Nýting innlendra orkugjafa til framleiðslu eldsneytis

17.2.1999

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 3/1999


Í júlí 1997 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra nefnd til að fjalla um möguleika á nýtingu innlendra orkugjafa, sérstaklega með tilliti til þróunar á notkun óhefðbundinna orkubera, eins og t.d. vetnis og metanóls.
Í nefndina voru skipaðir; Hjálmar Árnason alþingismaður, formaður, Bragi Árnason prófessor, Albert Albertsson aðstoðarframkvæmdastjóri, Þorsteinn I. Sigfússon prófessor, Ingólfur Þorbjörnsson deildarstjóri, Júlíus V. Ingvarsson framkvæmdastjóri, Þorkell Helgason orkumálastjóri, Þórólfur Árnason framkvæmdastjóri, Jón B. Skúlason atvinnumálaráðgjafi og Jón Baldur Þorbjörnsson bíltækniráðgjafi.
Megináhersla nefndarinnar hefur verið á framleiðslu vetnis og þróun tækni til að framleiða og nýta vetni. Enn er nokkuð dýrara að reka vetnisknúin farartæki en hefðbundin. Þróunin er þó í þá átt að munurinn fer minnkandi og gæti þar dregið verulega saman á næsta áratug. Því telur nefndin mikilvægt fyrir Íslendinga að fylgjast náið með framþróun vetnistækni og vera undir það búnir að söðla um í eldsneytisnotkun þegar og ef aðstæður leyfa. Takist það gætu Íslendingar hugsanlega sjálfir fullnægt eigin þörfum fyrir eldsneyti og þannig stuðlað að vistvænum samgöngum í og við landið.
Til að fylgja eftir starfi nefndarinnar leggur hún m.a. til:
1. Að formlegur aðili, t.d. hlutafélag í eigu einkaaðila eða opinberra aðila, taki við þeim tengslum og þeim samböndum sem nefndin hefur komið á við erlend fyrirtæki.
2. Að viðhaldið sé hagrænum úttektum á hagkvæmni innlendrar eldsneytisframleiðslu.
3. Að þeir innlendir og erlendir aðilar sem sýnt hafa áhuga á frekari framvindu umræddra mála sameinist um félagsstofnun til þess að fylgja málum eftir.
4. Að fylgst verði með þróun mengunarskatta, svo sem koltvísýringsskatta, og stefnt að hliðstæðri tilfærslu skattlagningar hérlendis.
5. Að vistvæn ökutæki njóti tímabundið skattalegs hagræðis, svo sem með afnámi vörugjalds og þungaskatts.
6. Að mótuð verði stefna um notkun vistvænna ökutækja hjá hinu opinbera, hvort sem er ríki eða sveitarfélögum og stofnunum þeirra, og einkafyrirtæki hvött til hins sama.
Áhugi erlendra aðila á samstarfi við Íslendinga um rannsóknir og tækniþróun á sviði vetnismála hefur stóraukist að undanförnu. Til að bregðast við þeim áhuga voru kynntar hugmyndir um stofnun félags af því tagi sem að ofan greinir, fyrir hópi íslenskra fjárfesta. Í kjölfar þess stofnuðu innlendir aðilar í vikunni með sér hlutafélag sem hefur fyrst og fremst það hlutverk að fara með hlut þessara aðila í öðru hlutafélagi, Íslenska vetnis- og efnarafalafélaginu ehf., sem mun styðja við rannsóknir og þróun á framleiðslu og nýtingu vetnis. Samkomulag um stofnun þess félags var undirritað í Reykjavík í dag.

Reykjavík, 17. febrúar 1999.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval