Norrænir orkuráðherrar undirrita samning varðandi Kyoto-bókunina.

29.9.2003

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 19/2003
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ritaði í dag undir samning fyrir hönd Íslands þess efnis að gera Eystrasaltssvæðið að tilraunasvæði (Testing Ground) fyrir sveigjanleikaákvæði Kyoto-bókunarinnar. Undirritunin átti sér stað í Gautaborg í Svíþjóð í tengslum við fund norrænna orkuráðherra.

Ástæða þess að norrænu ríkin hafa lýst yfir vilja sínum til að aðstoða Eystrasaltsríkin við að draga úr losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum er að þar er losun gróðurhúsalofttegunda mjög mikil, en geta ríkjanna til að takast á við þetta vandamál er takmörkuð.

Þátttaka íslenska ríkisins í samstarfi Norðurlandaþjóða í þessu verkefni mun í framhaldinu auðvelda og örva íslensk fyrirtæki til þátttöku í verkefnum um sameiginlega framkvæmd í samvinnu við fyrirtæki í Eystrasaltsríkjunum.

Eystrasaltsríkin og mörg Austur-Evrópulönd búa yfir miklum möguleikum á nýtingu jarðhita og þar eru góðir möguleikar á nýtingu íslenskrar tækniþekkingar og fjárfestingar.

Þátttaka Íslands í þessu verkefni Norðurlandaþjóða mun því geta stutt við og aukið líkur á þátttöku íslenskra fyrirtækja í jarðhitaverkefnum í Eystrasaltsríkjunum og um leið gefa Íslandi aukið svigrúm til nýtingar losunarheimilda er af slíku samstarfi leiddi.

Reykjavík, 29. september 2003.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval