Neytendur og öryggi í viðskiptum á hinum sameiginlega innri markaði í Evrópu

17.10.2001

Iðnaðar – og viðskiptaráðuneyti
Nr. 18/2001


Tækifæri neytenda og fyrirtækja til að kaupa og selja vörur á hinum sameiginlega innri markaði í Evrópu fara stöðugt vaxandi. Forsenda þess er þó sú að neytendur hafi tiltrú og traust á slíkum viðskiptaháttum. Í öllum viðskiptum getur seld vara eða þjónusta reynst vera gölluð eða samningur með einhverjum hætti ekki uppfylltur. Aðildarríki á hinu Evrópska efnahagssvæði hafa því ákveðið að tilnefna einn aðila í hverju ríki fyrir sig sem ber ábyrgð á því að setja upp upplýsingavef fyrir neytendur og veita aðstoð ef þeir vilja leita úrlausnar hjá starfandi úrskurðaraðilum vegna viðskipta á hinum sameiginlega innri markaði í Evrópu.

Í öllum ríkjum eru starfandi sérstakar úrskurðarnefndir á ýmsum sviðum viðskipta sem taka til umfjöllunar og úrlausnar ágreining sem kann að koma upp á milli neytenda og seljanda á vörum eða þjónustu. Ástæða þess er sú að oft er um að ræða ágreining þar sem fjárhagslegir hagsmunir einstakra neytenda geta ekki réttlætt að þeir fari í dýr málaferli og því þykir þjóðhagslegra hagkvæmara að fela sérstökum úrskurðarnefndum úrlausn slíkra ágreingingsmála. Sameiginlegt markmið allra slíkra nefnda er að vera vettvangur fyrir fyrirtæki og neytendur þar sem með ódýrum og skilvirkum hætti er leyst úr ágreiningi með fullnægjandi hætti án afskipta dómstóla. Hér á landi starfa úrskurðarnefndir á ýmsum sviðum viðskiptalífsins og hefur það kerfi reynst árangursríkt eins og í öðrum ríkjum þar sem slík kerfi hafa verið þróuð.

Til þess að auka tiltrú neytenda á hinum sameiginlega innri markaði og öryggi í viðskiptum þá hafa aðildarríki EES og framkvæmdastjórn ESB því ákveðið að setja upp sameiginlegt samstarfsnet sem á að tryggja neytendum greiðan aðgang að úrslausnarkerfi aðildarríkjanna ef ágreiningur kemur upp í viðskiptum yfir landamæri.

Samevrópskt kvörtunareyðublað hefur verið þróað og munu neytendur leggja það til grundvallar ef þeir ákveða að nýta sér rétt sinn til kvörtunar vegna seldrar vöru eða þjónustu. Inntak og eðli kvartana getur verið af ýmsum toga. Í einstökum málum kann ástæða kvörtunar að vera sú að afhending vörunnar hefur farið úrskeiðis, varan eða þjónustan verið gölluð eða ekki í samræmi við þann samning sem neytandi hefur gert við seljanda.

Í dag 16. október er þessu samstarfsverkefni ýtt úr vör samtímis í öllum aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í fyrstu er um að ræða eins konar reynslukeyrslu til eins árs en síðar á næsta ári er gert ráð fyrir að framangreint samstarfsnet verði endurmetið og styrkt á grundvelli fenginnar reynslu á fyrsta starfsárinu. Samstarfsverkefnið er starfrækt undir heitinu "EEJ-Net Clearing House" og geta neytendur nálgast upplýsingar á sameiginlegu vefsetri þessara aðila en einnig með því að nálgast upplýsingar frá ýmsum innlendum tenglum s.s. frá vef viðskiptaráðuneytisins og síðan annarra aðila sem starfa að neytendavernd hér á landi og veita neytendum leiðbeiningar í sambandi við ágreining um kaup á vörum eða þjónustu.

Viðskiptaráðuneytið mun a.m.k. í upphafi verða hinn íslenski tengiliður og annast milligöngu og upplýsingagjöf ef íslenskir neytendur vilja nýta sér þær úrskurðarleiðir sem þeim kunna að standa til boða ef ágreiningur kemur upp vegna viðskipta þeirra í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Með sama hætti mun ráðuneytið annast upplýsingagjöf og aðra fyrirgreiðslu ef erindi berast vegna kvartana neytenda sem búsettir eru í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og beinast að íslenskum fyrirtækjum enda séu hér á landi að finna úrræði til umfjöllunar um mál neytenda utan dómstólakerfisins þ.e. úrskurðarnefnd sem hefur það hlutverk að leysa úr ágreiningi án þess að málið þurfi að fara fyrir dómstóla. Hjálagður er www.ena.is
Reykjavík, 16. október 2001.
 

Fréttir eftir árum...
Stoðval