Ábyrgðarveitingar

30.1.1997

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 5/1997


Meðal þeirra neytendamála sem hvað mest hafa verið í brennidepli þjóðmálaumræðunnar undanfarin ár eru ábyrgðir einstaklinga til tryggingar lánum einstaklinga og fyrirtækja. Finnur Ingólfsson, viðskiptaráðherra, skipaði nefnd á síðasta ári til að fara yfir framkvæmd ábyrgðarveitinga og gera tillögur til úrbóta. Nefndina skipuðu fulltrúar viðskiptaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, viðskiptabanka, sparisjóða og Neytendasamtakanna.

Í skýrslu nefndarinnar kemur meðal annars fram:

  • Gera má ráð fyrir að um 90 þúsund einstaklingar yfir 18 ára aldri séu í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum þriðja aðila. Það er um 47% Íslendinga á þessum aldri.
  • Tvö bankalán af hverjum þremur eru með sjálfskuldarábyrgð. Ábyrgðarmenn í bankakerfinu eru að meðaltali í ábyrgð fyrir tæplega einni milljón króna.
  • Tíundi hver Íslendingur segist hafa greitt skuld vegna ábyrgðar á síðustu fimm árum.
  • Flest bendir til að ábyrgðir séu mun algengari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum.
  • Hvergi á Norðurlöndum hafa verið sett sérstök lög um ábyrgðir. Á einstaka sviðum hafa hins vegar verið sett ákvæði í gildandi lög. Að öðru leyti kveða ólögfestar reglur, dómsniðurstöður og niðurstöður kvörtunarnefnda á um réttarstöðu ábyrgðarmanna.
  • Í Danmörku og Svíþjóð hafa fjármálastofnanir og samtök neytenda gert samkomulag um notkun ábyrgða. Þar er kveðið á um ýmis atriði er tryggja vernd ábyrgðarmanna.

Finnur Ingólfssom, viðskiptaráðherra, og Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, hafa ákveðið að fylgja þessari skýrslu eftir og setja af stað vinnu í því skyni að bæta stöðu ábyrgðarmanna. Stefna skal að því að lánveitingar miðist alfarið við greiðslugetu lántaka og eigin trygginga hans.

Í fyrsta lagi verður komið á samstarfshópi stjórnvalda, fjármálastofnana og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða. Samhliða verður samið frumvarp um upplýsingaskyldu fjármálastofnana í viðskiptaráðuneytinu.

Í öðru lagi verður skipuð nefnd er kanni hvernig lánveitendum verði gert auðveldara að afla upplýsinga um skulda- og vanskilastöðu lántaka. Ætla má að slíkar upplýsingar geti bæði dregið úr vanskilum og leitt til þess að ábyrgða verði ekki krafist í jafn ríkum mæli og í dag. Hér þarf þó að fara að öllu með gát, enda um viðkvæmar upplýsingar um fjárhag fólks að ræða.

Í þriðja lagi verður í samvinnu við menntamálaráðuneytið kannað hvort ekki sé unnt að koma fræðslu um fjármál heimila inn í námsskrá grunn- og framhaldsskóla. Slík fræðsla þjónar ekki eingöngu þeim tilgangi að efla skilning ungs fólks á þessum nauðsynlega og sífellt flóknari þætti í daglegu lífi sérhvers manns. Hún þjónar ekki síður þeim tilgangi að efla vitund fólks um gildi peningalegs sparnaðar.

Reykjavík, 30. janúar 1997

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval