Niðurstöður starfshóps um mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda fyrir árin 2003-2008.

Kynningarfundur á Hótel KEA 16. apríl 2003

15.4.2003

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 8 /2003
Boðað er til kynningarfundar um niðurstöður starfshóps um "Mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda fyrir árin 2003 – 2008." Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir mun ávarpa fundinn, en síðan verða niðurstöður starfshópsins kynntar. Einnig verða á fundinum erindi og hagnýtar ábendingar frá verkfræðistofum/aðilum með mikla reynslu er varða þátttöku í stóriðjuverkefnum, um það hvernig íslensk fyrirtæki geta sem best undirbúið sig í þeim tilgangi að ná sem mestum árangri varðandi tilboð og verkefni í fyrirsjáanlegum stóriðjuframkvæmdum.

Í mars 1996 og janúar 1998 komu út skýrslur á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis um mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda 1996 - 2002 og 1998 - 2005. Stóriðjuframkvæmdum og tengdum framkvæmdum á orkusviðinu fylgja mikil umsvif sem hafa áhrif á atvinnumarkað. Mannaflaáætlanir í framangreindum skýrslum hafa sannað gildi sitt, en á þeim fimm árum sem liðin eru hafa forsendur nokkuð breyst, kostir sem taldir voru líklegir hafa frestast en aðrir kostir komið í staðinn. Því var aftur talið tímabært að yfirfara stöðu þessara mála og endurvinna áætlanir um þörf á mannafla miðað við þá kosti, sem nú eru taldir líklegastir á tímabilinu 2003 - 2008.

Í árslok 2002 óskaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, þess vegna eftir því að sami starfshópur ynni áætlanir um mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda 2003 - 2008. Tilgangur verkefnisins er að skilgreina og tímasetja áætlaða mannaflaþörf og þær þekkingar- og hæfniskröfur sem krafist er vegna áætlaðra stóriðjuframkvæmda. Starfshópurinn lagði einkum til grundvallar eftirfarandi atriði. 1. Árlega mannaflaþörf vegna fyrirhugaðra verkefna. 2. Þá þekkingu og hæfni sem verkefnin krefjast. 3. Hvort viðkomandi þekkingar- og hæfniskröfur séu almennt fyrir hendi og hvort þörf sé á sérstökum aðgerðum, t.d. átaki í starfsmenntun.

Megintilgangur þessa verkefnis er að varpa ljósi á hve miklar og hvers eðlis framkvæmdir við iðjuver og tilheyrandi virkjanir eru og búa íslensk fyrirtæki betur undir að takast á við þessi verkefni og gera þau betur samkeppnishæf. Þannig gæti hlutdeild þeirra orðið meiri í þessum framkvæmdum en annars hefði orðið. Í starfshópnum áttu sæti: Baldur Pétursson, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður, Andrés Svanbjörnsson Fjárfestingarstofunni, orkusviði, Ingólfur Sverrisson, Samtökum iðnaðarins og Örn Friðriksson, Samiðn, sambandi iðnfélaga. Starfshópurinn réði Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf. (VGK) sem tæknilegan ráðgjafa til þess að fjalla um framkvæmdaáætlanirnar og unnu Auður Andrésdóttir, jarðfræðingur, Kristinn Ingason og Runólfur Maack vélaverkfræðingar að verkefninu í samvinnu við starfshópinn.

Á kynningarfundinum mun iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir ávarpa fundinn, en síðan mun formaður starfshópsins, Baldur Pétursson, deildarstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti gera grein fyrir helstu niðurstöðum og fulltrúi VGK mun skýra frekar helstu þætti við vinnslu verkefnisins, sem og þau atriði sem varða æskilegan undirbúning fyrirtækja vegna verkefna á þessu sviði. Ennfremur munu Magnús Magnússon, Almennu verkfræðistofunnar og Magnús Ásgeirsson, forstöðumaður þróunar- og markaðssviðs hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, fjalla almennt um undirbúning íslenskra fyrirtækja vegna verkefna á sviði stóriðjumála og hvaða atriði eru mikilvægust í því sambandi. Jafnframt munu aðrir aðilar í starfshópnum kynna sín sjónarmið.

Kynningarfundurinn verður miðvikudaginn 16. apríl, á hótel KEA á Akureyri og stendur frá kl. 12:00 – 13:30. Skráning á fundinn er hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, í síma 545-8500.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval