Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

21.6.2001

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 11/2001Í dag mun Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenda fyrstu endurgreiðsluna á grundvelli laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Er það fyrirtæki á vegum Íslensku kvikmyndasamsteypunnar hf. sem heitir því ógnvekjandi nafni "Skrímsli ehf." sem fær endurgreiðslu á 12% af innlendum framleiðslukostnaði kvikmyndarinnar "No Such Thing". Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndaframleiðandi, tekur við endurgreiðslunni í dag klukkan 15.30 í Stúdíó.is að Laugavegi 176. Fjölmiðlum er hér með boðið að vera viðstaddir.

Á s.l. haustþingi mælti Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Frumvarp þetta var flutt vegna athugasemda sem Eftirlitsstofnun EFTA hafði gert við tiltekin ákvæði í upphaflegu lögunum.

Á meðan upphaflegu lögin voru til umfjöllunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA ákváðu íslensk stjórnvöld að ekki yrði um endurgreiðslur til kvikmyndaframleiðenda að ræða á grundvelli þeirra.

Frumvarpið varð að lögum á haustþingi og strax að því loknu var hafin vinna í ráðuneytinu við að endurskoða reglugerð með lögunum þannig að unnt yrði að taka til efnislegrar meðhöndlunar þær umsóknir sem borist höfðu frá kvikmyndaframleiðendum um endurgreiðslur. Ný reglugerð var síðan gefin út snemma árs.
Reykjavík, 21. júní 2001.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval