Leit að olíu við Ísland og á nálægum hafsbotni

13.11.1998

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 17/1998


Hinn 13. maí 1997 samþykkti Alþingi svohljóðandi ályktun um olíuleit við Ísland:

"Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að skipa starfshóp með þátttöku vísindamanna er meti hvort rétt sé að hefja markvissar rannsóknir á því hvort olía eða gas finnst á landgrunni Íslands. Hópurinn meti sérstaklega þau svæði á landgrunninu sem fyrirliggjandi rannsóknir benda til að líklegust séu til að geyma olíu eða gas."

Haustið 1997 skipaði iðnaðarráðherra starfshóp til að vinna að þessu verkefni. Hlutverk hópsins var í fyrsta lagi að yfirfara niðurstöður rannsókna á landgrunninu og meta á grundvelli þeirra hvort og þá hvaða svæði landgrunnsins kunni að geyma olíu og/eða jarðgas og gefa ráðuneytinu skýrslu um það. Ef líklegt yrði talið að einhver svæði landgrunnsins kunni að geyma olíu og/eða jarðgas var hópnum ennfremur falið:
1. Að meta hvort ætla megi að tæknilegar og fjárhagslegar forsendur séu til olíuvinnslu á þessum svæðum.
2. Að gera tillögur um með hvaða hætti má efla rannsóknir á svæðunum.
3. Að gera tillögur um kynningu á þessum svæðum til að efla áhuga innlendra og erlendra aðila á svæðunum.

Starfshópurinn hefur lokið störfum og hefur ráðuneytið gefið skýrslu hans út. Niðurstöður starfshópsins eru að nokkrar líkur séu til að olíumyndandi berg sé að finna í setlögum fyrir Norðurlandi og að þar geti jafnframt verið hentugt geymsluberg. Hins vegar sé hætt við að olíu- og gasefni sleppi út áður en þau ná að safnast fyrir í vinnanlegu magni vegna skorts á þakbergi sem og vegna brotahreyfinga á svæðinu. Miðað við núverandi þekkingu á aðstæðum telur hópurinn heildarlíkur á því að annaðhvort gas eða olía hafi myndast vera um 1:8 eða 12% Ef greint er á milli gass og olíu eru meiri líkur á gasi (1:10) en olíu (1:40). Hópurinn telur að þessar líkur séu ekki nægilegar til að freista olíufélaga, en ítarlegri rannsóknir gætu breytt því.

Starfshópurinn leggur til að rannsóknum verði haldið áfram og þær skiptist í tvo áfanga. Í fyrri áfanga yrði markmiðið að svara því hvort beinn vottur um olíu finnst í setlögunum án þess þó að staðsetja olíulindir sem kann að vera að finna. Íslensk stjórnvöld þyrftu að standa straum að kostnaði við þennan áfanga, sem talið er að gæti verið 30 - 50 milljónir króna. Að honum lokum þyrfti að endurmeta líkur á olíu eða gasi og kanna áhuga olíufélaga. Síðari áfanginn, ef til kæmi, fæli í sér djúpkönnun og borun. Sá áfangi yrði mun dýrari og vart á færi annarra en olíuleitarfélaga sem keyptu til þess leitar- og vinnsluleyfi.

Í skýrslu starfshópsins er stuttlega lýst stöðu rannsókna á þeim svæðum á landgrunni Íslands sem helst er talið að kunni að geyma olíu, þar ber hæst Jan-Mayen svæðið, þar sem Íslendingar og Norðmenn eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Líklegast telur hópurinn þó að Hatton-Rockall svæði geymi olíu eða gas í vinnanlegu magni, en ágreiningur er um réttindi Íslendinga á svæðinu.

Starfshópurinn fékk óháðan breskan ráðgjafa, Anthony George Doré, til þess að leggja mat á olíulíkur við Ísland og byggja niðurstöður nefndarinnar að nokkru leyti á mati hans. Skýrsla A. G. Doré er fylgiskjal með skýrslu hópsins.

Starfsmaður hópsins var Karl Gunnarsson jarðeðlisfræðingur á Orkustofnun.

Í starfshópnum sátu:
Sveinbjörn Björnsson, deildarstjóri á Orkustofnun, formaður,
Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, jarðfræðingur á Raunvísindastofnun Háskólans,
Guðmundur Hallvarðsson, alþingismaður,
Guðni Ágústsson, alþingismaður,
Ingunn St. Svavarsdóttir, sveitarstjóri,
Guðrún Helgadóttir, jarðfræðingur á Hafrannsóknastofnun,
Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur í umhverfisráðuneyti og
Steinar Guðlaugsson, jarðeðlisfræðingur á Orkustofnun.

Þorkell Helgason orkumálastjóri starfaði með hópnum.

SAMRÁÐSNEFND UM OLÍULEIT

Til að bregðast við ábendingum starfshópsins um að nauðsynlegt sé að ráðast í frekari rannsóknir á landgrunninu við Ísland hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra ákveðið að skipa þriggja manna samráðsnefnd með fulltrúum iðnaðarráðuneytis, utanríkisráðuneytis og Orkustofnunar. Í nefndinni munu eiga sæti þeir Jón Ingimarsson skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti, Eiður Guðnason sendiherra og Sveinbjörn Björnsson á Orkustofnun.

Hlutverk nefndarinnar verður að:
1. Vaka yfir íslenskum hagsmunum á sviði olíu- og landgrunnsmála. M.a. með því að fylgjast með olíuleit í nálægum löndum og á svæðum þar sem svipar til aðstæðna í íslensku efnahagslögsögunni, fylgjast með tækniþróun í olíuleit- og vinnslu og fylgja eftir hafréttarmálum okkar á Hatton-Rockall svæðinu.
2. Samhæfa viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna fyrirspurna olíuleitarfyrirtækja um rannsókna- og vinnsluleyfi í íslenskri lögsögu.
3. Gerra tillögu um hvaða stefnu skuli fylgt við veitingu rannsókna og vinnsluleyfa á landgrunninu og taka þátt í mótun laga og reglna á þessu sviði.
4. Koma fram fyrir Íslands hönd í samstarfi við Norsku olíustofnunina
5. Bæta yfirsýn yfr málaflokkinn í heild.


Reykjavík, 13. nóvember 1998.

 

Fréttir eftir árum...
Stoðval