Sjóðir

Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF)

Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) starfar samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Jafnframt gildir reglugerð nr. 120/2000 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síðari breytingum, um sjóðinn. Markmið með lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta er að veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum og viðskiptavinum fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis í samræmi við ákvæði laganna. TIF fer með tryggingar samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og starfar í tveimur sjálfstæðum deildum, innstæðudeild og verðbréfadeild. Viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti eiga aðild að sjóðnum.

Stjórn TIF er skipuð sex mönnum til tveggja ára í senn. Viðskiptabankar tilnefna tvo menn í stjórn sjóðsins, sparisjóðir einn mann, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf sameiginlega einn mann og viðskiptaráðherra tvo menn. Viðskiptaráðherra tilnefnir jafnframt fulltrúa innstæðueigenda og fjárfesta sem áheyrnaraðila með málfrelsi og tillögurétt í stjórn sjóðsins. Þá skipar viðskiptaráðherra formann stjórnar. Formaður stjórnar TIF er Pétur Örn Sverrisson. Aðrir stjórnarmenn eru Andri V. Sigurðsson, fulltrúi fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og annarra sem nýta sér heimild laga til að stunda viðskipti með verðbréf, Haukur Þór Haraldsson, fulltrúi viðskiptabanka, Margrét Sveinsdóttir, fulltrúi viðskiptabanka, Sigurður Hafstein, fulltrúi sparisjóða, og Þórhallur Arason, fulltrúi viðskiptaráðherra. Áheyrnafulltrúi er Halldór Þ. Halldórsson.

Stjórn TIF er heimilt að ráða framkvæmdastjóra við sjóðinn eða semja við lögaðila um rekstur og vörslu hans. Stjórn sjóðsins hefur samið við Seðlabanka Íslands um rekstur og vörslu TIF. Seðlabankinn hefur tilnefnt Jónas Þórðarson, viðskiptafræðing, sem framkvæmdastjóra TIF.

Tryggingavernd innstæðueigenda og fjárfesta (pdf-skjal - 164Kb)



 







Stoðval