Forstjóra Löggildingarstofu vikið úr embætti.

23.7.2003

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 11/2003

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur í dag vikið Gylfa Gauti Péturssyni, forstjóra Löggildingarstofu, úr embætti vegna stórfelldrar óreiðu á fjárreiðum stofnunarinnar.

Við úttekt Ríkisendurskoðunar á fjárreiðum Löggildingarstofu, sem lokið var í febrúar sl., komu fram alvarlegar athugasemdir við ýmsa þætti í rekstri stofnunarinnar. Að aflokinni frekari skoðun ráðuneytisins á þessum ávirðingum var Gylfa Gauti veitt lausn frá embætti um stundarsakir og máli hans vísað til meðferðar þriggja manna rannsóknarnefndar í samræmi við fyrirmæli 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Nefndin hefur nú skilað áliti sínu. Niðurstaða meirihluta nefndarmanna er sú að ótvírætt hafi verið um að ræða óreiðu á fjárreiðum Löggildingarstofu, sem Gylfi Gautur hafi borið ábyrgð á. Því hafi iðnaðar- og viðskiptaráðherra verið rétt að veita Gylfa Gauti lausn um stundarsakir.

Í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar og mat ráðuneytisins á málavöxtum hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra því ákveðið að víkja Gylfa Gauti úr embætti forstjóra Löggildingarstofu.


Reykjavík, 23. júlí 2003

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval