Allied EFA kaupir Kísiliðjuna við Mývatn

Hyggst reisa þar kísilduftverksmiðju

13.2.2001

Iðnaðarráðuneyti og Allied EFA
Nr. 1/2001


Í dag voru undirritaðir samningar um kaup Allied EFA á Kísiliðjunni við Mývatn af ríkinu og Celite Corporation. Samningarnir eru bundnir ýmsum skilyrðum, þ.á m. fyrirvara um samþykki Alþingis. Hlutafé Kísiliðjunnar er að 51% hluta í eigu ríkisins, 48,56% í eigu Celite og 0,44% í eigu átján sveitarfélaga á Norðurlandi. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að andvirði eignarhluta ríkisins renni til uppbyggingar á svæðinu.

Að mati ríkisins og Celite eru framtíðarhorfur í kísilgúrframleiðslu við Mývatn tvísýnar. Rekstrarafkoma hefur ekki verið viðunandi í nokkur ár og vegna vaxandi tilkostnaðar og nýrrar tækni eru ekki lengur sömu forsendur fyrir starfsemi verksmiðjunnar.

Ríkisstjórnin vill því tryggja eins og kostur er áframhaldandi atvinnu við Mývatn. Iðnaðarráðuneytið hefur metið áform Allied EFA um byggingu og rekstur kísilduftverksmiðju við Mývatn og telur að um vænlegan kost sé að ræða. Allied EFA leitaði fyrst til ríkisins um hugsanleg kaup á verksmiðjunni árið 1998 en ekkert varð af því þá. Viðræður voru í gangi á milli ríkisins, Celite og Allied EFA árið 1999 en þær leiddu ekki heldur til sölu Kísiliðjunnar. Á síðasta hausti tók Celite aftur upp viðræður við Allied EFA og leiddu þær til þeirra samninga sem nú liggja fyrir.

Allied EFA er fyrirtæki í eigu EFA (Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn) og Allied Resource Corporation. Tilgangur félagsins er m.a. fjárfestingar í framleiðslufyrirtækjum á sviði orkufreks iðnaðar, efnaiðnaðar og endurvinnsluiðnaðar á Íslandi.

Framleiðsla kísildufts byggist á nýlegum einkaleyfum og rekur dótturfélag Allied EFA, Promeks ASA, tilraunaverksmiðju í Norður-Noregi í þeim tilgangi að prófa vinnsluferlið og gæði framleiðslunnar. Áform eigenda Promeks um uppbyggingu fyrirtækisins fela í sér byggingu og rekstur nokkurra kísilduftverksmiðja. Að fenginni jákvæðri niðurstöðu á hagkvæmni kísilduftframleiðslunnar skuldbindur Promeks sig til að reisa næstu verksmiðju á lóð Kísiliðjunnar við Mývatn. Auk þess verður sett á stofn viðræðunefnd milli Allied EFA og ráðuneytisins um frekari iðnaðaruppbyggingu félagsins hér á landi.

Allied EFA hyggst stofna félagið Promeks á Íslandi til að kaupa Kísiliðjuna við Mývatn og eiga og reka fyrirhugaða kísilduftverksmiðju. Áformin eru í stuttu máli þannig að kísilgúr verði framleiddur, að fengnu nýju námaleyfi, til ársloka 2004 með möguleika á framlengingu um allt að tvö ár. Þetta er gert til að tryggja að atvinna í sveitarfélaginu verði samfelld. Allied EFA og Celite hafa gert með sér samkomulag um að söluskrifstofa Celite á Húsavík muni áfram selja kísilgúr frá Kísiliðjunni. Ákvörðun um byggingu kísilduftverksmiðju Promeks á Íslandi verður tekin í ágúst 2002, og ef af verður, mun verksmiðjan verða byggð á árinu 2003 og hefja rekstur á árinu 2004.
Reykjavík, 13. febrúar 2001. 

Fréttir eftir árum...
Stoðval