80 milljónir króna til stuðnings atvinnuþróun og nýsköpun

2.10.1998

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 14/1998


Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um ráðstöfun 80 mkr. til stuðnings verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu, eins og heimilt er í fjárlögum þessa árs. Einkum er um að ræða verkefni á þeim landssvæðum sem ekki njóta góðs af atvinnustarfsemi sem tengist uppbyggingu á orku- og stóriðjusviði. Alls er um að ræða 60 verkefni.

Síðan fjárlög voru samþykkt hefur verið til skoðunar í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti með hvaða hætti mætti best nýta þetta fé til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar í atvinnulífi. Ráðuneytið fól stjórn Átaks til atvinnusköpunar að gera tillögur þar um. Auglýst var eftir umsóknum um styrki en jafnframt haft samráð við Fjárfestingarstofu Íslands og atvinnuráðgjafa landsbyggðarinnar um tillögugerðina.

Stjórn "Átaksins" hefur, á grundvelli umsókna, gert tillögur um úthlutun og hefur ráðuneytið yfirfarið þær og samþykkt. Tillögur þessar hefur ríkisstjórnin nú, sem áður sagði, einnig samþykkt.

Rauði þráðurinn í tillögunum er að veita styrki, í samstarfi við stofnanir, sveitarstjórnir, fyrirtæki og frumkvöðla, til einstakra verkefna er líkleg eru til að skapa atvinnu og virðisauka á landsbyggðinni. Mörg verkefnanna tengjast vöruþróun og sérstökum stuðningi við nýjar og álitilegar hugmyndir, sem eru til þess fallnar að auka fjölbreytni atvinnulífsins á þeim svæðum sem nú búa við einsleitt atvinnulíf. Þar á meðal eru mörg verkefni sem tengjast ferðaþjónustu. Nokkur verkefnanna tengjast erlendri fjárfestingu. Þau eru bæði almenns eðlis þ.e. tengjast markaðssetningu Íslands sem fjárfestingarkosts en einnig er þar um að ræða stuðning við tiltekin verkefni á tilteknum svæðum.

Stærstu verkefnin sem styrkt eru að þessu sinni eru 10 milljónir kr. í jarðhitaleitarátak á köldum svæðum, 6,5 milljónir kr. til forhagkvæmniathugunar á möguleikum orkufreks iðnaðar í Norðurlandskjördæmi vestra og 6.0 milljónir kr. til samstarfsverkefnis prjóna- og saumastofa í landinu.

Á meðfylgjandi yfirliti er gerð grein fyrir þeim verkefnum sem ákveðið hefur verið að styðja við og þeim lýst nánar.


