Ráðstefna um samkeppnishæfni svæða og fyrirtækja.

8.4.2003

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 7/2003Ráðstefna haldin á Hótel KEA, Akureyri, 11. apríl 2003.

Þann 11 apríl nk. mun iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Verkefnisstjórn um byggðaþróun við Eyjafjörð og Iðntæknistofnun Íslands standa fyrir ráðstefnu á Akureyri um "Samkeppnishæfni svæða og fyrirtækja". Ráðstefnan byggir á stefnumörkun og áherslum iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur á sviði byggðamála og samkeppnishæfni, sem m.a. kemur fram í nýlegri byggðaáætlun, en sérstök áhersla hefur verið lögð á þessa málaflokka á umliðnum misserum á vegum ráðuneytisins, m.a. í margvíslegum verkefnum og athugunum.

Á vegum Verkefnisstjórnar um byggðaþróun við Eyjafjörð, hefur verið unnið sérstaklega að ýmsum verkefnum, er miða að því að efla byggðakjarna á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta hefur verið gert með margvíslegu starfi, s.s gagnaöflun, rannsóknum og starfi fjölmargra starfshópa á hinum ýmsu sviðum sem og öðrum verkefnum. Einn þáttur í starfi verkefnisstjórnarinnar er að miðla til landsins þekkingu og upplýsingum um erlenda ráðgjöf á sviði byggða- og samkeppnishæfni, er skilað hefur árangri erlendis og líklegt er að nýta megi hér á landi. Í þessu sambandi hefur m.a. verið horft til mikillar reynslu og þekkingar OECD á sviði byggðamála. Á ráðstefnunni er einnig ætlunin að skoða sérstaklega þróun klasa og byggðakjarna í Evrópu og þróun í byggðastefnu Finnlands. Síðast en ekki síst verður fjallað um þróun og stöðu í samkeppnishæfni Íslands, skv. mati World Econonic Forum, en sú stofnun er með einhverjar viðamestu rannsóknir á þessu sviði í heiminum, sem tekur til fjölmargra landa, atvinnugreina og fyrirtækja. Iðntæknistofnun Íslands er samstarfsaðili þeirra hér á landi.

Á ráðstefnunni verða bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar og fjallað verður um margvísleg atriði er varða samkeppnishæfni svæða, dreifbýlis, þéttbýlis sem og fyrirtækja. Fulltrúi OECD Allejandro Aurrecoechea, mun fjalla um starf stofnunarinnar á sviði byggðamála, en stofnunin hefur mikla reynslu og þekkingu á því sviði, sem í vaxandi mæli er hluti af umfjöllun stofnunarinnar um efnahags- og atvinnumál. Jafnframt mun hann einnig sérstaklega fjalla um LEED, verkefni stofnunarinnar á sviði byggðamála, en það verkefni snýr sérstaklega að uppbyggingu og samstarfi hinna ýmsu aðila á kjarnasvæðum.

Fionna J. M. Paua frá World Economic Forum (WEF) mun gera grein fyrir vinnu, greiningu og nýrri skýrslu stofnunarinnar um samkeppnishæfni einstakra landa, sem kom nýlega út. Fjallað verður um samkeppnishæfni Íslands, stöðu, þróun, veikleika og styrkleika. Þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúi WEF gerir grein fyrir niðurstöðum á þessu sviði hér á landi. Fulltrúi EIM í Hollandi, Elisabet Hauge, mun fjalla um þróun og myndun klasa (kjarnasvæða) víða í Evrópu, en nýlega kostaði ESB umfangsmiklar rannsóknir á þessu sviði, og átti Ísland sem EES land einnig aðild að þessari rannsókn. Einnig mun fulltrúi Norgregio, Kaisa Lahteenmaki-Smith, fjalla um byggðaáætlun í Finnlandi og þær breytingar sem orðið hafa á því sviði, ekki síst hvað varðar kjarnasvæði.

Innlendir fyrirlesarar munu einnig halda erindi. Kristján Þ. Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri, mun fjalla um áherslur og stefnu Akureyrarbæjar, Karl Friðriksson frá Iðntæknistofnun mun fjalla um samkeppnishæfni ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu, Guðbrandur Sigurðsson forstjóri ÚA mun fjalla um sjónarmið atvinnulífsins og Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri, mun fjalla um störf Verkefnisstjórnar um byggðaþróun fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir mun setja ráðstefnuna.

Ráðstefnan verður föstudaginn 11. apríl, á hótel KEA á Akureyri og hefst kl. 13:00. Skráning á ráðstefnuna er hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, í síma 545-8500.
Reykjavík 8. apríl 2003.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval