eða dragi úr hagkvæmni. Þá þarf skýrar reglur um opinberan stuðning vegna félagslegra sjónarmiða.

4. Til að tryggja jafnræði milli allra fyrirtækja sem stunda vinnslu, flutning, dreifingu eða sölu raforku þurfa þau að búa við sömu starfsskilyrði óháð eignarhaldi. Af þeim sökum er lagt til að öll fyrirtæki í greininni verði hlutafélög, þar með talið flutningsfyrirtækið en öll raforkufyrirtæki landsins eru nú í opinberri eign. Samhliða þarf að athuga lög og reglur um skattlagningu fyrirtækjanna til að tryggja að breytingin gangi eðlilega fyrir sig og íþyngi ekki rekstri þeirra. Hið opinbera þarf að hafa eftirlit með sérleyfisþáttum raforkukerfisins (flutningi og dreifingu) til að tryggja hagkvæman rekstur, gæði orkuflutninganna, öryggi kerfisins, eðlilegan arð og síðast en ekki síst að kostnaður sé ekki millifærður úr samkeppnisumhverfi yfir á sérleyfisþáttinn. Lagt er til að að Samkeppnisstofnun annars vegar og Löggildingarstofan hins vegar annist þetta eftirlit.


Ítarlegar er fjallað um þessar tillögur í nýrri skýrslu Nefndar um stofnun Landsnets. Nefndin, undir forystu Þórðar Friðjónssonar forstjóra Þjóðhagsstofu og þáverandi ráðuneytisstjóra, var skipuð af iðnaðarráðherra í nóvember 1998. Í skýrslu nefndarinnar eru teknar saman ýmsar upplýsingar sem unnar hafa verið fyrir nefndina og niðurstöður hennar byggjast á. Þar er m.a. leitað í smiðju nágrannaþjóða Íslands þar sem skipulagi raforkumála hefur þegar verið umbylt. Hefur breytingin víðast hvar gefist vel og viðhorf til skipunar raforkumála breyst mikið á tiltölulega fáum árum.
Reykjavík, 14. mars 2000.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval