Forsíða IVR

Fréttatilkynning: Skýrsla nefndar um neysluviðmið

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 17/2006

Fréttatilkynning

Skýrsla nefndar um neysluviðmið

Opinber viðmið um áætlaðan framfærslukostnað heimila hafa verið tekin upp víða erlendis, til dæmis á Norðurlöndunum, Bandaríkjunum og víðar. Reynsla annarra þjóða af gerð og notkun slíkra neysluviðmiða leiddi til þess að í desember 2004 skipaði viðskiptaráðherra, á grundvelli samþykktar í ríkisstjórn, starfshóp sem nú hefur skilað áliti sínu. Starfshópnum var falið að leita svara við þeirri spurningu "hvort framkvæmanlegt sé að semja neysluviðmið fyrir Ísland, hverjir séu kostir þess og gallar". Jafnframt var honum falið að meta hvaða kostnaður kunni að fylgja því að viðhalda slíkum grunni þannig að hann haldi áfram að gefa raunhæfa mynd varðandi þá þætti framfærslukostnaðar sem eðlilegt er að séu í íslenskri útgáfu neysluviðmiðunarinnar.

Starfshópurinn er sammála um að útgáfa neysluviðmiðs, með svipuðum hætti og önnur vestræn ríki hafa gert, sé vel framkvæmanleg. Sambærileg aðferðafræði og notuð er í Svíþjóð, Noregi og Danmörku er tiltölulega kostnaðarsöm. Reynslan sýnir að nauðsynlegt er að neysluviðmið fyrir Ísland verði byggt á upplýsingum um íslenska neysluhegðun. Starfshópurinn mælir því fremur með að notuð verði svonefnd útgjaldaaðferð, sem meðal annars hefur verið notuð í Finnlandi og Bandaríkjunum. Neysluviðmið eftir þeirri aðferð byggist að stórum hluta á fyrirliggjandi upplýsingum sem reglulega er aflað í neyslukönnun Hagstofu Íslands. Notkun fyrirliggjandi upplýsinga úr slíkum könnunum sparar verulega fjármuni við vinnslu almenns neysluviðmiðs fyrir Ísland.

Starfshópurinn leggur til að sérfróðum og hlutlausum aðila, svo sem rannsóknastofnun á háskólastigi, verði falið að vinna neysluviðmið með þessari aðferð í samstarfi við Hagstofu Íslands. Starfshópurinn telur eðlilegt að forræði málsins og önnur umsjón með birtingu, t.d. á Netinu, verði í höndum Neytendastofu. Skýrsluna má nálgast á eftirfarandi vefslóð viðskiptaráðuneytisins: idnadarraduneyti.is

 

Skýrsla nefndarinnar (PDF skjal)

 

Nánari upplýsingar um skýrsluna veitir formaður starfshópsins Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, Borgartúni 21, Reykjavík, s. 510 11 00.Reykjavík, 11. október 2006.

 

  Stoðval