Nr. Verkefnatillögur
Upphæð
1. "Málmgarður". Samstarfsverkefni fyrirtækja og stofnana um eflningu úrvinnsluiðnaðar úr léttmálmum. Því tengist samræming rannsóknar- og þróunarstarfs, þekkingarmiðlun og kynning á möguleikum á nýsköpun í tengslum við léttmálma. Áhersla verður lögð á málmsteypur og málmvinnslu í fyrirtækjum á landsbyggðinni. Mótframlag frá ýmsum aðilum, m.a. framleiðendum.
1.500.000
2. Polyol-verksmiðja á Íslandi. Lok forhagkvæmniathugana, gerð kynningarefnis fyrir erlenda fjárfesta og kynningarfundir með þeim. Hugsanlegir staðir eru Þorlákshöfn, Húsavík, Mývatnssveit og Suðurnesin. Hugsanlegt mótframlag frá Nýsköpunarsjóði.
3.000.000
3. Athugun á hagkvæmni þess að reisa fiskgelatínverksmiðju á Norðurlandi. Gelatín er prótein sem notað er við matvæla- og lyfjaframleiðslu og m.fl. Það er unnið úr fiskúrgangi, einkum roði og beinum.
750.000
4. Stefnumótun í skinna og fataiðnaði þar sem kannað verður hvort möguleiki er á aukinni verðmætasköpun úr íslenskum skinnum með því að auka hlutdeild útflutts fatnaðar á kostnað útflutnings á skinnum sem hráefnis til iðnaðar. Samvinnuverkefni Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar og fyrirtækja í greininni.
500.000
5. Áframhald uppbygging ferðaþjónustuverkefnisins "á Njáluslóð" í Sögusetrinu á Hvolsvelli í tengslum við nýtt og stærra húsnæði. Samstarfsverkefni sveitarfélaga á Suðurlandi o.fl.
2.200.000
6. Samstarfsverkefni Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar og heimamanna í Hrísey um stefnumótun um samræmingu ferðaþjónustu í Hrísey í þeim tilgangi að vinna markvisst að heildstæðri og fjölbreyttri ferðaþjónustu.
300.000
7. Endurbætur á framleiðslustýringu við hreinsun æðardúns til að fullvinna vörur og uppfylla alþjóðlegar kröfur og hagræðing í rekstri með endurbótum á vélakosti - Dalasýsla.
500.000
8. Úttekt á mögulegri iðnaðaruppbyggingu í Þorlákshöfn í tengslum við betri nýtingu á góðri hafnaraðstöðu og nægu landrými auk nálægðar við orkuvirki og jarðefnaauðlindir. Auk þess kynning fyrir erlendum fjárfestum sem vilja fjárfesta í meðalstórum iðnaði.
500.000
9. Kynning á möguleikum til eflingar atvinnuþróunar á Vestfjörðum. Leiðsögn og fagleg aðstoð m.a. um rekstrar- og framleiðsluþætti sem bætt geti afkomu fyrirtækja á svæðinu og ábendingar um möguleika nýsköpunar sem skotið gæti nýjum stoðum undir atvinnulíf á Vestfjörðum. Einnig að leiðbeina áhugasömu fólki á Vestfjörðum við að gera viðskiptahugmyndir að veruleika og þjálfa leiðbeinendur til að sinna slíku starfi. Unnið í samvinnu atvinnuráðgjafa og Iðntæknistofnunar.
1.000.000
10. Áframhaldandi vinna við gagnagrunn um ættir Vestur-Íslendinga vestanheims og tengja hann innlendum ættfræðiskrám. Einnig til áframhaldandi uppbyggingar Vesturfarasetursins á Hofsósi.
1.000.000
11. Kynning á möguleikum til eflingar atvinnuþróunar í Vestur-Húnavatnssýslu. Leiðsögn og fagleg aðstoð m.a. um rekstrar- og framleiðsluþætti sem bætt geti afkomu fyrirtækja á svæðinu og ábendingar um möguleika nýsköpunar sem skotið gæti nýjum stoðum undir atvinnulíf svæðisins. Einnig að leiðbeina áhugasömu fólki í Vestur-Húnavatnssýslu að gera viðskiptahugmyndir að veruleika og þjálfa leiðbeinendur til að sinna slíku starfi. Unnið í samvinnu atvinnuráðgjafa og Iðntæknistofnunar.
