Smíði reglna um rannsóknir og nýtingu á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum

11.12.1998

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 22/1998


Vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um þann undirbúning sem fram hefur farið undanfarna mánuði í iðnaðarráðuneytinu við smíði reglna um rannsóknir og nýtingu á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum, vill ráðuneytið taka eftirfarandi fram:

1. Ástæða þess að unnið hefur verið að þessari reglusmíð er sú að í 34. gr. laga nr. 57, frá 10 júní síðastliðnum, (Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu) er skýrt kveðið á um það að iðnaðarráðherra beri að setja reglur á þessu sviði. Orðrétt hljóðar greinin svo:

"Lög þessi taka eftir því sem við á til rannsókna og nýtingar á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum. Rannsóknir og nýting örvera á jarðhitasvæðum er óheimil án leyfis iðnaðarráðherra samkvæmt lögum þessum. Leyfi samkvæmt þessari grein skal veitt að höfðu samráði við umhverfisráðherra. Náttúrufræðistofnun Íslands fer með eftirlit með rannsókn og nýtingu samkvæmt þessari grein.

Iðnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar í samráði við umhverfisráðherra.

Með örverum er átt við örverufræðilega einingu, myndaða af frumum eður ei, sem fær er um eftirmyndun eða yfirfærslu erfðaefnis."

2. Í lögunum segir að samráð skuli haft við umhverfisráðherra við reglusmíðina. Iðnaðarráðuneytið vill ítreka að það hefur verið gert, auk þess sem samráð hefur verið haft við þá aðila sem að umræddum rannsóknum standa eða sótt hafa um leyfi til slíkra rannsókna. Þessir aðilar eru: Iðntæknistofnun Íslands, Genís hf., Íslenskar hveraörverur ehf., Bláa lónið hf., Bio Process Ísland ehf., Rannsóknarráð Íslands, Ólafur S. Andrésson lífefnafræðingur rannsóknarstofnuninni Keldum og fyrir hönd Háskóla Íslands; Prófessorarnir Guðni Á Alfreðsson og Guðmundur Eggertsson auk Halldórs Jónssonar framkvæmdastjóra rannsóknarsviðs Háskólans.

Þessum aðilum hafa verið send drög að reglunum til umsagnar og tekið hefur verið tillit til fjölmargra ábendinga þeirra. Slíkt samráð verður áfram haft við þessa aðila. Hins vegar skal áréttað að lokagerð reglnanna er enn ekki komin fram og því hafa þær ekki hlotið staðfestingu þeirra ráðherra sem kveðið er á um í lögum.

3. Aldrei hefur staðið til að ganga á rétt þeirra sem nú stunda rannsóknir á hveraörverum, t.d. með útgáfu sérstaks leyfis til eins aðila, sem tæki til alls landsins og útilokaði aðgang annarra þeirra sem standa að hagnýtum rannsóknum að einstökum rannsóknarsvæðum. Því hefur ráðuneytið lagt áherslu á að milli þeirra tveggja aðila sem stundað hafa hagnýtar rannsóknir og hins nýja aðila, náist bindandi samkomulag um samstarf. Komi til þess að ekki náist slíkt samkomulag kemur til álita að veita hverjum aðila um sig almennt rannsóknarleyfi, sem ekki felur í sér sérleyfi. Útgáfa einkaleyfis, sem útilokar virka aðkomu annarra, hefur með öðrum orðum aldrei staðið til.

4. Vegna umsóknar Íslenskra hveraörvera ehf. sem barst ráðuneytinu síðastliðið sumar og fjallar um rannsóknarleyfi til hagnýtra rannsókna vill ráðuneytið taka eftirfarandi fram:

Starfsmenn iðnaðarráðuneytis lögðu áherslu á það, (sbr. 3ja lið hér að ofan) við umsækjanda strax í upphafi og ítrekað síðan, að grundvöllur veitingar leyfis sem fæli í sér einhvers konar sérleyfi væri sá að samkomulag tækist um samstarf við Genís og Iðntæknistofnun Íslands, sem eru þeir aðilar sem stundað hafa hagnýtar rannsóknir á þessu sviði hér á landi undanfarin ár. Genís og Iðntæknistofnun var sömuleiðis gerð grein fyrir þessari skoðun ráðuneytisins. Kjósi þessir aðilar nú að stunda hagnýtar rannsóknir hver í sínu lagi þá er það frjáls ákvörðun og ráðuneytið telur ekkert því til fyrirstöðu að veita þá hverjum aðila um sig almennt rannsóknarleyfi til hagnýtra rannsókna, ef um verður sótt. Í öllu falli er alveg ljóst að þessi fyrirtæki sitja öll við sama borð. Annað hefur aldrei komið til álita.

Niðurstaða:

Iðnaðarráðuneytið telur þá umræðu sem átt hefur sér stað og fullyrðingar um að til stæði að veita einum aðila einhvers konar einkaleyfi á kostnað annars, vera á misskilningi byggða, það hefur aldrei staðið til. Hins vegar er nauðsynlegt að setja skýrar reglur um aðgang manna og umgengni þeirra um þessa auðlind þjóðarinnar, eins og aðrar, enda kveðið á um það í lögum. Iðnaðarráðuneytið telur sig hafa staðið vel að undirbúningi reglusmíðarinnar með samráði við þau fyrirtæki, vísindamenn og ráðuneyti sem á þessu sviði starfa og verður það gert áfram.

Reykjavík, 11. desember 1998


 

Fréttir eftir árum...
Stoðval