Aðgerðir vegna stöðu fiskeldis

18.4.2006

Verulegir erfiðleikar eru nú í rekstri fiskeldisfyrirtækja landsins. Fulltrúar landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneytis hafa átt fundi, m.a. með fulltrúum fiskeldisfyrirtækja, til að átta sig á stöðunni og leggja á ráðin varðandi aðgerðir til stuðnings greininni. Á fundi sínum 11. apríl sl. samþykkti ríkisstjórnin síðan eftirfarandi:

1. Fyrir liggur að kynbætur á völdum eldisstofni eru forsenda uppbyggingar þorskeldis því framleiðsla matfisks úr kynbættum stofni (aleldi) hefur yfirburði yfir þá aðferð að fanga villtan smáþorsk sem síðan er alinn í kvíum (áframeldi). Hér er hins vegar um að ræða langtímaverkefni sem mikilvægt er að búi við traustan fjárhagsgrundvöll.

Árlega verður veitt 25 milljónum króna til verkefnisins. Gerður yrði sérstakur samningur við framkvæmdaaðila kynbótaverkefnisins, þar sem m.a. yrðu sett skilyrði um vísindalegt framlag. Jafnframt yrði sett það skilyrði gagnvart fjárveitingu þessari að árlega skuli skilað fullnægjandi framvinduskýrslu til AVS sjóðsins.

2. Fiskeldisfyrirtækin hafa aukið verulega framleiðslu á bleikju, enda fæst mun hærra verð fyrir bleikju en t.d. lax. Íslendingar eru leiðandi í bleikjuframleiðslu á heimsvísu. Markaður fyrir eldisbleikju er eigi að síður ekki stór (lítill heimsmarkaður) og því er veruleg þörf á markaðssókn. Á árinu 1996 var framleiðsla eldisbleikju um 500 tonn en var á árinu 2005 um 1500 tonn. Gera má ráð fyrir verulegri aukningu í framleiðslu á þessu ári.

Veitt verður sérstöku 10 milljón króna framlagi næstu þrjú ár til markaðs- og sölustarfs í bleikju. Þessum fjármunum verði úthlutað í gegnum AVS-sjóðinn í samráði við fiskeldishóp AVS.

3. Á undanförnum árum hafa stærstu strandeldisstöðvar landsins notið sérstakra afsláttarkjara á orkuverði hjá Landsvirkjun og dreifiveitum, enda eru hér um að ræða stórnotendur á raforku. Á síðasta ári náðu fiskeldisfyrirtækin samkomulagi við Landsvirkjun um að þessi afsláttur yrði að óbreyttum aðstæðum í raforkukerfinu framlengdur til ársloka 2007.

Ríkisstjórnin mun leita leiða og vinna að því að sambærilegt raforkuverð gildi fyrir stærstu fiskeldisfyrirtækin eftir að núverandi samkomuleg fyrirtækjanna og Landsvirkjunar rennur út. Ríkisstjórnin leggur með því áherslu á að fiskeldisfyrirtækin búi áfram við sömu kjör og nú gilda.

Jafnframt lýsir landbúnaðarráðherra því yfir að hann muni beita sér fyrir áframhaldandi stuðningi við bleikjukynbótaverkefnið á Hólum í Hjaltadal.

Landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneyti 18. apríl 2006 

Fréttir eftir árum...
Stoðval