1.000.000
12. Atvinnuvegasýning í Stykkishólmi.
Kynning á atvinnulífi í Stykkishólmi allt frá sjávarútvegi og iðnaði til ferðaþjónustu og handverks.
500.000
13. Ráðstefna og greining á stöðu líftækniiðnaðar á Íslandi. Markmiðið er að fá yfirlit yfir þá möguleika sem eru til eflingar nýs hátækniiðnaðar tengdum líftækni. Mótframlag frá ýmsum aðilum.
400.000
14. Fjarfundakerfi, nettenging og samþætting á starfsemi þeirra sem stunda leiðsögn og þekkingarmiðlun til fyrirtækja um land allt. Samstarfsverkefni ITÍ, Byggðastofnunar, atvinnuráðgjafa og Iðnþróunarfélaga í öllum landsfjórðungum.
1.200.000
15. Samræming og markaðssetning á skoðunarferðum á lífríki Breiðafjarðar t.d. ferðir til hvalaskoðunar m.a. til að fullnýta aukinn skipakost.
500.000
16. Úttekt á styrkleika og veikleika Vestur-Barðastrandasýslu og mögulegri eflingu atvinnulífsins þar. Unnið í samvinnu við Byggðastofnun.
300.000
17. Uppbygging á safni og fræðslusetri á Húsavík um hvali. Stefnumótun og gerð viðskiptaáætlunar.
500.000
18. Brydesverslun í Vík. Áframhaldandi uppbygging verslunarminjasafns og söguseturs er tengist Brydebúð og þeirri fjölbreytilegu starfsemi sem þar hefur farið fram.
500.000
19. Stuðningur við endurnýtingu aðfluttrar plastverksmiðju sem fær nýtt hlutverk við framleiðslu ýmiss konar umbúða, skápa o.fl.
500.000
20. Gerð vefsíðu á Interneti, svokallað Hestanet, til að markaðssetja erlendis vörur og þjónustu er tengist íslenska hestinum. Hestanetið á að nýtast öllum þeim framleiðendum og þjónustuaðilum sem tengjast íslenska hestinum. Unnið í samstarfi við framleiðendur og Útflutningsráð Íslands sem kostar það að hluta.
1.000.000
21. Bæta framleiðslutækni við framleiðslu á hnökkum, beislum og skeifum og samræming og efling markaðsaðgerða erlendis. Samstarfsverkefni nokkurra framleiðenda.
2.000.000
22. Samræming á markaðssetningu á ferðaþjónustu og tengdri atvinnustarfsemi á Snæfellsnesi.
500.000
23. Iðnminjasafn á Akureyri. Safnið er í gömlu Hekluhúsunum á Glereáreyrum. Þar eru kynntar helstu iðngreinar sem við lýði hafa verið á Akureyri um áratuga skeið.
400.000
24. Verslun í Þingeyjarsýslum. Úttekt á styrkleika og veikleika verslunar í sýslunni og leit að nýjum sóknarfærum.
500.000
25. Rannsóknir á mögulegri framleiðslu á iðnaðarvöru úr leir sem finnst í Dalabyggð. Framleiðsluprófanir í verksmiðju í Frakklandi.
400.000
26. Saumastofa í Grenivík; hönnunar- og vöruþróunarverkefni um nýjar vörur og markaðssetningu þeirra.
300.000
27. Jarðhitaleitarátak á köldum svæðum. Framlag til samstarfsverkefna iðnaðarráðuneytisins, Orkuráðs og Byggðastofnunar um átak til leitar að jarðhita til húshitunar á þeim svæðum þar sem ekki eru hitaveitur nú en talið er að þjóðhagslega hagkvæmt kunni að vera að leggja hitaveitu. Átakið beinist einkum að frumstigum leitar en heimaaðilum og orkufyrirtækjum er ætlað að taka við framkvæmdum þegar vísbending er fengin um jarðhita sem hagkvæmt væri að nýta.
10.000.000
28. Kynning á aðferðum til orkusparnaðar vegna rafhitunar, gerð fræðsluefnis og fagleg ráðgjöf til almennings. 50% kostnaður við framkvæmd á móti Orkustofnun.
2.000.000
29. Úttekt á ástandi efnistöku og efnisvinnslu á Íslandi og gerð tillagna um bætt framtíðarskipulag og betri nýtingu á þessum óendurnýtanlegu auðlindum landsins.
