ESB styrkir umhverfisstjórnun íslenskra fyrirtækja

29.11.1996

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 21/1996Tíu íslensk fyrirtæki í fiskvinnslu og matvælaiðnaði hafa verið valin til þátttöku í nýju mhverfisstjórnunarverkefni á vegum ESB. Evrópusambandið greiðir 50% kostnaðar við verkefnið en auk þess styður "Átak til atvinnusköpunar" þau fyrirtæki sem valin hafa verið til þátttöku.

Með samningnum um hið evrópska efnahagssvæði (EES) fengu Íslendingar aðgang að ýmsum verkefnum innan ESB á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja (LMF). Þessi verkefni hafa verið kynnt hér á landi, m.a. í bæklingnum Evrópuverkefni á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið gaf út í árslok 1995. Helstu verkefni á sviði LMF innan EES-samningsins eru á eftirfarandi sviðum: 1. Verkefni er stuðla að samstarfi fyrirtækja (s.s. BC-NET, Interprise, o.fl.), 2. upplýsingaverkefni, (s.s. Euro-Info), 3. ráðgjafaverkefni, (s.s. verkefnið Euromanagement-Environment) og 4. rannsóknarverkefni (s.s. Observatory Project) auk fl. verkefna.

Nýlega kynnti ESB nýtt verkefni á sviði ráðgjafar, en það er verkefnið Euromanagement-Environment - umhverfisverkefni á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja (LMF). Tilgangur Euromanagement-Environment - verkefnisins er að aðstoða LMF við að aðlagast umhverfisreglum ESB svokölluðum EMAS-reglum (Environmental Management Audit Scheme).

Fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu hér á landi eru 10 og hafa þau þegar verið valin. Þau eru öll á sviði fiskvinnslu og matvælaiðnaðar og eru: Borgey hf, Bakki hf, Bakkavör hf, Faxamjöl hf, Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf, Íslenskt franskt hf, Íslensk matvæli hf, Lýsi hf, Miðnes hf og Tros sf. Fyrri hluti verkefnisins stendur fram á mitt ár 1997 en á þeim tíma verða umhverfismál fyrirtækja greind og byggður upp grunnur að umhverfisstjórnunarkerfi innan þeirra. Þá hefst síðari hluti verkefnisins sem gefur fyrirtækjum möguleika á að taka upp viðurkennt umhverfisstjórnunarkerfi byggt á EMAS. Það er trú þeirra fyrirtækja sem þátt taka í verkefninu, að með því að setja upp umhverfisstjórnunarkerfi muni þau bæta samkeppnisstöðu sína á þessu sviði, lækka framleiðslukostnað og bæta ímynd sína.

Tilgangur verkefnisins er þríþættur: 1. Að þróa aðferðafræði innan EES-svæðisins til þess að aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki við að kom upp og efla umhverfisstjórnun þeirra og að örva þau til að taka upp umhverfisstjórnun byggða á umhverfisreglum ESB sem er kennt við EMAS. 2. Að aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki við hönnun og uppsetningu á umhverfisstjórnunarkerfi, sem uppfyllir kröfur umhverfisreglna. 3. Að greina veikleika og tækifæri sem blasa við litlum og meðalstórum fyrirtækjum vegna umhverfisreglna EMAS. Gefa ESB skýrslu um aðferðafræði og aðgerðir sem mikilvægt er að grípa til innan svæða og landa til að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum að aðlagast umhverfisreglum og koma með ábendingar um æskilegar breytingar á þeim vegna LMF.

Verkefnið var kynnt af Evrópusambandinu á árinu 1995. Það er rekið á þann hátt að einn aðalverktaki sér um framkvæmd þess fyrir ESB nánar tiltekið ráðuneyti (DG) XXIII sem fer m.a. með málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í hverju landi er verkefnið unnið af ráðgjöfum sem í allt eru 51 talsins, þar af einum ráðgjafa hér á landi. Ráðgjafar voru valdir af ESB á grunni tilboða. Þeir aðilar sem voru valdir hér á landi voru Iðntæknistofnun Íslands og Verkfræðistofa Stefáns Ólafssonar - VSÓ, sem starfa sameiginlega að verkefninu. Auk þess er starfandi einn samræminga- og eftirlitsaðili í hverju landi og fer Hollustuvernd ríkisins ásamt iðnaðarráðuneyti með það hlutverk. Evrópusambandið styrkir verkefnið með 50% þátttöku í kostnaði vegna ráðgjafavinnunnar allt að 2,5 millj. kr. og 50% í kostnaði samræmingaraðila, allt að 500 þús. kr. Kynningarnámskeið fyrir þátttökufyrirtæki vegna verkefnisins er haldið á Hótel Loftleiðum föstudaginn 29. nóvember þar sem verkefnið fer formlega af stað. Nánari upplýsingar veita
Baldur Pétursson iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Helga Jóhanna Bjarnadóttir Iðntæknistofnun Íslands og Ólafur Pétursson Hollustuvernd ríkisins.

Reykjavík, 29. nóvember 1996

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval