Frá iðnaðarráðuneyti og Íslenska járnblendifélaginu

13.3.1997

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 7/1997Eigendur Íslenska járnblendifélagsins h.f. hafa náð samkomulagi um stækkun verksmiðjunnar á Grundartanga. Samningurinn felur í sér að Elkem skrifar sig fyrir nýju hlutafé til að fjármagna þriðja ofn verksmiðjunnar sem eykur afkastagetu hennar úr 70 þúsund tonnum í 110 þúsund tonn. Jafnframt hefur verið samið um það við Landsvirkjun að Íslenska járnblendifélagið geti nýtt sér forkaupsrétt á raforku til þriðja ofns verksmiðjunnar með þeim skilmálum sem kveðið er á um í rafmagnssamningi milli Íslenska járnblendifélagsins og Landsvirkjunar frá 30. janúar síðast liðinn. Iðnaðarráðherra, fulltrúar Sumitomo, Elkem, Íslenska járnblendifélagsins og Landsvirkjunar undirrituðu samningana í gærkvöldi.

Meginefni samnings eigendanna er að Elkem mun leggja fram það viðbótarhlutafé sem þörf er á vegna stækkunar verksmiðjunnar. Með hlutafjáraukningunni eignast Elkem meirihluta í fyrirtækinu, eða 51 prósent. Elkem átti 30 prósent áður. Hlutur íslenska ríkisins verður 38,5 prósent í stað 55 prósenta en Sumitomo í Japan verður 10,5 prósenta hluthafi í stað 15 prósenta. Félagið verður almenningshlutafélag og að undangengnu almennu hlutafjárútboði skráð á hlutabréfamarkaði hér á landi strax á þessu ári. Hlutabréf íslenska ríkisins verða síðan seld á hlutabréfamarkaði í áföngum að undanskildum 12 prósentum sem hinir erlendu samstarfsaðilar eiga kauprétt á ef samningar um frekari stækkun með fjórða bræðsluofninum verða gerðir fyrir 1. júlí 1999.

Í samningnum er hlutafé í Íslenska járnblendifélaginu metið á 245 milljónir norskra króna - 2.548.000 íslenskra króna -. Matsverð fjárfestingarbankans Salomon Brothers International Ltd. í London, sem mat verðgildi hlutafjárins fyrir íslenska ríkið í haust, var á bilinu 225 til 250 milljónir norskra króna. Tvö íslensk verbréfafyrirtæki, Kaupþing og fyrirtækjasvið Íslandsbanka, mátu hlutaféð á 250 til 290 milljónir norskra króna. Í samningnum er einnig kveðið á um arðgreiðslur ársins 1996.

Jafnframt eru gerðar breytingar á markaðssamningi félagsins við Sumitomo. Ákvæði er um að Íslenska járnblendifélagið inni af hendi ákveðnar greiðslur til Elkem gegn því að öll framleiðsla hins nýja bræðsluofns verði þegar tekið inn í sölukerfi Elkem. Kveðið er á um meginreglur um að allar greiðslur skuli fara fram á grundvelli hlutlægra reglna um viðskipti milli óskyldra aðila og eftirlit óháðra endurskoðenda um framkvæmd reglnanna. Þá er ákvæði um að rannsóknar- og þróunarstarf verði treyst í sessi og að fyrirtækið verði áfram leiðandi afl á því sviði á Íslandi.

Innborgað nýtt hlutafé Elkem verður 932,5 milljónir króna. Fjárfestingin vegna þriðja ofnsins er um 2,7 milljarðar og verður það sem á vantar, um 1.800 milljónir, fjármagnað með lánsfé. Þetta tryggir mjög hátt eiginfjárhlutfall Íslenska járnblendifélagsins. Á aðalfundi félagsins sem haldinn verður í næsta mánuði verður formlega gengið frá hlutafjáraukningunni og breytingum á samþykktum félagsins. Á aðalfundinum fer fram stjórnarkjör og fær Elkem fjóra fulltrúa í stjórn fyrirtækisins, íslenska ríkið tvo og Sumitomo einn.

Eigendur Íslenska járnblendifélagsins eru sammála um að stækkun verksmiðjunnar bæti afkomu hennar og tryggi samkeppnisstöðu og atvinnuöryggi starfsfólks til lengdar. Með samningnum hefur einnig verið lagður grundvöllur að frekari stækkun verksmiðjunnar með fjórða ofninum og síðan hugsanlega þeim fimmta. Í því sambandi er samið um að ef ákvörðun er tekin um byggingu á fjórða bræðsluofnium fyrir 1. júlí 1999 eigi ELKEM kauprétt á 9 prósenta hlut í félaginu af ríkinu. Umsamið kaupverð þess hlutar verður 318 milljónir króna, sem samsvarar genginu 2,5. Miðað við það gengi verður markaðsverð heildarhlutafjár í félaginu eftir stækkun 340 milljónir norskra króna - um 3,5 milljarðar íslenskra króna. Sumitomo hefur kauprétt á 3 prósentum við þessar aðstæður á sömu skilmálum.

Þetta er mjög mikilvægt atriði til að tryggja heildarhagkvæmni frá upphafi en gildandi samningar gera ráð fyrir að nýr ofn sé tekinn í notkun í áföngum á fjórum árum


FREKARI UPPLÝSINGAR:

Afstaða ríkisstjórnarinnar
Markmið ríkisstjórnarinnar í samningum um stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins var að bæta afkomu félagsins og tryggja stöðu þess, samkeppnishæfni og atvinnuöryggi starfsfólks til frambúðar. Jafnframt taldi ríkisstjórnin stækkunina fela í sér einstakt tækifæri til vaxtar með nýtingu á kauprétti raforku frá Landsvirkjun. Þá telur hún stækkunina auka þátttöku og ábyrgð hinna erlendu eignaraðila. Og síðast en ekki síst tryggir stækkunin aukna erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, sem er eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar.