200.000
30. "Á roði í reiðtúr" - útivistarfatnaður.
Þróunarvinna og undirbúningur að framleiðslu að nýrri línu íslensks tískufatnaðar fyrir hestamenn og annað útivistarfólk þar sem fiskroð verður ríkur þáttur í hönnuninni. Mótframlag frá ýmsum aðilum.
400.000
31. "Stofnun og rekstur fyrirtækja." Leiðbeinandi þjónusta um almennan undirbúning að stofnun fyrirtækja, gerð viðskiptaáætlana ásamt námskeiðahaldi um stofnun og rekstur fyrirtækja. Verkefnið hefur einkum nýst fólki á landsbyggðinni. Mótframlag frá Nýsköpunarsjóði.
100.000
32. Handverkshús á Blönduósi. Stofnun handverkshúss sem nýtist sem starfsstöð stofnaðila, aðstaða fyrir handverksfólk, aðstaða fyrir námskeið, samskiptamiðstöð handverksfólks og verslun.
500.000
33. Endurgerð seglbáts frá síðustu aldamótum í upprunalega mynd. Báturinn fær síðan hlutverk tengt ferðaþjónustu og hvalaskoðun frá Húsavík.
500.000
34. Hönnun og þróun á fjaðrandi báti sem er byggð á hugmynd umsækjanda. Stefnt er að því að frumgerð verði fljótlega tilbúin - Eyjafjörður.
500.000
35. Áframhaldandi þróun á hörvinnslu. Í verkefninu felast hagkvæmniathuganir á ræktun og framleiðslu hörs, feygingartilraunir og athuganir á líklegum mörkuðum. Mótframlag frá Framleiðnisjóði.
1.500.000
36. Hálendisvefur. Gerð stafræns kortagrunns um hálendi Íslands sem verður aðgengilegur á Interneti og nýst getur t.d. skólum, ferðaþjónustu og minni byggðarlögum í einfaldari verkefnum.
750.000
37. Áframhald þróunar á paté úr laxaafurðum bæði fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings.
500.000
38. Forhagkvæmniathugun á möguleikum framtíðaruppbyggingar orkufreks iðnaðar í Norðurlandskjördæmi vestra. Styrkleika- og veikleikagreining landsvæðisins. Í fyrsta áfanga verði lokið við slíka vinnu í Skagafirði.
6.500.000
39. Icelandia 2000. Undirbúningur og markaðssetning alþjóðlegrar sýningar á íslenska hestinum og vörum tengdum honum. Mótframlag frá ýmsum aðilum.
2.000.000
40. Margmiðlun, hönnun og framleiðsla á margmiðlunardiski þar sem er að finna allt það helsta um ferðaþjónustu á Íslandi. Nýtist vel smærri aðilum á landsbyggðinni sem hafa takmarkað auglýsingafé.
500.000
41. Framfarafélag og fulltrúar fyrirtækja í Bolungarvík. Kostaður verði ráðgjafi sem fer á milli fyrirtækja og veik- og styrkleikagreinir þau, kemur með tillögur um úrbætur og hugsanlega nýjar framleiðslulínur. Einnig verði möguleikar á nýjum atvinnutækifærum kannaðir í tengslum við nýsköpun, vöruþróun og nýja atvinnustarfsemi.
500.000
42. Uppbygging, rekstur og kynning á Kirkjubæjarstofu sem er upplýsinga- og fræðasetur með áherslu á náttúruvísindi, landmótun og ferðaþjónustu.
1.000.000
43. Samvinnuverkefni prjónastofanna í landinu. Samræming aðgerða við endurbætur á framleiðsluaðferðum, þróun nýrra textílafurða fyrir erlendan markað, og markaðsátak til að endurheimta fyrri stöðu á álitlegum markaðssvæðum, t.d. í Ameríku.
6.000.000
44. Þróun og markaðssetning á húsgagni fyrir börn, svokallaðri ferðaskrifstofu. Verðlaunaverkefni frá Hönnunardögum.
400.000
45. Hagkvæmniathuganir og viðskiptaáætlun vegna ferðaþjónustu. Undirbúningur að stofnun alhliða ferðaþjónustufyrirtækis á Norðurlandi.
300.000
46. Vöruþróun og markaðssetning á afurðum unnum úr smáþörungum.
