Málefni Löggildingarstofu.

8.4.2003

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 6/2003

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur í dag með bréfi veitt Gylfa Gauti Péturssyni tímabundna lausn frá embætti forstjóra Löggildingarstofu vegna stórfelldrar óreiðu á bókhaldi og fjárreiðum stofnunarinnar. Fyrir liggur að fjarskiptakostnaður stofnunarinnar hefur verið óeðlilega hár, eignakaup hafa verið úr hófi og ekki í samræmi við þarfir stofnunarinnar, auk þess sem dæmi eru um ýmsan óeðlilegan kostnað. Þá hafa eignir týnst vegna ófullnægjandi utanumhalds. Launamál og bókhald stofnunarinnar hafa verið í ólestri, og risna, ferða- og auglýsingakostnaður hefur verið óeðlilega hár miðað við fjárhag og umfang reksturs stofnunarinnar.

Málinu hefur verið vísað til þriggja manna nefndar í samræmi við fyrirmæli 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Nefndin skal rannsaka hvort rétt sé að veita Gylfa Gauti lausn að fullu, eða láta hann taka aftur við embættinu.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur jafnframt í dag sett Tryggva Axelsson í embætti forstjóra Löggildingarstofu um stundarsakir. Tryggvi er deildarstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og er lögfræðingur og rekstrarhagfræðingur að mennt.

Ennfremur hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra ákveðið að láta gera heildarúttekt á framtíðarfyrirkomulagi verkefna stofnunarinnar og fjármögnun þeirra. Úttektin verður unnin af ráðgjafarverkfræðingi í samráði við stjórn, settan forstjóra og starfsmenn Löggildingarstofu og viðskiptaráðuneytið. Ráðgert er að úttektinni ljúki fyrir næstu áramót.

Þá hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipað í dag nýja stjórn Löggildingarstofu. Í stjórninni sitja: Guðrún Rögnvaldsdóttir, verkfræðingur, formaður, Arnar Þór Másson, stjórnmálafræðingur og Eyvindur Grétar Gunnarsson hdl.

Reykjavík, 8. apríl 2003.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval