Nýr þjónustusamningur við Neytendasamtökin

6.5.2003

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 10/2003

Nýr þjónustusamningur við Neytendasamtökin.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Jóhannes Gunnarsson, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, við undirritun nýs þjónustusamnings.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar– og viðskiptaráðherra, undirritaði í dag nýjan þjónustusamning við Neytendasamtökin. Í samræmi við ákvæði samningsins taka Neytendasamtökin að sér að veita neytendum leiðbeiningarþjónustu og aðstoð vegna kvartana þegar vörur eru gallaðar eða þjónustu er áfátt. Með samningnum er neytendum tryggður aðgangur að slíkri þjónustu og er heildarfjárhæð hans alls tíu milljónir króna.

Neytendasamtökin munu samkvæmt samningnum jafnframt annast skrifstofuhald fyrir ýmsar úrskurðarnefndir sem stofnsettar hafa verið. Úrskurðarnefndir veita möguleika á að skjóta ágreiningsmálum neytenda og seljenda til sjálfstætt starfandi nefnda sem leggja mat á ágreiningsefnið og úrskurða í deilumálum milli neytenda og seljenda. Niðurstöðu slíkra nefnda má ávallt skjóta til dómstóla en reynslan sýnir að algengast er að nefndirnar gegna mikilvægu sáttahlutverki í ágreiningsmálum milli neytenda og seljanda. Færri mál koma því til kasta dómstóla eða annarra stjórnvalda og neytendum býðst ódýrari og fljótvirkari leið til að leysa úr ágreiningi við seljendur.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur komið á fót samstarfsneti milli aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu sem á að tryggja aðgang neytenda að sjálfstætt starfandi úrskurðarnefndum í öðrum ríkjum á EES-svæðinu. Viðskipti yfir landamæri hafa aukist á undanförnum árum og er samstarfsnetinu ætlað að stuðla að betri neytendavernd í Evrópu. Í samræmi við ákvæði þjónustusamningsins hafa Neytendasamtökin tekið að sér að vera tengiliður á Íslandi í framangreindu samstarfsneti.

Þjónustusamningur við Neytendasamtökin stuðlar að betri neytendavernd á Íslandi um leið og þjónusta sem samtökin veita almenningi á grundvelli fjárframlaga úr ríkissjóði hefur verið skilgreind.

Reykjavík, 6. maí 2003.
 

Fréttir eftir árum...
Stoðval