800.000
47. Endurnýjun kynningarefnis um Ísland sem fjárfestingarkost. Gerð kynningarbæklinga og heimasíðu á Internetinu.
3.000.000
48. Útgáfa bóka á ensku um íslenskt rekstrarumhverfi "Doing Business in Iceland", útgáfa og dreifing.
1.000.000
49. Saltverksmiðja á Reykjanesi. Fjárhagsleg úttekt á rekstrargrundvelli verksmiðjunnar og kynning á niðurstöðunum fyrir fjárfestum.
500.000
50. Margvíslegar úttektir á hagkvæmni og markaðsforsendum erlendra fyrirtækja sem flytja mætti til Íslands. Áhersla á landsbyggðina. M.a. efling viðskipta við austurströnd Kanada og Bandaríkjanna er nýst gæti íslenskum jaðarsvæðum. Unnið af Fjárfestingarskrifstofunni.
3.000.000
51. Kynningarmiðstöð um Evrópuverkefni þar sem fyrirtækjum eru veittar upplýsingar um evrópskt samstarfsverkefni og þau aðstoðuð við að koma á vísinda- og tæknisamstarfi við erlend fyrirtæki.
3.000.000
52. "Reynslunni ríkari". Leiðbeiningar og aðstoð við konur til að taka fyrstu skref við mótun viðskiptahugmynda, viðskiptasambanda og til undirbúnings að stofnun fyrirtækis. Þetta verkefni ætti að henta konum á landsbyggðinni einkar vel. Mótframlag frá Nýsköpunarsjóði.
1.500.000
53. Tæknivöktun: Að safna upplýsingum og nýungum um tækni og rekstrarleg málefni og miðla þeim til fyrirtækja sem greiða áskriftargjald fyrir þjónustuna. Mótframlag frá Nýsköpunarsjóði.
1.100.000
54. "Uppeldissetur". Stofnun uppeldisseturs miðað við íslenskrar aðstæður í líkingu við það sem gerist t.d. í Nova Scotia. Takmarkið er að þróa tækninýjungar í fullmótaða framleiðslu og koma framleiðslunni af stað, t.d. í nýju fyrirtæki. Mótframlag frá Nýsköpunarsjóði.
2.000.000
55. Rekstur verkefna um atvinnuþróun á svæðum sem ekki njóta stóriðjuuppbyggingar. Leiðsögn og miðlun þekkingar til þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í nýsköpun. Mótframlag frá ýmsum aðilum.
4.000.000
56. Efling nýsköpunar í fiskeldi og tenging þess við uppbyggingu á ferðaþjónustu í Eyjafirði. Talið er að með vísindalegri þróun fiskeldis megi vænta mikils af þessari grein í framleiðni.
900.000
57. "Eldisbóndinn" er Evrópuverkefni sem að meginstofni er kostað af ESB. Samstarfsaðilar eru frá Írlandi og Hollandi. Um er að ræða þróun námsefnis fyrir bændur og aðra sem vilja hefja fiskeldi í smáum stíl.
800.000
58. "Ferðaþjónusta til framtíðar" er verkefni sem að meginstofni fjallar um umbætur á sviði umhverfismála hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Tilgangurinn er að hjálpa fyrirtækjum í ferðaþjónustu í dreifbýli við að bæta stöðu þeirra í umhverfismálum og að tengja starfsemi þeirra við þjóðmenningu. Samstarfsverkefni ITÍ, atvinnu- og ferðaráðgjafa, fyrirtækja í ferðaþjónustu og Tækniskólans í Þórshöfn í Færeyjum.
500.000
59. Þróun og markaðssetning á kúffiskþykkni sem framleiðsla er að hefjast á á Vestfjörðum. Kúffiskþykkni er unnið úr kúskel með suðu og notað til súpugerðar og sem bragðefni í sjávarrétti.
1.600.000
60. Kynning á íslenska hestinum á nýjum erlendum mörkuðum. Talið er að hefðbundnir markaðir séu u.þ.b. að mettast og til þess að geta viðhaldið svipuðum útflutningi og undanfarin ár þurfi markaðsátak á nýjum mörkuðum.
400.000

(Samtals kr. 80.000.000)

Reykjavík, 2. október 1998.


 

Fréttir eftir árum...
Stoðval