Forsaga
Stjórn Íslenska járnblendifélagsins lét kanna hagkvæmni þess að bæta þriðja ofninum við verksmiðjuna á Grundartanga árið 1995. Niðurstaða þeirrar könnunar þótti lofa góðu. Í október síðast liðnum lýsti Elkem vilja sínum til að tengja stækkun verksmiðjunnar meirihlutaeign norska fyrirtækisins. Því var svarað með því að bjóða Elkem aukna eignaraðild með möguleika á að komast yfir meirihluta ef ráðist yrði í frekari stækkun með uppsetningu fjórða ofnsins og jafnvel þess fimmta síðar.
Á fundi 9. janúar síðast liðinn kom fram málamiðlun sem samkomulag virtist vera um og var hún samþykkt af ríkisstjórn Íslands, Sumitomo og íslenskum stjórnarmönnum Íslenska járnblendifélagsins. Elkem féllst hins vegar ekki á málamiðlunina og gerði kröfu um meirihlutaeign strax. Sú krafa kallaði á frekari samningaviðræður sem slitið var á fundi í Oslo 28. febrúar án þess að samkomulag næðist.

Kostir íslenska ríkisisins eftir að uppúr slitnaði.

1. Gefa stækkunaráform upp á bátinn, eiga fyrirtækið áfram og bera ábyrgð á því. Þótti vondur kostur þar sem ráða má af þeim könnunum sem gerðar hafa verið að tveggja ofna verksmiðja á erfiðara uppdráttar í niðursveiflu afurðaverðs en þriggja ofna verksmiðja. Stækkun lækkar framleiðslukostnað og eykur rekstrarhagkvæmni. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að hingað til hefur ríkið lagt fjóra milljarða króna í verksmiðjuna.
2. Hætta viðræðum, gefa áform um stækkun upp á bátinn og selja hlut sinn á almennum markaði. Ríkið er bundið af forkaupsrétti meðeigenda ef til sölu kemur. Jafnframt liggur fyrir að verðmæti hlutabréfá í tveggja ofna verksmiðju en 20 til 30 prósent lægra en verðmæti hlutabréfa í þriggja ofna verksmiðju. Að auki yrðu nýir kaupendur bundnir af ákvæðum í núgildandi samningum, sem torvelda sölu.
3. Knýja fram stækkun með liðsinni Sumitomo. Sumitomo og íslenska ríkið eiga saman 70 prósent í Íslenska járnblendifélaginu og því hefur verið haldið fram að sá meirihluti væri nægur til að taka ákvörðun um stækkun, en til þess þarf 2/3 hluta atkvæða í félaginu. Lögfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að þessi leið sé ófær vegna ákvæða í markaðssamningnum við Sumitomo, sem kveða á um að Elkem þurfi að samþykkja breytingar á honum. Jafnframt hefur komið fram í viðræðum við Sumitomo að fyrirtækinu þykir þessi kostur ekki álitlegur.
4. Þrautreyna samninga allra eigenda Iðnaðarráðuneytið mat stöðuna svo að engum blöðum væri um það að fletta að stækkun verksmiðjunnar á Grundartanga væri fengur fyrir íslenskt þjóðarbú. Niðurstaðan var því sú að taka upp þráðinn í samningunum að nýju með það fyrir augum að höggva á þann hnút sem kominn var í viðræðurnar, einkum vegna deilna um verðmæti nýs hlutafjár. Þær viðræður hófust með óformlegum hætti sunnudaginn 9. mars og hafa leitt til þeirrar niðurstöðu sem nú liggur fyrir.

Þjóðhagsleg áhrif álvers CVC og stækkunar verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins á framkvæmdatíma.
 • Fjárfesting verður 36,2 milljarðar króna (CVC u.þ.b. 30 milljarðar. Íj u.þ.b. 6 milljarðar)
 • 22 milljarðar vegna raforkumannvirkja
 • 14 milljarðar vegna iðjuvera
 • aukningin verður 14 prósent á árinu 1997 og 24 prósent ár árinu 1998
 • Um 1.600 ársverk skapast á framkvæmdatímanum (CVC um 1.300, Íj um 300)
 • 530 ársverk 1997 og 760 ársverk 1998
 • 5 til 8 prósent fjölgun starfa í byggingariðnaði

Þjóðhagsleg áhrif að framkvæmdatíma loknum
 • Útflutningur eykst um 8,5 milljarða (CVC 6,8 , Íj 1,7)
 • 4,5 milljarðar þegar tillit hefur verið tekið til innfluttra aðfanga
 • útflutningur stóriðju verður 15 prósent í stað 11 prósenta
 • Um 180 störf skapast til frambúðar (CVC 150, Íj 30)
 • Varanleg heildaraukning landsframleiðslu verður um 5,5, milljarðar, sem er 1,1 prósent.
 • erlendar vaxta- og arðgreiðslur nema 2,5 milljörðum, sem er um 0,4 prósent af vergri þjóðarframleiðslu
 • Varanleg aukning þjóðarframleiðsu verður 0,7 prósent.

Ef stækkun Íslenska járnblendifélagsins og bygging álvers Columbia Ventures á Grundartanga fylgist að næst meiri hagkvæmni í rekstri Landsvirkjunar en ef aðeins fyrri kosturinn verður að veruleika.

Arðsemi af orkusölusamningi til stækkaðrar járnblendiverksmiðju og álvers CVC og Grundartanga er 6,7 prósent en 6,5 prósent ef viðbótin er einungis álverið. Hreint núvirði orkusölusamnings í milljónum króna verður 1.772 í stað 1.103

Reykjavík, 13. mars 1997.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval